Mánudagur, 1. september 2008
Meira af klósettum
Maslow greindi einhverju sinni lífsgæði þannig að fólki yrði að vera hlýtt, það mett og vel úthvílt til að geta notið frekari gæða lífsins. Reyndar man ég alls ekki hvernig hann orðaði það en frá því að ég kynntist þarfapíramídanum hans hef ég verið óskaplega meðvituð um þetta. Og þar sem ég er leiðsögumaður og hef ferðast um með hópa fólks sem stundum þarf að hægja sér veit ég að þetta er satt.

Sólmundur vinur minn í stéttinni var í viðtali á Rás 1 og fjallaði um starf leiðsögumannsins. Honum finnst - meðal annars - að klósett ættu að vera með jöfnu (eða ójöfnu) millibili þar sem fólk kæmist á prívatið og borgaði þá allt eins fyrir þá þjónustu frekar en að finnast það þurfa að versla við sjoppuhaldarann.
Bróðir minn er nýtekinn við rekstrinum í Víðigerði. Við vorum að spjalla um þessa þjónustu almennt um daginn og daginn eftir hringdi hann svo hlæjandi í mig og sagði: Hér kom 20 manna rúta til að fara á klósettið, og veistu hvað þau versluðu fyrir mikið? 40 krónur!
Sumir fóru hálflúpulegir á klósettið, sumir settu upp þóttasvip og einn kom með klinkið sitt og vildi fá fjölbreytilegt bland í poka - fyrir fjóra tíkalla.
Mér finnst engin einföld lausn í svona málum en mér hefur aldrei fundist sjálfsagt að sjoppueigendur þrifu eftir rútufarma. Hver er lausnin? Ætti Vegagerðin að blanda sér í málið, svona í ljósi þess að það myndi bitna á henni ef fólk kúkaði í vegkantinn?
Athugasemdir
Það skemmtilega er að Vegagerðin hefur einmitt blandað sér í málið eins og sjá má á http://www.vegagerdin.is/umferd-og-faerd/ferdaupplysingar/aningastadir/ .
Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess að Vegagerðin þétti net salerna í kring um þjónustustaði. Einmitt gott að allir þeir sem þurfa að pissa hópist í greiðasölur víðsvegar um landið og mögulega versli í leiðinni. Ef 20 manna hópur verslar fyrir 40 krónur þá er það býsna spes - gælir við óheppni og dónaskap.
Hvernig hópur var þetta annars ? Tæplega hópur unglinga og varla hafa þetta verið fjölskyldur með krakkalakka. Hópar eldri borgara eru aftur á móti sjaldnast að sólunda miklu fé í sjoppur. Veðja á að þetta hafi verið hópur á vegum félags eldri borgara sem hafi verið á leiðinni á Blönduós þar sem þau áttu pantaðan mat og sáu enga ástæðu til að fá sér eitthvað í svanginn rétt fyrir mat.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 08:56
Útlenskir ferðamenn. Það átti ekki að fara á milli mála, mér yfirsást að það kæmi ekki skýrt fram.
Berglind Steinsdóttir, 1.9.2008 kl. 09:36
Hvurs lenskir voru þeir?
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.9.2008 kl. 09:43
Ég veit ekki hvaðan þeir komu eða hver fylgdi þeim. Ég var bara nýbúin að segja við Gumma að það væri ábyggilega klókt að vera ekki að eltast við það þótt fólk færi á klósettið og við vorum sammála um að hann yrði bara að bjóða upp á þessa þjónustu - en við kannski reiknuðum með að meiri eftirtekja fylgdi.
Hún kemur áreiðanlega og ég held reyndar að hann sé í góðri sveiflu þarna.
Berglind Steinsdóttir, 1.9.2008 kl. 10:16
Mér finnst Víðigerði athyglisverður staður. Geturðu bent á betri slóðir?
Lára Hanna Einarsdóttir, 1.9.2008 kl. 10:32
Nei, bara það sem ég fann á google sjálf, s.s. þessa auglýsingu. Ég er ekki búin að heimsækja hann á þessum mánuði sem hann hefur átt staðinn en ég skal kynna mér hann betur í náinni framtíð.
Berglind Steinsdóttir, 1.9.2008 kl. 11:34
Mér finnst nú að það sé dálítið verk verslunareigandans að selja ferðafólki eitthvað, eftir að við leiðsögumenn erum búnir að koma því inn í verslanir þeirra, á þeirri forsendu að þar séu góð salerni. En kannski eru sumir bara verri sölumenn en aðrir, 40 kr. af 20 manns, eða halda bara að það sé nóg að bíða þegjandi með þóttasvip eftir viðskiftum.
Um daginn þegar ég kom í Víðigerði, (breytti Staðarskálastoppi í Víðigerði vegna bráða pissuþörf) þá var aðal vandamálið hvað illa gekk að sörvera liðið, og hálftímastopp varð að 50 mín.. Ég hugsa mig um tvisvar næst.
Börkur Hrólfsson, 1.9.2008 kl. 12:22
Hvenær um daginn, Börkur? Og finnst þér þá að kaupmaðurinn eigi að kalla inn í röðina að þarna sé gos og viðbit til sölu? Ég get alveg lofað þér að bróðir minn stendur ekki með þóttasvip og bíður, hann er þjónustulundaður og lipur. Hins vegar má vel vera að ekki hafi verið nægilega vel mannað í þetta skipti sem þú talar um - ef hann var yfirleitt tekinn við - hann er enn að reyna að kortleggja staðinn.
Berglind Steinsdóttir, 1.9.2008 kl. 13:06
Tja klósettmál eru reyndar sérlega heillandi og á leiðinni frá Borgarnesi til Blönduóss eru snyrtilegustu klósettin í Skálanum á Blönduósi... hef skoðað þetta til margra ára. Ég vona að þegar Gummi hefur haft tóm til að gera Víðigerði flottara breytist þessi pínulítið hlutlæga niðurstaða mín. Við mamma ræddum einmitt um mikilvægi góðra klósetta við Gumma og mamma benti á að alltaf vantar hengi fyrir veski og handfang fyrir eldra fólk að styðja sig við :-) En ég hef sem sagt 2svar sótt Gumma heim og líst vel á allar hans framkvæmdir. Go (to) Víðigerði! með að minnsta kosti fjóra tíkalla.... annars græddi hann ekkert á mér, gaf mér hins vegar kaffi.
Marín Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 19:21
Hahha, góður punktur með afhengikrókinn. Svo gætum við fært út kvíarnar í þessu spjalli og tekið það fyrir hvernig klósettpappírinn snýr, mikið áhugamál mitt og ýmissa sem ég þekki.Og ætli ég verði ekki að fara að druslast á staðinn og taka hann út. Það er bara svo langt að fara ... úr 101.
Berglind Steinsdóttir, 2.9.2008 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.