Skuldar sjávarútvegurinn eða skuldar hann ekki?

Nú væri ráð að fjölmiðlar vöktuðu umræðuna framundan um útdeildingu kvótans upp á 30.000 tonn. Umræða hefur verið mikil upp á síðkastið um skuldsetningu í greininni.

Hvaða fyrirtæki skulda?

Hverjir eiga þau?

Hvernig eru skuldirnar tilkomnar?

Af hverju ættu þau fyrirtæki - sem eru þá kannski illa rekin, ha? - að fá umframkvótann? Og er núna skyndilega í lagi að virða að vettugi ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar?

Skuldsetningin er ekki einu sinni nýtilkomin, þetta er langt og viðvarandi vandamál. Við getum með góðu móti talað um langhlaup í tapi, ofsatapi og óðatapi. Samkvæmt átta ára gamalli glærusýningu Seðlabanka Íslands sem er merkt Má Guðmundssyni og Ólafi Erni Klemenzsyni [reyndar eru nokkrar villur í glærunum þannig að e.t.v. hefur ÓÖK sofið illa á eftir og æ síðan, hann hefur víst farið mikinn í athugasemdakerfi bloggara síðustu þrjá mánuðina til að vanda um við þá vegna ritvillna] hafa skuldir aukist OG FJÁRMUNIR RUNNIÐ ÚT ÚR GREININNI (sjá glæru 3 um mikla skuldaaukningu frá 1995 til 2001 og spurningu um hvort fjármagn renni út úr greininni, og viðsnúning árið 1995 á glæru 5).

Á gæru 19 segir þetta:

M.ö.o. hluti af fjármögnun hefur farið í að borga menn út úr greininni gegnum samruna og yfirtöku og til kaupa á varanlegum aflaheimildum

Borga menn út úr greininni? Já, en einstakir menn eiga ekki aflaheimildirnar, þjóðin á þær að lögum. Kemur kannski ekki á óvart að einhver hjá SÍ leggi ofangreinda tilvitnun öðruvísi út, nefnilega svona:

Þetta er skýr vísbending um hagræðingu og samþjöppun í greininni

Í mínum eyrum er hagræðing því miður orðið að skammaryrði þótt hugsunin þyki mér heilt yfir göfug. Svo lengi hefur nefnilega verið hagrætt sumum í hag, peningalegan hag, en öðrum í óhag. Fáir græða, margir tapa. Hafa menn ekki orðið þess varir að landsbyggðinni blæðir, sjávarþorpum sem eru hnituð um sjávarútveg sem síðan hefur verið stolið úr byggðarlaginu með ... hagræðingu kvótans yfir í annan landsfjórðung?

Síðustu tvær glærurnar eru lagðar undir niðurstöður sem mér blöskra, m.a.

Fjármunir fara úr sjávarútvegsgeiranum sem greiðsla fyrir aflaheimildir og hlutafé

Þetta eru átta ára gamlar fréttir og síðan hefur ástandið bara versnað. Eru það ekki einhverjir kvótagreifar sem skulda raunverulegum eigendum kvótans, þjóðinni, það sem þeir tóku út úr greininni meðan enginn var að horfa?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband