Ég er almenningur

Ég er bara ekki allur almenningur.

Ég skelf af upplýsingaskorti - hvers vegna fær Íslensk erfðagreining fyrirgreiðslu frá Landsbankanum, hvað er að gerast hjá eigendum peningamarkaðssjóða í Landsbankanum sem funduðu í Laugardalshöll í kvöld, hvernig reiðir skuldsettum heimilum af, hvert verður gengi krónunnar á næstu vikum, hver fær viðbótarþorskkvótann upp á 30.000 tonn, standa ríkisbankarnir vel - ha?, hvað er Kristján Kristjánsson að gera dagana langa í forsætisráðuneytinu, hvenær lækka stýrivextirnir? Ég græði peninga á háum stýrivöxtum (meðan spariféð verður ekki allt hirt af mér), bara ekki eins mikið og fagfjárfestarnir og atvinnuræningjar, en atvinnulífinu blæðir á meðan, e.t.v. út.

Hvert er og verður hlutskipti lögreglunnar, bæði þeirrar grímuklæddu og efnahagsbrotadeildarinnar?

Ég átti einu sinni heima í Ingólfsstrætinu. Í mörg ár var umhverfið friðsælt og gott, svo spruttu upp háværir skemmtistaðir og hávaðinn fór yfir leyfð desíbel. Ég kvartaði við lögregluna. Henni var alveg sama. Ég setti mig í samband við borgaryfirvöld. Þeim var alveg sama. Borgarstjórinn sagði: Einhvers staðar verða vondir að vera. Mér var sagt að þeir sem byggju í miðbænum yrðu að sætta sig við kosti hans og galla. Samt var sérstakt meint átak um að efla blandaða byggð, þ.e. íbúa í bland við þjónustu og jafnvel iðnað. Ég axlaði ábyrgð og mér tókst að selja íbúðina.

Ég átti einu sinni í útistöðum við mann sem átti það eitt sökótt við mig að ég var yfirmaður hans. Löng saga. Hann hringdi í mig og hótaði mér lífláti. Hann hringdi að næturlagi. Rökstuddur grunur er um að hann hafi skorið dekkin á bílnum mínum. Ég kærði líflátshótunina og dekkjaskurðinn til lögreglunnar. Henni var kannski ekki sama en sagði bara að vegna undirmönnunar og tækjaskorts gæti hún ekkert gert annað en að ráðleggja mér að láta hengja upp símann, þ.e. láta símafyrirtækið vakta hringingar til mín. Ég var heppin og viðkomandi lét ekki verða af hótun sinni. En ábyrgðin var alfarið mín og lögreglunni datt ekki í hug að gæta að velferð minni. Og ekki róa mig heldur.

Lögreglan hefur alltaf verið undirmönnuð láglaunastétt, held ég, og ég hef samúð með lögreglunni. Það að fjölga í óeirðalögreglunni vegna þess að nú sýður á mörgu fólki og vegna þess að soðið hefur upp úr virkar á mig eins og foreldri sem ákveður að kaupa stærra gúmmílak handa 10 ára barninu sínu sem pissar undir frekar en að reyna að koma í veg fyrir þvaglekann.

Ég stend með lögreglunni en mikið vildi ég að yfirvöld beindu kröftum lögregluþjónanna í réttan farveg. Hvað er efnahagsbrotadeildin að gera? Er eitthvað til í því sem Sigurjón M. Egilsson segir, m.a. um 500 milljarða afskriftir Kaupþings tengsl lögmanna við uppgjör fyrirtækja? Ég er orðin bullandi tortryggin og held að til þess bærir aðilar hafi engan áhuga á að uppræta spillinguna og sorann. Hann er sjálfsagt útlenskur.

Já, ég er almenningur og mér verður fyrirsjáanlega gert að axla ábyrgð á því að Björgólfur Guðmundsson, Sigurjón Árnason og Elín Sigfúsdóttir reyndu að hrammsa til sín sparifé Breta og Hollendinga, að Sigurður Einarsson og Hreiðar Sigurðsson lánuðu sjeikum milljarða með veði í bréfunum sjálfum til að halda uppi hlutabréfaverðgildi bankans og e.t.v. fæ ég að kenna á gjaldþroti sparisjóðanna. Enginn hefur a.m.k. sannfært mig um að þeir standi hryðjuna af sér.

Vald spillir. Hversu margir myndu skammta sér hæfileg laun ef þeir hefðu fullkomið sjálfdæmi? Það er því miður ekki hægt að treysta nógu mörgum til að breyta rétt og þess vegna verður að setja skýrar leikreglur, almennar, og hafa nægt eftirlit með því að farið sé að reglum - rétt eins og lögum.

Mig langar ekki að grýta nokkurn mann, mig hefur aldrei langað til þess og sé það ekki fyrir mér - en mikið djöfulli vildi ég að orð mættu sín meira.

Þetta var skyrslettan mín.

- Ég hef skoðanir á ýmsu öðru en nú þarf ég að klippa til appelsínugula pilsið sem ég var hætt að nota. Stjórnarkreppa eða ekki, það er kreppa í almenningi og ég tek appelsínugula sjónarhornið á hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð færsla eins og oftar. Þekki reynsluna af lögreglunni, mín var ekki heldur góð, það verður að segjast. Samt hefur maður samúð með þeim, en fyrst og fremst sem einstaklingum. Eða segjum sjúkrastofnunum, ekki bara góð reynsla þar heldur, enda verið að spara þar líka. Ég er ekki viss að ég eða Jón hefði fengið að liggja inni eftir gangstéttarhellu eða götustein.

Hermann (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 00:21

2 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Ég las þessa færslu þína um daginn og hreifst af. Hélt að ég hefði sagt þér hvað ég hefði gaman af húmornum þínum: „Ég skelf af upplýsingaskorti“ Dásamlegt

Rakel Sigurgeirsdóttir, 23.1.2009 kl. 19:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband