Svæðisleiðsögunám um Gullhringinn?????

Detti mér allar dauðar lýs úr höfði. MK sem rekur ferðamálaskóla og leiðsöguskóla efnir nú til svæðisleiðsögunáms um Reykjavík og nágrenni.

Er þetta hugsað til að mæta eftirspurn eftir fagþekkingu þegar ferðamannastraumurinn þyngist vegna stöðu krónunnar?

Er þetta til að mæta eftirspurn eftir fagmenntuðum leiðsögumönnum nokkra stóra skipadaga á sumri?

Leiðsögumenn í dagsferðum þurfa að vita meira en um það svæði sem þeir fara um - á að kenna það? Hefur kannski ekki verið þörf á að kenna leiðsögn í heilt ár hingað til? Eyddum við sem dvöldum eitt ár í Kópavoginum einni önn í eitthvert hjóm?

Nú vildi ég segja þetta við Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra SAF: Ef SAF hefði ekki verið fremst í flokki við að halda niðri launum og öðrum kjörum leiðsögumanna væri ekkert vandamál að manna stóru skipadagana með fagfólki. Ef SAF hefði ekki skipti eftir skipti neitað að viðurkenna að við þurfum löggildingu á starfsheitið hefði okkur tekist að semja um hærri laun og þannig haldist betur á fólki. Samtök ferðaþjónustunnar hafa staðið af mikilli alúð þá vakt að halda stéttinni niðri og opnað þannig á innkomu fólks sem er rétt slarkfært í tungumálum og veit varla hvar Hellisheiðin er.

Og nú á að veita þessu fólki skemmri skírn með svæðisleiðsögumenntun um Gullhringinn.

Sjálfri hefði mér kannski dottið í hug að fara í þetta skammtímanám ef ég væri ekki búin að læra til leiðsögumanns og ef ég ekki vissi um fagleysið í efri lögum þannig að ég þykist vita að fullt af ágætu fólki og velmeinandi sæki um í góðri trú.

Á sama tíma er nýbúið að setja á laggirnar þriggja anna nám í Endurmenntun HÍ, nám sem leggur sig á 495.000. Hvað verður því fólki kennt? Hvar kemur það til með að standa í dagsferðum miðað við þá sem eyða einni önn og 125.000 í nám sem gefur þeim mikið til sömu réttindi? Og ég verð að hlæja kuldahlátri meðan ég rifja upp þá sem þegar eru orðnir svæðisleiðsögumenn á öðrum svæðum og hafa - að sjálfsögðu - farið hring eftir hring með ferðamenn. Ferðaskrifstofurnar gá nefnilega ekkert að þessu.

Þetta er einfaldlega ófaglegt. Og það er skömm að því. Svei þeim sem standa fyrir gjaldfellingu þessa mikilvæga hluta ferðaþjónustunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr og hana nú,...

ferðamálastjóri sagði á ráðstefnunni um daginn að hreyfing væri komin á löggildingarmálið (eða þannig skildi ég hana)

en þetta er náttúrulega bara dónaskapur, er ekki fínt að bjóða upp á fótahjúkrunarfræði, 1 kúrs í HÍ,.. alveg óþarfi að læra meira ef þú ætlar bara að hjúkra fótafúnum,

kv. me leiðsögumaður um allt land

margrét einars (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 00:02

2 Smámynd: Börkur Hrólfsson

Alveg rétt, það er náttúrulega hneisa, og til skammar, að menntamálaráðherra og iðnaðarráðherra skuli ekki taka þetta upp og stöðva. Svo sýnir þetta metnaðarleysi kennslu yfirvalda, og sennilega hafa þau ekki hugmynd um staðalinn "ÍST EN 15565:2008", sem tók gildi þ. 1.Ágúst í ár, og fjallar um menntun leiðsögumanna.

Það er unnið að því að reyna að koma í veg fyrir að af þessu námskeiði verði.

Börkur Hrólfsson, 1.12.2008 kl. 01:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband