Spennan vex hjá Félagi leiðsögumanna

Seinni partinn í dag verða talin atkvæði í pínulitlu stéttarfélagi þar sem aðeins um 150 hafa atkvæðisrétt. Ef ég þekki mitt fólk rétt verða greidd atkvæði sjálfsagt innan við 100. Og ef ég þekki mitt fólk rétt verða samningarnir samþykktir.

Ég vinn næstum eingöngu fyrir eitt ferðaþjónustufyrirtæki. Það er mjög gott fyrirtæki, skemmtilegar ferðir, frábærir vinnuveitendur sem treysta manni til að vinna vinnuna án þess að hanga á öxlinni eða vakta mann með símanum, mátulegt kæruleysi í tímasetningum, vaðandi húmor og glens - og ferðirnar gerðar upp strax að þeim loknum. Í þessum bransa þar sem fyrirtæki týna tölunni er mikilvægt að vinnuveitandinn sé traustur, eigandinn sjálfur allt í öllu og kennitalan frá 1988.

Engu að síður er kaupið lágt. Ég vann nýlega akkúrat heila vinnuviku á rúmum þremur dögum, mestmegnis á dýrari tíma. Brúttólaunin voru um 90.000. Það þýðir 360.000 fyrir heilan mánuð næstum eingöngu í yfirvinnu. Það er - ég er auðvitað aðeins farin að endurtaka mig hér - með orlofi, með stuttum uppsagnarfresti ef svo ber undir, með undirbúningi, með fatakostnaði, með bókagjaldi og með desemberuppbót.

Leiðsögumaður notar ekki kaffitímann til að borga reikning í heimabankanum eða hringja úr síma vinnuveitandans í börnin sín og reka á fætur í sumarfríinu. Leiðsögumaður skreppur ekki frá til tannlæknis eða læknis eða í hádegismat með félögunum. Leiðsögumaður ákveður ekki að stytta daginn í annan endann vegna verslunarferðar eða til að nýta sveigjanleikaákvæði (hvaða ákvæði er það?). Nei, leiðsögumaðurinn notar kaffi- og matartímann til að gæta þess að farþegarnir fái sína næringu, alltaf á vaktinni ef þarf að þýða fyrir einhvern (þýska, franska, ítalska, spænska, finnska, hollenska o.s.frv.). Vissulega fá leiðsögumenn mat og stundum ofboðslega góðan humar eða sushi eða grafinn lax eða lambasteik eða nautasteik eða fjölbreytilegt hlaðborð - en leiðsögumaðurinn getur alltaf átt von á því að þurfa að rjúka frá borðinu. Kúnninn gengur alltaf fyrir og vissulega hafa leiðsögumenn þurft að hverfa matarlausir frá borðinu af því að of naumt hefur verið skammtað.

- Ég hef verið boðuð á skrifstofu félagsins til að fylgjast með talningunni. Heitar fréttir og lokatölur í næsta pistli ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég bíð spennt! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.6.2008 kl. 02:07

2 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Það hefur lengi verið til skammar hvað leiðsögumenn eru illa launaðir. Skil reyndar ekki af hverju því þið ættuð að vera með góða samningsstöðu. Sérstaða ykkar og sérþekking er það mikil. Systir mín er leiðsögumaður svo ég veit sitthvað um launakjörin. Gangi þér vel.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 24.6.2008 kl. 11:04

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Samkvæmt nýjasta símtalinu á ég að telja ... öll 30 atkvæðin. Óþolið er alveg að gera út af við mig.

Berglind Steinsdóttir, 24.6.2008 kl. 14:28

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Rakst á þessa athugasemd við færslu á bloggi Ómars Ragnarssonar. Hér talar Aðalheiður Ámundadóttir:

"Já gott og blessað. Hitt þykir mér samt undarlegt, að í þeirri umræðu að ferðaþjónustan lúti í lægra haldi fyrir stóriðju og hvalveiðum, er hvergi minnst á þau lúsarlaun sem boðið er upp á í ferðaþjónustunni. Að því leiti gef ég skít í þann atvinnuveg. Ég vann í greininni árum saman áður enn ég settist á skólabekk í annað sinn og aldrei hefur verið traðkað jafn mikið á mér, launalega séð, með allskyns smánarskap og svindli."

Ekki eru þetta nú falleg meðmæli með vinnuveitendum í ferðaþjónustunni, þótt misjafnir séu þeir nú eins og gengur. En það eru allt of mörg rotin epli þar innan um og jafnvel fólk sem kann nákvæmlega ekkert til verka og er allsendis óhæft til að skipuleggja ferðir.

Launakjörin eru smánarleg, en engu að síður heyrist af ferðaþjónustufyrirtækjum sem afpanta þjónustu faglærðra, íslenskra leiðsögumanna til þess eins að ráða erlenda aðila í staðinn sem hafa aldrei til Íslands komið af því þeir taka "leiðsögnina" að sér fyrir lítið eða jafnvel bara fæði og húsaskjól.

Ég skora á íslenska leiðsögumenn og bílstjóra að hætta að leiðbeina erlendum bílstjórum og "leiðsögumönnum" sem þeir hitta víða um land og vita ekkert hvert þeir eru að fara, hvað þeir eru að segja og jafnvel hvar þeir eru á landinu. Látum fólkið spjara sig sjálft og gera sín mistök - þá kvarta kannski kúnnarnir og ferðaskrifstofurnar hugsa sig tvisvar um áður en þær ráða aftur fólk til starfa sem "leiðsögumenn" sem varla veit hvar það er á jarðkringlunni.

Lára Hanna Einarsdóttir, 24.6.2008 kl. 16:24

5 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, ég gæti bara vel hugsað mér að hætta að hossa ókeypis leiðsögumönnum.

Mér fannst líka nokkuð góður punktur hjá Berki um daginn, hann lagði til að leiðsögumenn/bílstjórar rukkuðu 100 kr. fyrir hvert skipti sem þeir þyrftu að lempa upp hurð sem rútueigandi hefði trassað að laga (sparnaður sem bitnar á gæðum ferðarinnar). Sigga fannst að við ættum að rukka 150 kr. fyrir símtækið, og símtölin til viðbótar. Og Magga var send hringinn með 14 farþega á 19 sæta sprinter. Farþegarnir þurftu að fara út um dyrnar hjá henni, fyrst þurfti hún að lyfta leiðsögumannssætinu sem var tveggja manna tak og svo þurfti hún að fara fyrst út. Farþegarnir borguðu 2000 dollara fyrir vikuferðina um Ísland með Möggu. Þeir kvörtuðu svo sem en mér segir svo hugur um að þeir tali enn meira um það þegar heim er komið því að þeir vilja ekki endilega íþyngja leiðsögumanninum sem gerði sitt besta. Hvað er þetta mikill sparnaður í heildartölunni? Og skilur hann eitthvað eftir þegar upp er staðið?

Berglind Steinsdóttir, 24.6.2008 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband