Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Edduverðlaun hvað?
Mér er slétt sama þótt RÚV leggi hálft sunnudagskvöld undir uppskeruhátíð kvikmyndagerðarmanna. Mér á jafnvel eftir að finnast forvitnilegt að heyra niðurstöðu mógúlanna, enda er ég búin að sjá tvær mjög góðar íslenskar myndir í ár, Sveitabrúðkaup og Reykjavík - Rotterdam.
Þar sem verðlaunin eru samt óhjákvæmilega huglæg að miklu leyti - ég meina, smekkur verður ekki mældur í sentímetrum - er ég logandi hrædd um að hin ljúfmannlega Eva María fái verðlaun sem sjónvarpsmaður ársins, kannski af því að Egill Helgason (Silfrið) og Jóhannes Kr. Kristjánsson (Kompás) þyki of miklir naglar. Af hverju eru aðeins þau þrjú tilnefnd? Í sumum flokkum eru fimm tilnefningar. Og ástæðan fyrir að það mun þykkna í mér ef Eva María uppsker þarna er að ég GET EKKI GLEYMT ÞEGAR HÚN TÓK ÞAÐ Í MÁL AÐ KIPPA BJARNA ÁRMANNSSYNI Í DÚKKULÍSUVIÐTAL Í ÞÆTTINUM SÍNUM Í FYRRA. Í marga daga var búið að auglýsa viðtal við einhvern prest en þegar Bjarni þurfti að skúra ímynd sína út af REI-málinu var Eva María fengin til að taka viðtal við hann um prjónaskap, kartöflur og foreldra hans.
Bjarni hefur aldrei virkað vel á mig þrátt fyrir mikla áferðarfegurð en elskuleg mamma mín féll alveg í stafi yfir því hvað hann væri vænn og vænn og vænn.
Þetta viðtal get ég aldrei fyrirgefið henni Evu Maríu þótt hún sé bæði klár og almennt vel gerð. Ég hef getað horft á sum viðtöl hjá henni síðan en ég valdi sannarlega Dagvaktina á Stöð 2 meðan ég átti auðvelt með það.
Athugasemdir
Ég er sammála þér! Flott samlíking að kalla þetta viðtal dúkklísuviðtal
Bjarni Ármanns virðist vekur greinilega sumum mikla hrifningu einmitt vegna þessarar „áferðarfegurð“ (annað frábært orð hjá þér
) en hinum vekur hann óhug vegna þess að þeir sjá í gegnum þetta englaútlit. Ein vinkona mín orðaði tilfinninguna sem þessi maður hefði vakið sér í umræddu viðtali hjá Evu Maríu þannig að hann hefði útlit manns sem gæti logið jafnvel sjálfan skrattann ráðalausan.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 17.11.2008 kl. 04:40
Mér var sagt nýlega að hersérfræðingurinn sem forsætisráðherra hefur nýlega ráðið til starfa (gegn þjóðinni, eða hvað?) hafi áður verið ímyndarsérfræðingur Bjarna.
Helga (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 11:37
Ég fæ hroll.
-Yfir í allt annað, ég sé að Helgi Seljan er kominn aftur í Kastljósið. Ég hef saknað hans - og kannast ekki við að hann hafi verið tilnefndur neitt. Má hins því miður ekkert vera að því lengur að horfa, borgarafundurinn kallar.
Berglind Steinsdóttir, 17.11.2008 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.