Glæpasaga sem gerist á Grænlandi

Ég veit um a.m.k. einn mann sem vill segja í Grænlandi. Hehe. En ég tala líka um að hlutir gerist á Íslandi. Tungumálið er ekki alltaf rökrétt enda segi ég að eitthvað gerist í Englandi sem er líka stór eyja.

Mér fannst Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur ekki sérlega beysin þegar ég las hana um daginn og lofaði sjálfri mér því að ég skyldi ekki lesa frekari bækur eftir hana. Hins vegar rak Auðnina á fjörur mínar (og aðrar nýjar skáldsögur ekki) og ég verð að segja að hún var slöttungsmeira spennandi en hin síðasta. Mér finnst framvindan samt stirðbusaleg og ég get ekki skilið af hverju ritari eins og Bella er höfð áfram á dekkinu.

Ég vildi vita hvort lýsingin á litla grænlenska þorpinu er einhvers staðar nálægt lagi. Líf fólksins í þorpinu var verra en dauðinn. Einangrunin dauðadæmir líf þess, tilgangsleysið, doðinn, vonleysið, eymdin - hvað er satt í þessu?

Til að næra málfarspúkann í mér verð ég að halda því til haga að ljótasta villan var á síðustu síðu. Mér finnst eðlilegt að samþykkja ný orð inn í tungumálið, sum staldra stutt við en önnur setjast að. Hins vegar samþykki ég ekki aðfinnsluverðar kerfisbreytingar án tilgangs. Þóra verður hugsi þegar Eyjólfur tala um að spá í einhverju (316) en aldrei áður hef ég staðið Þóru að því að velta fyrir sér orðum, eðli þeirra eða réttmæti. Allt í lagi með það. Á síðustu síðunni segir svo að þær hlakkaði til að fá tækifæri til einhvers. Sögnin að hlakka er persónuleg og eltir frumlagið. Þannig hlakka þær (eða hlökkuðu í þátíð) til hvers sem vera skal. Tilhneiging í þessa átt heyrist vissulega í mæltu máli en við hin íhaldssömu streitumst enn á móti.

Mynd af: Auðnin


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband