Fimmtudagur, 14. ágúst 2008
Biddu þjóinn um aðstoð
Við fórum á Café Oliver í hádeginu. Þar voru tvær servítrísur að uppvarta, þjónustulundaðar með afbrigðum. Réttir dagsins litu girnilega út en samt leit ég á matseðilinn til að sannfærast um að ég gerði rétt í að velja mér karfa.
Á seðlinum sá ég hvatningu til gesta um að hafa samband við þjóinn ef aðstoðar væri þörf. Stemningin var svo góð á staðnum að ég fór að skellihlæja, og við allar þrjár sem vinnum við að reka augun í villur. Þjóustustúlkurnar útskýrðu fyrir okkur að þarna væri enginn sleipur í íslensku (samt hnutum við ekki um aðrar villur í prentuðum seðlinum).
Svo pöntuðum við okkur í feiknarlega góðu skapi, fengum góðan mat og fyrirtaksþjónustu. Það eru hreinar línur að ég fer aftur á Oliver við tækifæri - þrátt fyrir þjóhnappana.
Ásgerður og Laufey völdu sér eitthvað í brauði:
Það er atvinnusjúkdómur minn að hnjóta um villur hvar sem mig ber niður. Einhverju sinni var ég í sængurbúð og sá að á pakkningunum stóð heislukoddi í stað heilsukoddi. Ég hugsaði það óvart upphátt að þarna væri villa og afgreiðslukonan fyrtist við mig. Síðan hef ég keypt sængurnar mínar annars staðar ... iiiiii.
Oliverurnar fá hins vegar fullt hús fyrir lipurð og matinn minn. Ég get ekki svarið að kjúklingaborgarinn hafi verið ætur.
Athugasemdir
Kjúklingaborgarinn var mjööööög vel ætur þótt vissulega hefði kjúklingabringan inni í brauðinu mátt vera stærri. En borgarinn bara bragðaðist svo svakalega vel vegna góðrar þjónustu.
Ásgerður (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 08:59
Og var hinn sjillíborgari?
Berglind Steinsdóttir, 15.8.2008 kl. 09:12
Nafnið lofaði góðu en kóríander-mangóborgarinn var ekki svo voðalega góður (geymslubragð af kjöti og svoleiðis), alveg þokkalegur þó. Hins vegar var þjónustan ljómandi góð og félagsskapurinn ekki af verra taginu þannig að ég mæli með Café Oliver ef þið bjóðið Berglindi og Ásgerði með.
Laufey (IP-tala skráð) 18.8.2008 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.