Mánudagur, 5. janúar 2009
Deila um keisarans skegg
Ég er búin að lesa yfir mig af skoðunum fólks, andstæðum skoðunum, ýmsum málefnalega fram settum, mörgum nafnlausum, sumum flokkadregnum og ég skil ekki af hverju pínulítið 315.000 manna þjóðríki, jafn mannmargt og Árósar í Danmörku, getur ekki sameinast um að vinna að því að leysa vandann.
Vandinn er að hér stefnir í talsvert atvinnuleysi, rýrnandi kaupmátt, minni lífsgæði, mikla skuldsetningu og vonleysi hjá einhverjum hópi fólks.
Hvað veldur?
Er það ekki spilling? Er það ekki? Er það ekki spilling þegar menn fá að kaupa fyrir lágt verð eignir sem eru miklu meira virði? Er það ekki spilling þegar menn eru ráðnir til starfa þegar aðrir miklu hæfari bjóðast? Er það ekki spilling þegar logið er að manni til þess að fá mann til að trúa einhverju allt öðru en sannleikanum?
Og hefur þetta ekki viðgengist? Er það ekki?
Ef einhver segir að Jón Jóhannesson eigi að sjá sóma sinn í að sýna rétta breytni og hætta að svína á okkur segir einhver annar að Björgólfur Björgólfsson sé engu skárri og hafi skuldsett okkur í gegnum Icesave. Og þá kemur sá þriðji og segir að Bjarni Ármannsson hafi sloppið best, alla leið til Noregs.
Já, þeir hafa allir skarað eld að eigin köku. Þetta er ekki keppni í spjöllum. Þeir eru allir gráðugir og síngjarnir, en hafa á stundum á sér yfirbragð saumakonunnar eða lyftaradrengsins. Og listinn er ekki tæmdur þar með.
Þótt ég hafi farið til ágæts háls-, nef- og eyrnalæknis í dag - og hrósi honum - þýðir það ekki að aðrir séu lélegir. Eins er ekki endilega Mogginn gott blað þótt ég gagnrýni Fréttablaðið.
Hvaða fólk tapar engu á þessu þráðbeina bankahruni? Óháð heimskreppunni, óháð sakbendingu.
Ekkert fólk. Allir tapa. Meiri verðbólga og minni lífsgæði gera vart við sig hjá öllum. Öllum.
Hverjir mega við því?
Helst þeir sem áttu skuldlausar eignir og annað hvort engan pening eða tilfallandi bara á innlánsreikningum eftir setningu neyðarlaganna 6. október. Mjög blankir mega væntanlega samt varla við kreppunni sem felur í sér minni kaupmátt. Ég á við að þeir sem eru í vinnu og eiga ekki skuldsettar eignir lenda varla í heimiliskreppu til viðbótar.
Það fer ekki eftir endilega eftir því hvar fólk setur krossinn á kjördag.
Það er svo hryggilegt að hér stefni í átök um þann sjálfsagða hlut sem það hlýtur að vera að rétta af kúrsinn. Vilja ekki allir að við náum siglingu og svo landi? Og allir um borð? Vill einhver láta einhvern drukkna meðan hann tryggir sjálfum sér þriðja eftirréttinn við borð skipstjórans á efsta dekki?
Jöfnuður getur aldrei verið fullkominn. Sumir fæðast fallegir, sumir fæðast gáfaðir og sumir fæðast fyndnir. Svoleiðis getur maður aldrei jafnað. Það sem hægt er að tryggja öllum jafnt er tækifæri til menntunar og áhrifa. Suma langar ekki að verða ríkir og það er óþarfi að hía á þá. Það hefur verið gert. Sumir vilja ekki fara í langt nám og það er óþarfi að gera lítið úr þeim. Suma langar að eyða sumarfríinu á sólarströndum, aðra á fjöllum, einhverja í garðinum sínum og kannski vilja sumir geyma sumarfríið til næsta árs og fara þá í lengra frí. Þetta er allt alveg skiljanlegt.
Af hverju í andskotanum mega ekki bara öll helvítis blómin vaxa í friði? Af hverju eru svona margir þess umkomnir að gagnrýna og vanda um við aðra?
Að lokum legg ég til að menn sammælist um að uppræta spillinguna. Og þá þarf að finna hina seku og láta þá gjalda keisaranum það sem keisarans er - skítt með helvítis skeggið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.