Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Kosningaaldurinn er 18 ár
Ég er á móti ofbeldi. Ég er á móti heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, götuofbeldi og andlegu ofbeldi.
Ég gagnrýni sem sagt ofbeldi. Hins vegar geri ég því skóna að hugtakið sé dálítið teygjanlegt. Er ofbeldi að slá með flötum lófa? Já. Kýla með krepptum lófa? Já. Er ofbeldi að hefja hönd á loft og þykjast ætla að slá?
Er ofbeldi að keyra viljandi á einhvern svo að hann bíði tjón af? Já. Er ofbeldi að skrensa stjórnlaust á bíl og lenda á einhverjum? Er ofbeldi að horfa svo grimmdarlega á einhvern að hann verði skelkaður?
Er ofbeldi hjá hinum stóra að segja hinum litla að hann sé tíkarlegur, óaðlaðandi og ekki í húsum hæfur? Kannski fimm sinnum á dag í 20 ár. Hæðast að minnimáttar? Já, er það ekki dæmigert andlegt ofbeldi?
Er ofbeldi að kasta gangstéttarhellu í átt að manneskju? Já. Er ofbeldi að gefa einhverjum selbita? Er ofbeldi að brjóta rúðu?
Mér finnst ég ekki hafa verið beitt ofbeldi. Hins vegar hefur sparifé verið hirt af mér og ég skilin eftir í nagandi óvissu um framtíðina. Og ég veit mætavel að ég er ekki verst sett. Mér finnst hins vegar óásættanlegt með öllu að fjárglæframenn skuli vaða hér uppi og hirða milljarða hægri vinstri, nú síðast Íslensk erfðagreining, án þess að ég fái rönd við reist. Mér finnst ég kúguð og mér er ofboðið. Ég hef ekki sjálfsagða stjórn á eigin lífi.
Ég finn til með okkur sem höfum þjóðargjaldþrotið hangandi yfir og ég hef sannarlega samúð með lögreglunni því að ég er algjörlega sannfærð um að í hennar liði eru mörg döpur hjörtu. Einhver þeirra urðu vafalaust fyrir ofbeldi og einhver þeirra beittu ofbeldi í gær. Ég er á móti öllum þeim ofbeldisverkum en treysti mér ekki til að meta út frá stopulum myndum hver gerði hvað á hlut hvers.
Og að lokum, af hverju amast sumir við því að tvítugt fólk hafi skoðanir á málum sem koma því við? Kosningaaldurinn er 18 ár og það að kjósa er mjög stór og afdrifarík ákvörðun. Og af hverju ætti 17 ára gamalt fólk ekki að vera byrjað að mynda sér skoðanir? Það má m.a.s. gifta sig 18 ára.
Ég reyni að tipla á tánum af því að ég veit að ég veit ekki allt. Hins vegar má ég hafa skoðanir og ég trúi því að grasrótin hafi áform um að uppræta eina tegund af ofbeldi.
Athugasemdir
Berglind! Ríkisstjórnin ER að BEITA OKKUR OFBELDI! Alla í þessu landi, líka þig.
Ásgerður (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 23:54
Hey, átti þetta að vera eitthvað uppörvandi ...?
Berglind Steinsdóttir, 22.1.2009 kl. 00:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.