Mánudagur, 3. nóvember 2008
Frumkvæði og nýsköpun
Í síðdegisútvarpi Bylgjunnar í dag báðu stjórnendur þáttarins fólk að hringja inn með skapandi hugmyndir um uppbyggingu samfélagsins. Nokkrir sem ég heyrði í lögðu til að þorskveiðar yrðu auknar, fiskurinn unninn meira hér áður en hann er fluttur út og aflaheimildir innkallaðar og þær leigðar þeim sem raunverulega nýttu sér þær. Ég man ekki hvort einhver talaði í þessum þætti um að binda þær við byggðarlög en ég er nýbúin að heyra einhvern tala um það.
Sjávarútvegur er náttúrlega gamli undirstöðuatvinnuvegurinn, sá sem blívur þrátt fyrir allt.
Svo stakk einn upp á því að garðyrkjubændur fengju verulegan afslátt á raforkuverði og gætu þannig framleitt til útflutnings.
Landbúnaður var líka mikil atvinnustoð áður fyrr og nú virðumst við farin að horfa til gömlu stoðanna á ný. Er það ekki líka gott?
Einn minntist líka á Nokia í Finnlandi og lagði til að við fyndum okkur eitthvað einstakt til að framleiða og flytja út. Þótt hugmyndin að þessu einstaka liggi ekki fyrir í augnablikinu má kannski koma auga á réttu skímuna ef menn bera sig eftir því. Hvað eru Össur, Marel, Marorka og CCP að gera? Hversu langt er síðan þau sprotafyrirtæki uxu úr grasi og fullorðnuðust? Ég spjallaði við konu í sumar sem var á fullu að ráða fólk til CCP og ég held að fyrirtækið hafi þá vantað á annað hundrað manns í vinnu.
Tækifærin eru um allt ef við erum nógu kjörkuð til að setja ekki öll eggin í sömu körfuna.
Og ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um ferðaþjónustuna ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.