Mánudagur, 12. janúar 2009
Er borgarafundur til hægri eða vinstri?
Á fimmtudaginn var borgarafundur í Iðnó um mótmæli. Ég vakti athygli á honum og hvatti fólk til að láta sig málið varða. Katrín Linda Óskarsdóttir skrifaði athugasemd hjá mér og lét að því liggja að aðeins vinstrimenn myndu mæta.
Síðan hef ég verið svolítið hugsi yfir þessu. Ég held að þessir múrar séu byrjaðir að molna, vinstri og hægri. Ég er ekki verseruð í stefnuskrám flokkanna en er alveg viss um að ég gæti samþykkt margt í þeim öllum. Þær eru áreiðanlega falleg plögg. En það eru verkin sem sýna merkin.
Upphaflega er skilgreiningin í hægri og vinstri tilkomin vegna sætaskipanar í franska þinginu. En hvað er nú hægrimennska og hvað vinstrimennska?
Er það hægrimennska að vilja einstaklingsframtakið umfram ríkisafskipti? Hvað var þá Kárahnjúkavirkjun?
Er það vinstrimennska að sækja um sæti í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna? Að setja á laggirnar Varnarmálastofnun?
Er það hægrimennska að láta atvinnulífið afskiptalaust? Hvað er þá ríkisstyrktur sjávarútvegur og ríkisstyrktur landbúnaður?
Er það vinstrimennska að láta garðyrkjubændur borga langtum hærra verð fyrir raforku en álver sem borga eftir heimsmarkaðsverði á áli?
Er það vinstrimennska að lána fyrir háskólagöngu?
Eru skattaálögur vinstrimennska? Hvað er þá verið að boða með aukinni skattheimtu núna?
Eru menning og listir vinstrimennska? Hvað var þá Björgólfur Guðmundsson að gera með tónlistarhúsið og styrki til listviðburða?
Er Mogginn hægrimennska og Fréttablaðið vinstrimennska?
Er það vinstrimennska að reka Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið?
Er það vinstrimennska að búa úti á landi og hægrimennska að taka sér bólfestu í 112 Reykjavík?
Er það vinstrimennska að eiga Fiat og hægrimennska að eiga Audi?
Er það hægrimennska að horfa á Stöð 2 og vinstrimennska að horfa á RÚV?
Er það vinstrimennska að kenna í menntaskóla og hægrimennska að skuldajafna vafninga?
Er það vinstrimennska að vera blankur og hægrimennska að vaða peninga í hné?
Er það hægrimennska að græða á daginn og grilla á kvöldin?
Er það hægrimennska að vilja kaupa Levi's handa börnunum sínum?
Er það vinstrimennska að veiða fisk á togurum en hægrimennska að róa einn til fiskjar?
Er það hægrimennska að læra frönsku og vinstrimennska að læra þýsku?
Er það hægrimennska að nota varalit og vinstrimennska að nota gloss?
-Ég skora á menn að skoða hug sinn og vita hvort þeim finnst ekki hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum gengin sér til húðar. Samfélagið riðar til falls og við höfum ekki efni á hnútuköstum. Við ættum að snúa bökum saman og einbeita okkur að því að endurreisa hið fallna samfélag. Orð eru til alls fyrst en mér finnst sannarlega kominn tími til að láta verkin tala, gæta þess að atvinnulífið láti ekki undan síga og að fólk flýi ekki land vegna yfirvofandi örbirgðar.
Ég ber alls ekki upp spurningarnar vegna þess að ég telji mig vita svörin. Ég hef bara orðið miklar efasemdir um þessa skiptingu í hægri, vinstri og e.t.v. miðju. Myndi Katrín Linda segja að það væri vinstrimennska að tala saman og reyna í sameiningu að komast að niðurstöðu? Af hverju þverskallast hún við að fylgjast með og e.t.v. taka þátt í umræðunni?
Ég mæti á flesta borgarafundi sem Reykjavíkurborg boðar til í hverfinu mínu. Þar hefur helst verið fjallað um skipulagsmál. Borgarstjóri hverju sinni leggur upp með skipulagstillögur, tekur þátt í umræðum, svarar spurningum og bregst í kjölfarið við sumu. Á fimmtudagskvöldið töluðu lögreglan, aðgerðasinnar, laganemi, prestur og anarkistar saman - og auðvitað salurinn - og m.a. var borin upp tillaga um að ef stefndi í möguleg átök væri ráð að skipa fulltrúa sem reyndu að miðla málum.
Er það vinstrimennska, Katrín Linda? Er það ekki bara skynsemi og viðleitni til að ná árangri?
Borgarafundur verður í Háskólabíói mánudaginn 12. janúar. Fjórir frummælendur, þar af tveir útlenskir sem hafa engra hagsmuna að gæta hér á landi, tala úr pontu og fleiri verða í pallborði, þar á meðal einhverjir frá Viðskiptaráði Íslands.
Koma svo!
Athugasemdir
Mér fannst einboðið að biðja Katrínu að leggja orð í belg en þegar ég fletti upp á blogginu hennar sá ég að tíminn til að skrifa athugasemd er útrunninn og hún er ekki með neina gestabók. Ég verð bara að vona að hún sé reglulegur gestur á síðunni minni. Katrín?
Berglind Steinsdóttir, 12.1.2009 kl. 00:05
Blessuð Berglind.
Þetta er búið að vera gott kvöld. Silfrið hjá Agli var óvenjusterkt og vel mannað og innslag Njarðar það magnaðasta sem lengi hefur sést. Og svo sá ég athugasemd þína hjá Ingunni og ákvað að kíkja á blogg þitt. Meiriháttar góður pistill. Sérstaklega fannst mér þú hitta vel í mark um firringuna þegar þú spyrð hvort að það sé "vinstrimennska að kenna í menntaskóla en hægrimennska að skuldjafna vafninga". Ofsalega margt ungt fólk var farið að trúa þessu.
Takk fyrir góðann innblástur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.1.2009 kl. 00:24
"Er það vinstrimennska að kenna í menntaskóla og hægrimennska að skuldajafna vafninga?"
Hugtökin vinstri og hægri eru fyrir löngu úr sér gengin. Kvennalistinn hafnaði þeim og sagðist vera þriðja víddin. Kvennalistinn vildi líka setja hámark á þingmannsferil, þ.e. tvö kjörtímabil. Kvennalistinn vildi líka lögbinda lægstu laun. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir allt saman. Núna er fólk að biðja um þetta allt þrennt. Kannski er fólk að vakna til vitundar um að Kvennalistinn var bara bráðgáfaður, nútimalegur og framsækinn.
Helga (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 00:35
Heyr! Hlynur Snæbjörnson. Heyr! Heyr!
Árni Gunnarsson, 12.1.2009 kl. 01:12
Og ætlið þið þá ekki að mæta á borgarafundinn og t.d. spyrja Viðskiptaráð gagnrýninna spurninga?
Berglind Steinsdóttir, 12.1.2009 kl. 08:13
Ætli ég hafi bara ekki orðið Sjálfstæðis-maður í haust í orðsins fyllstu merkingu.
Gunnar Skúli Ármannsson, 12.1.2009 kl. 08:49
HAH! Ég þarf ekkert að hitta Sigurjón í bráð (hjúkk!) - þú sagðir allt sem ég vildi sagt hafa við hann um hægri-vinstri. Takk!
Ásgerður (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 23:23
Ég veit, Hlynur, ég veit. Við þurfum að koma með fundina norður til þín. Borgarafundurinn verður í sjónvarpinu á miðvikudaginn, byrjum á því.
Ásgerður, þetta var ónotalegt af þér, hmmm.
Berglind Steinsdóttir, 12.1.2009 kl. 23:39
Og Ómar, ég ætlaði að taka undir með þér. Njörður er með skynsamlegar hugmyndir og setur þær alveg æsingalaust fram. Hann er gamall lærimeistari minn og veldur mér ekki vonbrigðum. Og takk fyrir hlýjar kveðjur að austan.
Kveðja úr miðborginni,
Berglind Steinsdóttir, 12.1.2009 kl. 23:51
Var að senda þér akútpóst, mín kæra.
Lára Hanna Einarsdóttir, 12.1.2009 kl. 23:52
Þetta er frábær færsla hjá þér!! Ég er einmitt búin að vera velta þessari hægri/vinstri-tuði fyrir mér. M.a. í athugasemd við færslu fyrir augnabliki síðan: Ég ákvað þess vegna að kópera þetta bara hingað yrir:
Mér leiðist líka óskaplega þessar endalausu umræður um hægri og vinstri þó þær eigi e.t.v. einhvern rétt á sér einhvers staðar á einhverjum tíma þá eiga þær illa við í sambandi við mótmælendur annars vegar og þá sem hafa tekið þátt í að tala niður til mótmælenda.
Það væri miklu nær að tala um sanngirniskröfur réttlætissinna og stuðningsmenn eiginhagsmunasinnaðrar valdablokkar. Ég leyfi mér að efast um að þeir sem styðja þennan fámenna hóp átti sig almennilega á því grafalvarlega ástandi sem við erum að mótmæla.
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2009 kl. 01:45
Já, Rakel, okkur tekst á endanum að uppræta þetta bull!
En mér hefur ekki tekist að laða Katrínu Lindu hingað til að skiptast á skoðunum við mig. Sé að hún hefur tekið þátt í umræðunni hjá Heiðu Þórðar seint í gærkvöldi. Katrín, komdu á næsta fund og þú munt sjá að hann er prúðmannlegur í alla staði. Björgólfur Thor er væntanlegur í næsta mánuði.
Berglind Steinsdóttir, 13.1.2009 kl. 20:21
Spurning hvað veldur
Rakel Sigurgeirsdóttir, 13.1.2009 kl. 20:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.