Sunnudagur, 19. október 2008
Eftirlit vannýtt auðlind
Man ég ekki rétt að þegar Síminn var í sölumeðferð á sínum tíma - og seldist fyrir 66,5 milljarða króna (vá! fannst mér þá) - kom í ljós eftir dúk og disk að aðalgjaldkerinn hafði fríspilað með einhverja peninga? Ef ég man rétt kom það ekki í ljós fyrr en eiginlega of seint. Eftirlitsaðilinn sá það ekki þótt öll fjármál væru undir í sölumeðferðinni. Og tapaði ekki Síminn umtalsverðum fjármunum á vafasömum fjárfestingum erlendis? Á hverjum bitnaði það?
Fyrsta frétt sem ég fékk í google þegar ég sló inn sölumeðferð Símans var viðskiptaannáll 2006 sem er sjálfstætt forvitnileg lesning.
Ekki er því að undra mikinn áhuga fjárfesta á hlutafjárútboði Íslandsbanka í byrjun ársins þar sem selt var nýtt hlutafé fyrir 19 milljarða króna í lokuðu útboði til fagfjárfesta. Bjarni Ármannsson forstjóri keypti fyrir 930 milljónir og Karl Wernersson fyrir þrjá milljarða.
Febrúar
Mánuðurinn byrjaði á neikvæðum skrifum erlendra greiningardeilda um stöðu bankanna. Bankarnir sögðu gagnrýnina á misskilningi byggða og bjuggust til að bæta upplýsingagjöf til erlendra fjárfesta með von um skjóta úrlausn. Nánar er fjallað um bankaóróann í sérstökum kafla hér til hliðar.
Í byrjun mánaðarins gaf Kaupþing banki svo út svokölluð sérvarin skuldabréf" til að fjármagna húsnæðislán sín. Bankinn fékk toppeinkunn, AAA hjá Moodys, á bréfin, en það er sama einkunn og ríkið og í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki fékk slíka einkunn án ríkisábyrgðar.
Alveg klárt er að um bankana gildir ekki að illt umtal sé betra en ekkert."
Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, 8. febrúar.
Mars
Umræða um krónuna var lífleg í mars, enda stóð hún höllum fæti í hafsjó erfiðrar umræðu um íslenskt efnahagslíf. 21. mars kom út svarta skýrslan um Ísland" hjá Danske bank.
Maí
Í maí varð viðsnúningur í umræðu um íslenskt efnahagslíf og stöðu bankanna þegar hagfræðingarnir Frederic Mishkin og Tryggvi Þór Herbertsson birtu skýrslu sína. Útskriftarnemar á Bifröst kynntu einnig ritgerð þar sem bornir voru saman íslenskir og útlenskur bankar. Nemarnir voru bit á vinnubrögðum erlendra greiningardeilda. Þá var í undirbúningi ráðstefna Economist hér á landi og kvað við nokkuð hófstilltan tón í umræðu hagfræðings greiningardeildar Economist fyrir fundinn.
Um miðjan mánuðinn bættist svo við álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslensku efnahagslífi. Sjóðurinn kallaði eftir fastmótuðum reglum um fjárlagagerð sem hjálpað gætu stjórnvöldum að standast útgjaldaþrýsting á þenslutímum. Þá taldi sjóðurinn brýnt að gera breytingar á Íbúðalánasjóði, sem hefði af þarflausu grafið undan peningastefnu Seðlabankans, aukið ójafnvægi í hagkerfinu og ógnað fjármálastöðugleika". Undir lok mánaðarins tókust svo á sjónarmið bankanna og stýrihóps félagsmálaráðherra sem skila átti tillögum um framtíð Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn var og er enn pólitískt bitbein í hálsi hagkerfisins. Þá voru bankarnir í mánuðinum teknir að tipla á bremsuna í útlánum sínum, gerðu auknar kröfur og lækkuðu hámarkshlutfall lána.
Júlí
Í júlí taldi greiningardeild Kaupþings í efnahagsspá að niðursveifla væri byrjuð í efnahagslífinu og spáði raunvirðislækkun fasteigna um sjö til átta prósent næsta árið.
Straumur-Burðarás kom á óvart í afkomutölum og græddi 300 milljónir þegar spár höfðu gert ráð fyrir milljarðatapi.
Viðskiptaráð gaf út skýrslu sína Krónan eða atvinnulífið í lok mánaðarins. Þar voru sagðir tveir raunhæfir kostir í framtíðarskipan gengismála. Annað hvort að halda krónunni og fljótandi gengi, eða ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Til þess að Íslendingar geti átt raunhæft val milli þessara tveggja kosta þarf skipan og stjórn efnahagsmála að vera með þeim hætti að hún sé til þess fallin að stuðla hér að jafnvægi," sagði Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hann fór fyrir hópnum sem skrifaði skýrsluna.
Ágúst
Viðskiptabankarnir þrír sögðust langt komnir með fjármögnun næsta árs og virtust hafa greiðan aðgang að lánsfjármagni. Endurfjármögnunarþörf Landsbankans fyrir næsta ár var sögð nema 2,6 milljörðum evra, Kaupþings um 4 milljörðum evra og Glitnir sagðist hafa lokið fjármögnun næsta árs með útgáfu skuldabréfa fyrir yfir 2,7 milljarða evra.
Október
Stærsta arðgreiðsla Íslandssögunnar fór fram í mánuðinum þegar Kaupþing greiddi hluthöfum sínum 20 milljarða í formi hlutafjár í Exista.
Hér eru aðstæður almennt góðar en örmyntin helst til trafala. Ég tel að atvinnulífið muni stíga enn frekari skref út úr krónunni og við það veikist miðlunarkerfi Seðlabankans enn frekar."
Árni Oddur Þórðarson stjórnarformaður Marels, á morgun-
verðarfundi Viðskiptaráðs um stöðu krónunnar 3. október.
Desember
Glitnir var svo í mánuðinum fyrstur íslenskra banka til að opna útibú í Asíu, en hann er með útibú í Sjanghæ. Fjármálaeftirlitið kynnti nýja samninga við eftirlit annarra landa í mánuðinum. Væntanlega þrýsta umsvif Glitnis í Asíu á að tekið verðu upp samstarf við fjármálaeftirlitið í Kína.
Straumur-Burðarás sendi svo gárur um þjóðfélagið þegar bankinn ákvað að færa uppgjör sitt í evrum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði engum hafa dottið í hug að fjármálafyrirtæki færðu bókhald í evrum þótt lögfest hefði verði heimild til fyrirtækja um að gera það. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 25 punkta á aukavaxtaákvörðunardegi fyrir jól. Þar með eru vextirnir 14,25 prósent, en sérfræðingar telja að þar með sé lokið hækkunarferli stýrivaxta og þeir taki jafnvel að lækka á fyrri hluta næsta árs.
Mikið eru þrjú ár langur tími.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.