Íbúð til sölu

Í ljósi þess að nú boða ýmsir að útrásarvíkingarnir sem settu landið á hausinn ætli að koma sem frelsandi englar og kaupa verðmætin fyrir slikk langar mig að vekja athygli á fallegri íbúð í Skuggahverfinu sem einn af minna þekktu útrásarvíkingunum á víst.

Mig hálfvantar íbúð og langar að búa í 101 og hafa gott útsýni og miklar sólarsvalir þannig að ég ætti trúlega að bjóða í hana. Hún er 165 fermetrar og verðlögð á 85 milljónir sem þýðir 515.000 krónur á fermetrann.

Vandamálið er þó margþætt, ég hef ekki efni á svo dýrri íbúð, ég vil ekki borga svo hátt fermetraverð og er ekki viss um að banki vildi veðja á greiðslugetu mína. Ráðið við því - ef mér yfirleitt líst á hana þegar ég kem á staðinn - er að bjóða niður eins og ég held að Jón Jóhannesson, Hannes Smárason, Bjarni Ármannsson o.fl. muni gera innan tiltölulega skamms.

5% af ásettu verði er rúmar 4 milljónir. Vill einhver koma með mér að skoða um helgina?

Vatnsstígur, 101 Reykjavík - mynd 251


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Hvernig væri að bíða smá stund og fylgjast með verðþróuninni, bjóða svo í hana þegar verðið er komið vel niður.

Gunnar Skúli Ármannsson, 10.12.2008 kl. 21:49

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Nei, sko, þetta er einn af höfðingjunum þannig að ég ætti að fara á vettvang og láta hann finna til tevatnsins. Ég er svo samfélagslega meðvituð að ég gæti ekki keypt íbúð á brunaútsölu af einhverjum sem hefði sjálfur þurft að leggja mikið út.

Berglind Steinsdóttir, 10.12.2008 kl. 22:44

3 identicon

Af hverju langar þig að eiga viðskipti við mann sem hefur sagt sig til sveitar? Allir "útrásarvíkingarnir" eru nú á framfæri hins opinbera með því að hið opinbera hefur tekið á sig skuldir þeirra og mér finnst ekki rétt að þessir sveitaómagar eigi jafnframt í viðskiptum við þá sem þurfa að axla skuldir þeirra, þ.e. framfærslu. Láttu þennan sveitaómaga því sitja uppi með óseljanlega eign.

Helga (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 22:59

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Það má engu muna að mér finnist þetta réttlætismál. Miklu frekar vil ég samt koma í veg fyrir að KPMG rannsaki eigin gjörðir og að Jón Jóhannesson kaupi búðir sem komnar eru í þrot. Er það ekki það sem menn spá núna, að þeir sem settu allt í þrot ætli nú að leika líknandi engla og kaupa fyrirtæki - og kannski íbúðir - langt undir markaðsverði? Nema við séum að tala um markaðsverð 1993 - það er ekki einu sinni 2007.

Jæja, mér hefur kannski mistekist í háðinu og nú er ég líklega farin að delera til viðbótar.

Berglind Steinsdóttir, 10.12.2008 kl. 23:34

5 identicon

Iss- förum að skoða og bjóddu svo 5% í 'ana. Symbolískt og skemmtilegt.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 11:53

6 identicon

hehe! Já, og mætum í lopapeysum og gönguskóm. Það finnst mér symbolískt og skemmtilegt.

Ásgerður (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 23:57

7 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Fyrir eða eftir 17 mínútur í þögn ...?

Berglind Steinsdóttir, 12.12.2008 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband