Borgarafundurinn í sjónvarpinu - þýðingar

Ég hjó eftir því að RÚV gat ekki um þýðanda á borgarafundinum. Ég veit að Guðmundur Erlingsson þýddi erindin en ég veit ekkert hver þýddi spurningar sem bornar voru fram á fundinum og svör Roberts og Raffaellu.

Ég vinn dálítið við nytjaþýðingar og mér mislíkar þegar Fréttablaðið birtir greinar útlendinga og lætur eins og þær séu ekki þýddar, t.d. eins og að Joseph Stiglitz hafi t.d. skrifað á íslensku. Það er eiginlega eins og að lesa pistilinn og vita ekki hver höfundurinn er, svo miklu máli getur þýðandinn skipt. Af hverju er ekki getið um þýðandann?

Fyrir nokkrum dögum hjó ég svo eftir þessum orðum á bloggi sjávarútvegsráðherra:

Athyglisvert er að þessi athugun var mjög umrædd í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hér á landi hlaut hún enga athygli og enginn fjölmiðill gerði henni skil. Er það þeim mun furðulegra sem verið var að fjalla um fiskveiðistjórnun sem er viðhöfð hér á landi.

Er það til marks um að lítill áhugi sé á alþjóðlegum fræðilegum úttektum á fiskveiðistjórnarmálum í íslenskum fjölmiðlum? Eða telst það ekki fréttnæmt þegar fræðileg rannsókn leiðir í ljós að kerfi framseljanlegra fiskikvóta stuðli að fiskvernd? Hvert sem svarið er þá vekur það óneitanlega furðu að umfjöllun af þessu tagi veki ekki athygli hér á landi, þar sem sjávarútvegur er grundvallaratvinnuvegur og hann byggir á fyrirkomulagi sem er grundvallarumfjöllunarefni viðkomandi rannsóknar.

Þarna er sjávarútvegsráðherra að fjalla um grein í Economist sem Robert Wade vísaði til í svari við fyrirspurn á borgarafundinum (held ég alltént). Robert svaraði fyrirspurn um fiskveiðistjórnina með þeim orðum að hann vissi ekki nógu mikið um málið, hefði nýlega lesið lofsamlega grein í Economist um fiskveiðistjórn Íslendinga en honum hefði nú verið sagt að hún ætti ekki við rök að styðjast. Svo bætti hann við að það væri altalað um allan heim að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið væri eitt fárra alveg sjálfbærra kerfa í heimi.

Sjávarútvegsráðherra kvartaði sum sé undan áhugaleysi íslenskra fjölmiðla en bætti við færsluna einhverjum dögum síðar að LÍÚ væri búið að setja ÞÝÐINGU á greininni á síðu samtakanna. Ég skoðaði þýðinguna og þýðanda er ekki getið. Hvers vegna ekki?

Ég ætla að nefna tvennt sem mér finnst skrýtið í þýðingunni, þetta:

Technology helps the fishermen, too. By looking at the Directorate of Fisheries’ website they can see all landings by date and species and thus work out whether to sell their catch fresh or frozen, and whether to buy, sell or carry forward quotas.

er þýtt svona:

Tæknin kemur útvegsmönnum [enska orðið seamen er hér þýtt sem útvegsmenn og notað þannig síðar í greininni] einnig vel því ef þeir fara inn á heimasíðu Fiskistofu geta þeir séð allar landanir, eftir dagsetningum og tegundum og þannig ákveðið hvort þeir selja aflann ferskan eða frosinn og hvort þeir kaupa aflamark, selja eða flytja fram á næsta ár.

Feitletranir eru mínar.

Annað dæmi er svona:

Bottom trawlers are banned from fishing within the 12-mile limit, and inspectors can instantly close any area for a fortnight or more if they think it is being overfished. In 2007 there were 180 closures, a record, largely because of an influx of young haddock.

Það er þýtt svona:

Togurum er óheimilt að veiða innan 12 mílna landhelginnar [staðreyndavilla greinarhöfundar] og eftirlitsmenn geta lokað samstundis hvaða svæði sem er, í tvær vikur eða lengur, ef þeir telja að þar sé um ofveiði að ræða. Árið 2007 var svæðum lokað 180 sinnum sem er oftar en nokkru sinni áður, aðallega vegna mikillar gengdar smáýsu.

Aftur er feitletrun mín. Þessi þýðandi þekkir efnið vel, sem er vissulega gott, en þjónar það e.t.v. einhverjum tilgangi að ranghermt sé í greininni sjálfri í Economist?

Forlátið mér þótt ég efist um heilindi og sé full tortryggni. Landssamband íslenskra útvegsmanna er bullandi hagsmunaaðili þegar kemur að fiskveiðistjórn. Undanfarið hefur maður heyrt út um annað munnvikið að kerfið sé gott, skilvirkt, sjálfbært og best-í-heimi og á sama tíma lekur út um hitt munnvikið að það sé nauðsynlegt að afskrifa hinar gríðarlegu skuldir sjávarútvegsins vegna þess að hann standi ekki undir þeim.

Kannski er ég of tortryggin en þegar LÍÚ lætur þýða grein sem lýkur lofsorði á kerfi sem margir Íslendingar lifa við í mikilli ósátt og er grunað um að mismuna fólki - nei, sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur úrskurðað að feli í sér MANNRÉTTINDABROT - fell ég ekki í stafi og hrópa húrra.

Nafn þýðanda gerir vissulega ekki gæfumuninn en fjarvera þess eykur á tortryggni mína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smáviðbót við góðan og tímabæran pistil þinn, Berglind. Góður þýðandi á skilið að nafnið hans komi fram.

Helga (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 21:09

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Heyr, heyr! Góð þýðing gerir það að verkum að innihaldið komist til skila. Þetta á við hvort sem er nytjaþýðingar, bókmenntaþýðingar eða myndmiðlaþýðingar.

Þetta er angi af óþolandi lítilsvirðingu gagnvart hugverkum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 15.1.2009 kl. 22:50

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég rakst á þetta og var hugsaði til þín og reyndar nokkurra fleiri kvenna sem mig langar til að senda þessa fallegu kveðju. Ég sendi þér hana sem þakklætisvott fyrir fyrir það sem ég met sem ómetanlega framlag við að endurreisa lýðveldið á Íslandi. A strong woman

Rakel Sigurgeirsdóttir, 15.1.2009 kl. 22:55

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Það er ekki í kot vísað að eiga að lesendur eins og ykkur!

Berglind Steinsdóttir, 16.1.2009 kl. 01:06

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Alltaf er tortryggilegt ef þýðanda er ekki getið. Sumir eru góðir þýðendur meira að segja afbragðsþýðendur meðan aðrir ættu að finna sér e-ð annað þarflegra að gera.

Góð þýðing texta er þýðanda til sóma.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.1.2009 kl. 15:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband