Mánudagur, 29. desember 2008
Hvar er Gallup?
Er til of mikils mælst að einhver fái Gallup til að gera ítarlega skoðanakönnun?
Ég les bloggfærslu eftir bloggfærslu, athugasemd eftir athugasemd þar sem stuðningsmenn allra flokka, fólk úr flestum stéttum og flestum störfum hrópar á aðgerðir gegn óréttlætinu og þjófnaðinum, kallar eftir viðurkenningu á því að rangt hafi verið haft við, biður frómt um sjálfsagða sanngirni og hreingerningu, að kaupahéðnarnir skili ránsfengnum - og þá heyrist holur hljómur að ofan um að við séum ekki þjóðin.
Er þá ekki ráð að fá fram vilja þjóðarinnar, t.d. með 3.000-5.000 manna úrtaki?
Það mætti spyrja:
Viltu láta kjósa til Alþingis í síðasta lagi 1. júní 2008?
Viltu láta Jónas Fr. Jónsson taka pokann sinn?
Viltu láta komast til botns í meintri millifærslu margra milljarða hjá Kaupþingi skömmu fyrir yfirtöku?
Viltu láta ráðamenn svara því hvers vegna þau vissu að í óefni stefndi og gerðu ekkert í því? Viltu spyrja ráðamenn að því hvort þau hafi virkilega ekki vitað 1. apríl að efnahagskerfið hefði tekið kúrsinn lóðbeint niður? Viltu spyrja ráðamenn að því hvers vegna þau rápuðu um allan heim með kaupahéðnunum og auglýstu besta kerfi í heimi, kerfi sem engin innistæða var fyrir, kerfi sem er gjörsamlega gjaldþrota tæpu ári síðar?
Viltu láta kyrrsetja eignir kaupahéðnanna?
-Eins og gefur að skilja er listinn ekki tæmandi og ekki hirði ég heldur um aðferðafræðina að svo komnu máli.
Ég held að til marks um ofsann sem hlaupinn er í marga endurspeglist m.a. í grimmdarlegri umræðu um flugeldasölu. Mér finnst fráleitt að þeir sem ekki kaupa flugelda séu á móti starfi björgunarsveitanna eins og menn láta að liggja. Ef menn hafa áhyggjur af starfinu og eru aflögufærir er þeim í lófa lagið að leggja inn hjá þeim. Persónulega vona ég að ekki dragi of mikið úr flugeldasprengingum og sendi kannski sjálf, aldrei þessu vant, einn kaupahéðin til andskotans vegna þess að áramótagleðin hefur líka aðdráttarafl á útlendinga og ekki megum við við því að letja ferðamenn. Og ég bendi á að undanfarin ár hafa ýmsir aðrir en hjálparsamtök selt flugelda þannig að ágóðinn sem margir hafa áhyggjur af að verði of lítill hefur því miður alls ekki allur runnið til verðugra málefna, heldur beint í vasa lítilla kaupahéðna.
Ætti ekki Gallup að spyrja þeirra spurninga sem brenna á okkur? Á kannski einhver Gallup sem vill þetta ekki? Er Gallup e.t.v. ekki treystandi?
Gagnrýni er holl, aðhald er nauðsynlegt en sífelld tortryggni er mannskemmandi. Því miður er okkur helst boðið upp á tortryggnina og hún er farin að hafa skelfilegar afleiðingar í því upplýsingamyrkri sem leggst yfir okkur.
-Og hér sit ég uppi um miðja nótt eins og vúdústunginn grís og ungbarn með eyrnaverk og SKIL EKKI AF HVERJU ÞETTA GERÐIST OG HELDUR ÁFRAM AÐ GERAST. Ég er hætt að geta sofið almennilega í þessu myrkri.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.