Fimmtudagur, 2. október 2008
Setjum svo að sparifjáreigandi eigi 4 x 20.000 evrur ...
Í útvarpinu heyrði ég viðtal við konu sem vinnur við fjármál. Því miður heyrði ég ekki upphafið og veit ekki hjá hvaða stofnun hún vinnur en hún sagði að sparifjáreigendur væru tryggðir með 20.000 evrur í hverjum banka. Því miður var ég ekki viðmælandi hennar því að ég hefði viljað spyrja hana hvað fólk ætti að gera ef það ætti 12 milljónir og vildi dreifa áhættunni. Eða hvað eru margir bankar á Íslandi? Telur hún kannski öll útibúin sérstaklega?
Myndi hún ráðleggja fólki að leggja inn í Glitni til að dreifa áhættunni? Inn í KB, Landsbankann og sparisjóð? Eru sparisjóðirnir eins margir og nöfnin á þeim? Er Byr sjálfstæður banki?
Hún tók fram að við það að dreifa peningunum missti fólk e.t.v. hámarksávöxtun í bankanum sínum, (meinta) ávöxtun sem kemur auðvitað til vegna hárra innistæðna.
Svo hélt hún að e.t.v. veitti Fjármálaeftirlitið einhverja ráðgjöf þótt hún væri ekki viss.
Ástandið á Íslandi er þannig að fólk sem er fullkomlega áhugalaust um verðbréf neyðist orðið til að setja sig inn í stýrivexti, skortstöðu og gjaldeyrisvaraforða. En sumir vilja bara vinna vinnuna sína og fá sanngjörn laun fyrir. Verður nú obbinn af landsmönnum hjá fjármálaráðgjöfum næstu vikurnar, annað hvort vegna skuldastöðu eða allt eins vegna eignastöðu? Og skyldu ráðgjafarnir þá rukka í krónum eða evrum? Skyldu ráðgjafarnir þora að ráðleggja?
Og skyldi eitthvað vera að marka þá?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.