Fimmtudagur, 5. mars 2009
Aragrúi tómra íbúða í úthverfum Reykjavíkur
Ekki man ég nákvæmar tölur en á fundi um húsnæðismál á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi kom fram að mikill fjöldi íbúða er tómur, margar íbúðir eru líka í byggingu og búið að steypa grunn að nokkuð mörgum til viðbótar. Á sama tíma eru einhver brögð að því að fólk sé borið út úr íbúðum sem það ræður ekki við að borga af því að allar reikniforsendur þess brugðust. Páli Gunnlaugssyni, fyrrum formanni Búseta, fannst þetta órökrétt og vitnaði í forsetafrúna.
Og svo kemur fáránleg frétt um litla raunlækkun íbúðaverðs. Á hverju er hún byggð? Örfáum sölum þar sem makaskipti hafa áreiðanlega oft komið við sögu. Og það þarf hvorki snilling né bragðaref til að átta sig á að trúlega eru notuð efri mörk í sölusamningum, m.a. út af lánum, notaðar tölur sem ekkert er að marka. Og fyrir utan það að fullt af fólki heldur að sér höndum í þessu árferði og reynir að þrauka frekar en að sætta sig við ... óásættanlegt verð. Það er næsta lítið að marka markaðinn. Síst af öllu þegar spádeildir fjármálastofnana losa sundur reiknistokkinn.
Verðið átti auðvitað aldrei að hækka svona skart en ég spáði þessu haustið 2004 þegar helvítis bankarnir byrjuðu eyðileggingarstarfið með íbúðalánunum sínum.
Fína íbúðin í Skuggahverfinu sem ég ætlaði að kaupa fyrir slikk af einum stórbankamanninum er seld. Hana keypti einn af hinum nýju eigendum Moggans, Þorsteinn Már Baldvinsson. Hver segir svo að menn raki ekki saman fé á að veðsetja óveiddan fiskinn?
Er þetta nýja, óspillta Ísland?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.