Fimmtudagur, 25. desember 2008
Þarf ég að styrkja Milestone?
Þar sem allt bendir til þess að ég þurfi að leggja Milestone til hluta af sparifé mínu fór ég að grúska í því hvaða þurfalingar þiggja af mér fé. Á síðu félagsins sé ég að það verður 10 ára á næsta ári en frá því í janúar 2008 hefur líklega ekkert gerst sem eigendur eru hreyknir af, a.m.k. hættir afrekaskráin þá.
Karl og Steingrímur Wernerssynir sitja í stjórninni og sjálfsagt er starfsfólkið stolt af því að vera í þessu teymi. Ég vissi ekki um þennan forstjóra Milestones sem var ritari í einkavæðingarnefnd um sölu bankanna:
|
Karli Emil finnst gaman að leika á trompet. Gaman að því. Steingrímur lyfjafræðingur var byrjaður að byggja sér roknavillu í Fossvoginum fyrir rúmu ári. Ekki minna gaman að því. Í Sirkus segir að þau hjónin séu að byggja rúmlega 700 fermetra einbýlishús við Árland 1 og ég hef nýverið heyrt því fleygt að bílaflotinn sé slíkur að í bílskúrnum sé bílalyfta svo hægt sé að stafla. Ég heyrði líka að Steingrímur hefði fimm sinnum þurft að sækja um leyfi til að auka byggingarmagnið úr 230 fermetrum - húsið sem áður stóð þarna og var rifið var víst svo tíkarlega lítið - og það hafi ekki fengist fyrr en í byrjun þessa árs.
Annars átta ég mig ekki á af hverju Sirkus ýkir svona, Árland 1 er samkvæmt Fasteignamati ríkisins bara 540 fermetrar.
Ég er svo óendanlega fegin að spariféð mitt rennur svona til þeirra sem þurfa mest á því að halda.
Athugasemdir
Mikið getum við Íslendinga verið þakklátir fyrir þá samkend og samhug sem við berum til náungans. Samhugur og bræðralag er það sem hefur einkennt vora þjóð lengst af. Reyndar hefur eitthvað kvarnast úr því hin síðari ár. Kannski er ósk mín sprottin af þeirri hugarfarsbreytingu, en ég vona svo innilega að þetta fólk haldi sig sem mest innandyra í framtíðinni og láti okkur hin í friði.
Gunnar Skúli Ármannsson, 26.12.2008 kl. 01:26
Ég kýs að skilja þig þannig að þér finnist sem Steingrímur og frú eigi að halda sig innan 500 fermetranna.
Berglind Steinsdóttir, 26.12.2008 kl. 09:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.