Mánudagur, 25. ágúst 2008
Tryggð og trúfesta við síma- og tryggingafyrirtæki
Ég las um helgina forvitnilega úttekt á farsímanotkun unglinga. Stór hópur er óánægður með þjónustuna hjá Símanum en er samt áfram í viðskiptum við Símann.
Af hverju?
Af því að mamma og pabbi eru þar? Af því að þau nenna ekki að flytja sig? Vegna neikvæðni, yrðu ekki ánægðari annars staðar?
Reyndar er farsímaþjónusta orðin soddan frumskógur að það er ekki fyrir borgarbarn að hætta sér þar inn. Ég hélt t.d. eitt augnablik um daginn að ég gæti fengið að hringja fríkeypis í fimm vini óháð því hvar þeir væru í viðskiptum. En nei, það tilboð reyndist bara eiga við um þá sem eru í fyrirframgreiddri áskrift. Og nú les ég að þjónustan símavinir Símans kosti 1.000 krónur og að það kosti mig að hringja í númer hjá Nova þótt sá sem ég hringi í svari ekki, bara um leið og tónlistin byrjar að spilast!
Er þetta samkeppni, að bjóða alls konar gervitilboð og leika á notandann?
Ég þori ekki að segja annað um tryggingafyrirtæki en það að ef maður ætlar að skipta og segir upp tryggingunum geta þau allt í einu boðið manni ótrúlega miklu betri kjör. Núna eftir helgina ætlar pabbi í sitt fyrirtæki og spyrja í þaula þangað til hann fær svar við því hvernig tryggingar sem hann fékk tilboð í fyrra upp á 94.000 krónur hafa getað hækkað upp í 155.000 á milli ára. Ég treysti honum til að sitja hjá þjónustufulltrúa þangað til hann fær skýr svör - og segja svo helst viðskiptunum upp.
Athugasemdir
Má ekki skrifa þessa tryggð á leti?
Ásgerður (IP-tala skráð) 26.8.2008 kl. 14:08
Símafyrirtækin setja vísvitandi upp afar flókna verðskrá sem enginn hefur tíma eða nennu til að setja sig inn í. Verðið sem sýnt er viðskiptavinum þegar verið er að selja þeim vörna er hins vegar einfalt. Hjá því símafyrirtæki sem ég skipti við í Bandaríkjunum T-Mobile er bara ein tala: 16 sent mínútan. En það er ekki tekið fram að 16 sentin fara af kortinu hvort sem ég hringi eða er hringt í mig. Þegar td. sölumaður hringir í mig og vill bjóða mér ný dekk undir bílinn borga ég samtalið og hann líka! Ömurlegt svínarí. „Your calls“ er komið með alveg nýja merkingu!
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 26.8.2008 kl. 15:35
Og ætlarðu, Orri, að sýna T-Mobile tryggð? Bandarískir símar eru held ég alveg sérkapítuli, duga skammt og ná ekki í gegnum nokkuð þykka veggi sem okkar kerfi kemst í gegnum. Hefurðu farið með símann til útlanda? Og hvernig virkaði hann þar, þurftirðu þá ekki að borga enn meira fyrir að svara í símann?
Berglind Steinsdóttir, 26.8.2008 kl. 17:39
nei, það ætla ég ekki að gera, ég keypti fyrirframgreitt kort hjá þeim því þeir voru þeir einu sem ég gat keypt kort hjá og sett í isímann minn. Það var hugsað inn í gsm kerfið að kortin væru laus svo það myndi verða samkeppni á markaðnum, en símafyrirtækin svína á því og festa kortin við sín símtól til að tryggja sig í sessi.
Ég fékk mér kort hér úti til að þurfa ekki að skipta við íslensku félögin og þau erlendu og greiða háar fjárhæðir fyrir reikisímtöl. Ég hafnaði sem sagt viðskiptunum, ég hafnaði að greiða himinháar upphæðir fyrir þjónustuna. Ég vona að flestir geri það sama svo þjónustan lækki.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 28.8.2008 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.