Sunnudagur, 14. desember 2008
Saga af nýjum bíl og númeraplötunni hans - stöðutákninu
Þessa sögu heyrði ég fyrir hálfum mánuði:
Vinkona mín bakkaði pent á bíl og brá. Hún snaraðist út og sá sér til mikillar lukku að ekki sá á bílnum sem hún hafði rekist mjúklega á. Bílstjórinn kom út úr hinum bílnum og varð ekki eins kát og vinkona mín, þvert á móti varð hún snefsin og sagði:
Það hefur kvarnast upp úr númeraplötunni og ég vil fá nýja.
Vinkona mín hélt að hún væri að grínast.
Svo var ekki og þær skiptust á símanúmerum. Þegar vinkona mín keyrði í burtu hringdi hin í hana og spurði hvort hún næði ekki örugglega í hana í þessu númeri. Bíllinn var nefnilega bara hálfs mánaðar gamall og hún vildi ekki hafa númeraplötuna svona.
*gisp*
Spurningin er: Hvaða fyrirmenni íslensku bankasögunnar á svona góða konu á svona nýjum bíl í nóvemberlok 2008?
Engin verðlaun eða umbun af neinu tagi í boði fyrir rétt svar. Ég veit að nú liggja 30 manns undir grun og bara einn sekur en ég læt mig hafa það.
Rétt er að taka það fram að hún hefur enn ekki hringt til að heimta aur fyrir viðgerð á númeraplötunni.
Þessa sögu höfum við nú sagt nokkrum sinnum í góðu hófi og það hefur þráfaldlega verið rifjað upp að stuðararnir eru ekki skraut á bílum heldur græjur tl að taka bömpið af bílum. Í þéttbýlum borgum leggja menn t.d. í þröng stæði með því að ýta öðrum bílum mjúklega til á stuðurunum. Og hver tekur eftir því ef það kvarnast upp úr númeraplötunni?? Vissast að taka fram að á plötunni var ekki nafn eins eða neins, hún var bara venjuleg númeraplata.
Athugasemdir
Að því gefnu að þetta sé eiginkona eins þeirra 30 sem hafa steypt þjóðinni ofan í botnlausa skuldahít þá ráðlegg ég vinkonu þinni að bjóða upp á hún kaupi nýja númeraplötu fyrir fína fólkið og að fína fólkið borgi á móti sjálft skuldir sínar, sem að öðrum kosti myndu lenda á vinkonu þinni! Sanngjarnt, ekki satt?
Helga (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 15:18
Æ! ég finn mig eiginlega knúna til að laga söguna aðeins betur að sannleikanum þótt vissulega sé hún góð svona.
Konan var alls ekkert súr, hún var mjög kurteis og fannst þetta allt mjög leiðinlegt. Það er hins vegar satt að skemmdin á númeraplötunni var þess háttar að hún sást varla en samt sem áður óskaði konan eftir nýrri númeraplötu enda bíllinn glænýr og þar með númeraplatan.
Konan hringdi ekki í mig þegar ég var farin til að athuga hvort ég svaraði símanum og hún hefur ekki hringt enn til að rukka mig um númeraplötuna. Það er hins vegar alveg satt að hún er eiginkona einna (fyrrum?) ríkustu manna Íslands.
Ég veit það eitt að EF konan hringir til að rukka fyrir númeraplötuna eru allir lögfræðingarnir sem ég þekki boðnir og búnir til að hjálpa mér til þess að streitast á móti þeirri rukkun!! :-) ég efast hins vegar um að ég nenni að gera veður út af þessu - enda peningar bara peningar fyrir mér! :-) Ég verð með um 260 þús. á mánuði (brúttó) þegar ég verð komin í fulla vinnu eftir áramót og maðurinn minn er með annað eins á mánuði svo við eigum FULLT af peningum - fyrir utan annað ríkidæmi okkar.
Þetta (fyrrum?) ríka fólk er kannski enn ríkt af peningum en rúið ærunni.
Vinkonan sem bakkaði (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.