Laugardagur, 10. janúar 2009
Afhjúpun
Borgarfulltrúar og vinir þeirra spjölluðu um tilfinningalega upplifun á fundi um fjárhagsáætlun Reykjavíkur á veraldarvefnum fyrir allra augum og Rás 2 sagði frá því í vikunni. Ég þykist vita að einhverjum finnist ég forpokuð en mér er ekki skemmt. Mér finnst þetta jafn óviðeigandi og ef kennari skrifar þar sem allir geta séð hvað honum finnst um nemendur sína, læknir hvað honum finnst um sjúklinga o.s.frv. þótt ég leggi það ekki alveg að jöfnu.
Ég man eftir starfsmanni á bókasafni sem notaði m.a.s. vinnutímann til að rakka niður yfirmanninn á blogginu sínu og varð síðan ógurlega hissa þegar upp komst og að það mæltist ekki vel fyrir. Síðan eru liðin líklega átta ár. Blogg var ekki mjög almennt á þeim tíma.
En þetta er hjóm miðað við öll þau ósköp sem á íslenska þjóð eru lögð í formi upplýsingaleysis, eiginhagsmunagæslu og þrjósku.
Og ljósi punkturinn að þessu sinni er Orð skulu standa frá síðasta laugardegi þegar hátt í 20 manns tóku þátt í orðaleiknum, m.a.s. Helgi Sæmundsson sem birtist í gegnum loftljósið (heyrðist mér á Hlín). Bráðum tek ég Frey Eyjólfsson í guðatölu, ofan á aðra hæfileika getur hann þóst vera ýmsir menn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.