Laugardagur, 29. nóvember 2008
Útvarpsleikfimi gamla fólksins slegin af
Síðunni barst sú dapurlega athugasemd að útvarpsleikfiminni sem Valdimar Örnólfsson hleypti af stokkunum fyrir löngu en hefur nú verið haldið við af indælli konu í 20 ár - í 10 mínútur eftir 10-fréttir á morgnana skilst mér - eigi nú að stúta.
Það kallast þá ágætlega á við það sem Sverrir Páll, íslenskukennari á Akureyri ef mér skjöplast ekki, segir í laugardagspistli sínum.
Hinni áttræðu ónettengdu konu sem hringdi í mig skildist að kostnaðurinn af útvarpsleikfiminni væri sáralítill, t.d. brot af mánaðarlaunum útvarpsstjóra á ársgrundvelli - en hvað ætli hún viti ...?
Athugasemdir
Merkileg er hún þessi árátta að spara alltaf með því að skera niður hjá lítilmagnanum.
Frekar sleppa þessir menn þrifunum í kringum pöpulinn (starfsmennina) heldur en að missa spón úr eigin aski. Og að ætla að skera í burtu 10 mínútna þátt í staðin fyrir að skera í burtu 10 milljóna bíl (eða hvað sem útvarpsstjórabíllinn kostar) finnst mér hlægilegt en þó er mér ekki hlátur í huga.
Neddi, 29.11.2008 kl. 11:44
Jamm, og hvers vegna var aftur Auðlindin tekin af dagskrá í fyrra eða hvenær það var? Í honum var fjallað um sjávarútvegsmál - en hey, hann er kominn aftur - í mýflugumynd í lok hvers fréttatíma hafi ég tekið rétt eftir.
Þetta hangir á sömu spýtunni.
Berglind Steinsdóttir, 29.11.2008 kl. 12:56
Ég skil alls ekki hvers vegna ég er ekki látin stjórna niðurskurði í ríkisstofnunum - ég væri frábær! Til dæmis gæti ég sparað rétt tæpa milljón á mánuði (bara í RÚV)með því að lækka laun Páls Magnússonar niður í 900 þús. kall ... sem eru alls ekki léleg laun og alveg nóg til að stjórna RÚV. Svo léti ég hann einmitt selja bílinn sinn úr landi og léti honum reiðhjól (eitthvað gott) og strætókort í té. Sama gerði ég við bankastjórana. Þeir bera enga ábyrgð hvort sem er svo 900 þús. kall er meira en nóg. Og svo sannarlega setti ég leikfimina aftur á dagskrá hjá RÚV - ég var einmitt í leikfimi í morgun með RÚV.
... hmmm... ég yrði kannski sérlega vinsæl hjá stjórnendum þessara stofnana.
Ásgerður (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.