Fimmtudagur, 11. september 2008
Leifur útgerðarmaður hinn nýi Jóhann Bogesen?
Ég þrælaði mér í gegnum Ösku eftir Yrsu Sigurðardóttur. Ég hef þann veikleika að langa alltaf til að lesa nýjar íslenskar skáldsögur en greinilega þarf ég að fara að velja betur úr. Velja og einkum hafna.
Þóra er ráðin til lögmannsverka í ljósi hæfni sinnar, segir sagan, en þegar til á að taka er hún bæði óörugg, tafsandi og frekar vitlaus. Hún sér ekki augljósustu hluti og höfundur lætur hana í sakamáli velta fyrir sér hégómlegu hlutunum bara. Ég merkti ekki við þegar ég las og nenni ekki að leita að dæmum.
Verra, og langtum verra, er þó að höfundur segir í stað þess að sýna. Njörður minn ágæti Njarðvík lagði mikla áherslu á það í tímum að maður ætti að sýna en ekki segja í skáldskap. Þóra verður þreytt, leið, uppgefin ... í stað þess að maður lesi það á milli línanna. Einhver sagði við mig í dag að sagan væri eins og verkfræðiskýrsla. Mér finnst eins og höfundur hafi bara vantreyst mér til að lesa skáldskap. Hún vildi frekar draga upp línurit.
Skynsamlegasti punkturinn í bókinni var þegar Leifur Magnússon, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, var teiknaður upp sem hinn nýi Jóhann Bogesen. Leifur á útgerðina, Leifur heldur byggðinni í spennitreyju, enginn segir sannleikann af því að ekki má styggja Leif, Leifur snýr útibússtjóranum ... er ég ekki búin að segja nóg? Það var gott að hafa eitthvert kjöt á einhverju beini því að plottið var bara brjósk.
Mikið djö hlýtur hún að vera með góða þýðendur.
Athugasemdir
Samtöl voru stirð, orðanotkun í þeim skringileg, sérstaklega við aðstoðarkonuna sem hún dragnast með til Eyja án þess að hafa nokkra trú á að hún gæti gert gagn - how odd is that? Plottið sjálft mjög dauflegt og mig langaði í raun aldrei að vita hvers vegna líkin og höfuðið voru þarna í kjallaranum - fannst það bara ekkert spennandi. Lýtalækningainnleggið fannst mér ótrúlega ósannfærandi og lítið bitastætt. Merkilegt annars hvað hún leggur sig fram við að skapa innihaldsrýrar persónur.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 08:48
Hvað get ég sagt - annað en að ég tek undir allt sem þú segir? Ekkert dettur mér í hug sem gæti bætt listann hjá þér.
Berglind Steinsdóttir, 12.9.2008 kl. 16:13
Hef ekki komið hér inn áður, halló.
Ég get heldur ekki lesið þessa bók. Reyndi virkilega því ég náði heldur engri tengingu við persónuna / lögfræðinginn Þóru í Sér grefur gröf og ákvað að gefa þessari bók séns. Þvílík leiðindabók / bækur.
Sigga Hjólína, 19.9.2008 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.