Fjölmiðlarnir og glæpsamlegur ásetningur þeirra

Ég er að reyna að venja mig af hrekkleysinu en gengur ekki nógu vel. Fólk andskotast mikið út í ýmsa fjölmiðla, t.d. Fréttablaðið fyrir að leyfa Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda sínum, að birta þar langa aðsenda grein eina helgina, varnargrein fyrir sjálfan sig. Burtséð frá sannleiks- og upplýsingagildi hennar finnst mér hugsanlega að kalla megi þjónustuna góða af því að sú grein kallaðist á við greinina hennar Agnesar í Mogganum sama dag um Stoðir og Flog og Fons og FS39 og Kvakk og Ripp, Rapp og Rupp eða hvað þau heita öll, þessi fyrirtæki sem kaupa og selja í sjálfum sér, algjörlega ópersónulega.

Ég hef lært að efast um heilindi Jóns þessa. Mér dettur ekki í hug að Hagkaup - í eigu hans - sem ætlar að lána skuldugum heimilum jólin fram á vor geri það af óeigingjörnum hvötum. Mér dettur ekki í hug að hann eða pabbi hans hafi stofnað búðakeðju til að gera okkur hinum greiða. Mér datt það einu sinni í hug, það var meðan Bónus var bara í Skeifunni.

Það er búið að venja mig af slíkri trú.

Ég les líka að nú eigi að hlaupa undir bagga Moggans af því að hann verji viss sjónarmið. Agnes Bragadóttir skrifar í Moggann, oft og mikið og hefur gert lengi, og skrifar ekki sérlega mikið undir rós. Halldór Baldursson teiknar eitraðar myndir í Mogganum. Mogginn birtir aðsendar greinar þar menn skafa ekki utan af því og Mogginn birtir líka dánartilkynningar og minningargreinar sem önnur blöð birta ekki.

En ég er samt farin að lesa Moggann með kíki þess sem efast.

Ég sagði honum upp með viðhöfn fyrir nokkrum árum. Því miður ekki með þeim göfuga ásetningi að sækja mér sannari og betri fréttir annars staðar. Nei, álímdu auglýsingarnar á forsíðunni gat ég ekki þolað. Ég les hann næstum daglega. Bara núna upp á síðkastið úr gagnrýninni fjarlægð.

Vinstrimenn gagnrýna RÚV fyrir að draga taum hægrimanna og hægrimenn gagnrýna RÚV fyrir að draga taum vinstrimanna. Einn útvarpsstjóri kallaði Spegilinn Hljóðviljann. Annar útvarpsstjóri les fréttir frítt.

Það er ekkert ókeypis og við erum a.m.k. búin að læra það að undanförnu. Ekki heldur fréttalestur í óþökk undirmanna.

Fjölmiðlalögin voru sett og afnumin 2004. Þá var talað um dreift eignarhald, kannski líka um gagnsæi. Í Noregi var fjölmiðlafrumvarp í vinnslu í fjögur ár en hér í fjórar vikur eða kannski fjóra mánuði. Enginn fjölmiðill hefur rifjað það upp fyrir mér nýlega og ég er byrjuð að gleyma því. Það átti að tryggja dreift eignarhald en þegar ekki tókst að setja fjölmiðlalög á einhvern tiltekinn hátt var bara bakkað út úr öllu í fjögur ár. Og kannski fjögur til viðbótar. Út af því að einn sagði nei og annar veiktist, var það ekki?

Og nú veit enginn hver á hvaða miðil. Jú, kannski í dag en sko ekki á morgun.

Meira að segja DV er byrjað að dissa Silfur Egils og ég sem hélt að þeir Reynir væru saman í andófi gegn spillingunni.

Bankarnir áttu líka að vera í dreifri eignaraðild en kannski er það fjölmiðlunum að kenna að niðurstaðan varð einhver allt önnur. Og nú á hr. Ríki þrjá viðskiptabanka og velur sér bankastjóra með hr. Geðþótta. Þessi herra gæti verið kona mín vegna. Ekkert er lengur það sem sýnist.

Ég er búin að ná því með erfiðleikum að fjölmiðlarnir eru skúrkar og allir að reyna að ljúga að okkur og þá er bara tvennt sem ég á eftir að fá einhvern botn í.

Er ég ekki örugglega ábyrg? Ætti ég að byrja að horfa á Skjá1?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Björnsson

Staðgreiðslu afslátturinn er horfin. Eða nú borga allir jafnt í nafni stefnunnar.

Fjöldi þeirra sem neyðist til að bíða eftir litlu vöruúrvali í Lágvörubúðum er betri mælikvarði á almenn lífskjör en nokkur Hagfræði viðmiðun sem ég þekki.

Ég fer í hverfabúðina missi kannski bílinn ef kreppan hardnar. Bensín reikingur hefur lækkað um 40.000 á ári. Tímasparnaðinn not ég í að elda.  Ég keyri ekki langarleiðir til að spara í mesta lagi 250 kall.

Júlíus Björnsson, 11.12.2008 kl. 22:38

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þvílíkur eðalpistill!

Svar við allrasíðustu spurningunni = nei. Þú yrðir líklega geggjuð á amríska vísu. Það er ekki eftisóknarvert.

Es.: Er sögnin að dissa orðin viðurkennd í íslensku máli? Mig hefur oft langað að nota hana í þýðingum en aldrei þorað.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.12.2008 kl. 00:27

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er frekar *svag* fyrir tökuorðum ef hægt er að fella þau inn í íslenskt beygingakerfi [þar af leiðandi myndi ég aldrei nota svag í ritmáli ...] og skil t.d. ekki andúð sumra á sögninni að blogga. Að dissa finnst mér sossum vera hálfgert unglingamál sem samt hefur náð að ryðja sér til rúms og      *þyrlið*      það er komið í ensk-íslensk-enska orðabók! Ég myndi samt ekki nota það í þýðingu á texta frá Efnahags- og framfarastofnuninni, hehe. Bændur í Rúmeníu dissuðu tilskipun sem barst frá Brussel, tíhí.

Skjár1 heillar mig engan veginn en í ljósi þess að einn sjötti íslensku þjóðarinnar skrifaði undir áskorun um að halda áfram útsendingum hélt ég kannski að ég væri að missa af einhverju ... djók!

Berglind Steinsdóttir, 12.12.2008 kl. 07:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband