Fimmtudagur, 2. október 2008
Getur eitthvað gott komið út úr þessari óáran?
Maður þarf að anda djúpt og taka skref frá byltingarvakanum til að reyna að hugsa: Geta hremmingar síðustu vikna og mánaða orðið til góðs?
Hafi Stoðir átt 60 milljarða hvað varð þá um þá við kaup ríkisins á Glitni? Bólgnaði bankareikningur einhvers staðar í heiminum? Hvernig geta einstaklingar, eða þótt það séu fyrirtæki, eignast ævilaun íbúa heilu borganna á svona stuttum tíma? Hvernig urðu þessir peningar til? Er þetta ekki bara talnaleikur sem kemur á daginn núna að ekkert mark er takandi á? Skeði skaði?
Fólk veit að ef það kaupir áhættusækin hlutabréf getur það tapað verðmætum. Hins vegar skilst mér að fólki hafi verið talin trú um að kaup í einhverjum sjóðum hafi verið ígildi venjulegra sparifjárreikninga með eilítið betri vöxtum.
Hvað með lífeyrissjóðina sem Helgi í Góu segir að séu bólgnir af milljörðum? Eru þeir bara tölur á blaði? Eða kaupa þeir banka núna?
Mig furðar reyndar að ekki sé nein umræða um útflutningsgreinarnar sem komast núna í feitt. Fiskur, ál, ferðaþjónusta - þýðingar - ég sé fram á að græða talsvert á einu verkefni sem ég rukka í evrum.
Við viljum bara stöðugleika. En þessar hugrenningar hér bera tíðarfarinu vitni, ég slæ úr og í og veit ekki hvert leiðin liggur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.