Miðvikudagur, 22. október 2008
Áfallahjálpin
Fyrir hönd þolenda fjármálaóreiðunnar er ég öskureið (öskurreið er réttara). Ég tapa en ég er smáseiði í menginu og skipti litlu máli. Það er nokkur huggun harmi gegn að öllum sem ég heyri í virðist misboðið þótt einstaka reyni að snúa baki saman og taka undir áskorun um að kjassa fjölskylduna og horfa út um framrúðuna.
Ég vil ekki sjá blóð renna, fjarri því, enda er engum greiði gerður með því. Ég vil hins vegar réttlæti, ég þoli ekki tilhugsunina um að þeir sem eiga sök á óreiðunni og vanlíðan fjölda fólks dilli sér við óminn af hrunadansinum, sendi okkur langt nef og noti ævisparnað gamals fólks til að bóna á sér stélið.
Þá verður mér hugarhægara við að blaða í blogginu hans Egils þrátt fyrir að á þeim ritvelli sé misviturt fólk og því miður of margt nafnlaust, hennar Öldu köldu sem skrifar á svo fallegri ensku þótt hún tali líka góða íslensku, auðvitað Láru Hönnu sem hefur heldur betur sett hlutina á hreyfingu og nokkrar fleiri síður.
Og bráðum hljótum við - líka við sem erum værðarleg - að rumska eins og hver annar þurs. Í hverju skúmaskoti er fólk að tuldra og tuldrið verður æ háværara. Fyrir suma er ástandið lífshættulegt, eins og hvert annað banvænt krabbamein, átröskun eða þunglyndi.
Og AF HVERJU er viðskiptaráðherra ekki lengur með virka síðu? Sér hann eftir einhverju sem hann sagði?
Ég ætla ekki að varpa fram spurningum núna, þær eru þekktar og ég hef ekki svörin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.