Fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Til hvers skáldskapur?
Eitt útilokar ekki annað. Samt hafði ég einu sinni meiri áhuga á bókmenntum og minni á þjóðmálum. Nú er svo komið að skáldskapurinn er trúlegri en sannleikurinn. Ég les alls kyns fréttaveitur og reyni að skilja hvað hefur gerst og hvernig það gat gerst.
Hvernig gat einhver fengið 25 milljarða króna lán án þess að lánveitandinn fengi veð í nokkru öðru en sneplunum sem peningurinn fór í?
Hvernig gátum við, þessi ríka þjóð, komið okkur í þá listrænu stöðu að við þyrftum meira en 10 milljarða dollara lán?
Hvers konar fyrirbæri er Imon? Geimvera? Efni í kvikmynd?
Hvaða skáldskaparpersóna er Bjørn Richard Johansen?
Hvernig verja menn það að áhættulaus ávöxtun skilar 31,2% mínus?
Hvaða einn maður trúir því að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis hafi ekki skilið fundinn sem hann sat með Alistair Darling?
Hvaða skáldlegu rök eru fyrir því að borga einum manni hundruð milljóna fyrir að hætta störfum í banka og öðrum hundruð milljóna fyrir að hefja störf?
Hvers konar manneskja kaupir pappíra fyrir 180 milljónir - og hirðir í heilt ár ekki um að ganga úr skugga um að kaupin hafi farið í gegn???
Ég er orðin svo þunglynd af þessum upprifjunum - þótt þetta sé bara aggalítið brot af því sem ég hef lesið frá 29. september - að ég hlusta núna grannt meðan Män som hatar kvinnor hvíslar að tímabært sé að fletta bók sem svo margir mæla með.
Tvennt þó áður en ég legg lokið aftur; þótt skoðanaskipti séu holl og ég lesi m.a. Silfur Egils reglulega leiðist mér ógurlega hversu margir skrifa ekki undir nafni. Af hverju gera menn það ekki? Munu þeir fá bágt fyrir á vinnustað? Skammast þeir fyrir skoðanir sínar? Sumt er bæði röklegt og vel skrifað, málefnalegt og gagnlegt fyrir umræðuna.
Hitt sem reynir talsvert á þolinmæði mína er þegar fólk talar um peningamarkaðssjóðina eins og að í þeim hafi bara gróðapungar átt peninga. Ég geymdi húsakaupapeningana mína í einum svoleiðis sjóði, sjóði sem enn er óuppgerður. Af hverju verður það fólk fyrir skotum frá þeim sem tapa peningum á áhvílandi húsnæðislánunum sínum?
Ég skæli ekki fyrir mína hönd frekar en Björgólfur, hehe, en við megum ekki skella skuldinni á nytsama sakleysingja.
Er þetta allt kannski bara lélegur farsi sem ég sofnaði út frá?
Athugasemdir
Hvað er þetta? Eru þetta ekki bara nokkrir sem hafa farið offari í góðærinu?
Hermann Bjarnason, 20.11.2008 kl. 21:36
Flott beinagrind að bók eða bíómynd sem byggja á sannri sögu
Rakel Sigurgeirsdóttir, 21.11.2008 kl. 02:16
Einmitt, góð viðskiptahugmynd ... hehe.
Berglind Steinsdóttir, 21.11.2008 kl. 07:56
Já, sannleikurinn er oft lyginni líkastur ... og þar með nær skáldskapnum (?)
Ásgerður (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 10:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.