Vantar hátæknisjúkrahús?

Maður veit ekkert fyrr en maður lendir í því sjálfur. Pabbi minn fékk vægt heilablóðfall, var fluttur á Borgarspítalann og hann gerður sem nýr að kvöldi föstudagsins langa. Nú situr hann kátur í sjúkrarúminu sínu, hrópar upp yfir sig af fögnuði yfir þjónustunni sem er óaðfinnanleg og spyr: Til hvers annað hátæknisjúkrahús?

Þess sama spurði Jónas í gær:

Við eigum hátæknispítala
Nýtt hátæknisjúkrahús var rugl úr Davíð Oddssyni. Við eigum hátæknispítala, Landspítalann. Hann hefur verið stækkaður jafnt og þétt og nú orðinn að húsaþyrpingu. Hana má stækka yfir gömlu Hringbrautina. Nú er komin kreppa, sem er hentugur tími til að losna við bábiljur frá tíma hinnar botnlausu hítar. Samt er enn verið að tala um nýtt hátæknisjúkrahús. Nú á að kreista lífeyrissjóðina til að borga óþarfan spítala. Við skulum bara stækka gamla spítalann eins og við höfum alltaf gert. Hættum að tala tóma óráðsíu um tugmilljarða útgjöld. Við eigum að vita, að við höfum ekki efni á slíku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Svarið er já og nei.

1. Orðið hátækni er óþolandi. Við sem störfum á Landspítalanum finnst þetta orð lýsa ákveðinni vanþekkingu. Landspítalinn hefur alla tíð verið hátæknisjúkrahús frá stofnun árið 1930. Hann ætlar sér að verða það áfram. Þess vegna hefur nýbyggingin ekkert með hátækni að gera. Sem dæmi get ég nefnt að þegar ég flaug til London 1967 í DC-6 flugvél flaug ég í þeirra tíma hátækni flugvél. Hvarflar að einhverjum að kalla Flugleiðir hátækniflugfélag ef þeir byggðu sér nýtt flugskýli í dag vegna þess að það gamla héldi hvorki vatni né vindum.

2. Því óskum við eftir því að fólk noti frekar orðið Landspítali, Nýr Landspítali eða Landspítali Háskólasjúkrahús.( Sem þýðandi gæti þú e.t.v frætt okkur á muninum á spítala og sjúkrahúsi)

3. Málið snýst um vinnuaðstöðu og rými. Því fylgir aðbúnaður og öryggi. Árlegur sparnaður með tilkomu nýs sjúkrahúss er um 10%(=3 milljarðar á ári). Því mun Nýr Landspítali borga sig upp á endanum algjörlega án tillits til hvað hann mun kosta.

4. Vandamálið hjá okkur heilbrigðisstarfsmönnum að láta fólk skilja er hvað þessi 10% þýða. Þetta er ekki eingöngu sparnaður á skeinispappír og öðrum ritföngum. Nei þetta eru mannslíf, þetta eru einstaklingar-kannski þú eða ég sem lifum af. Þetta eru einstaklingar sem losna við spítalasýkingu-kannski þú eða ég og sleppum við fimm til tífalt lengri dvöl á sjúkrahúsinu. Ómældar þjáningar. Munurinn getur verið vinnufær einstaklingur eða öryrki sem getur ekkert nema dregið andann.

5. Plís, fattið þetta-Nýtt sjúkrahús er fyrir ykkur og ókeypis.

Amen,

takk fyrir síðast.

Gunnar Skúli Ármannsson, 13.4.2009 kl. 22:13

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Gunni, ég held alltaf að við séum sammála en svo lætur þú það líta út eins og við séum ... ekki sammála. Annars lenti ég á áhugaverðu spjalli í fermingarveislunni - amen og takk fyrir síðast, sjálfur - um það hvort ætti að lengja líf fólks um þrjá mánuði með ærnum tilkostnaði. Segi ekki hér við hvern eða hvernig skoðanir féllu. Í ljósi þess að mér verður næstum aldrei misdægurt lýsi ég mig vanhæfa til að hafa skoðanir í eigin nafni og mun í mesta lagi fleyta áfram annarra manna skoðunum. Í mesta lagi.

Ég get í lokin bara giskað á hvers vegna fólk notar spítali stundum sem er nátengt útlenska orðinu hospital og stundum hið gagnsæja orð sjúkrahús sem er alls ótengt Krankenhaus, ehemm, en hljóðlíkara orðinu sygehus. Eins og alnæmi vs. eyðni, traffík vs. umferð ... en það er sérstaklega satt að Landspítali - háskólasjúkrahús er mjög undarleg blanda.

Og nú er kominn í mig einhver páskafíflagangur sem ég læt hér með lokið á prenti.

Berglind Steinsdóttir, 13.4.2009 kl. 22:43

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæl Berglind,

það fauk svolítið í mig, fyrirgefðu mér. Þú getur þó huggað þig við það að ég reiðist aldrei fólki sem ég ber enga virðingu fyrir, þannig að það má næstum líta á þetta sem meðmæli!!

Spurningin sem þú nefnir um þrjá síðustu mánuðina og kostnað er mjög raunveruleg. Þetta er spurning sem allt þjóðfélagið þarf að taka til alvarlegrar umræðu Sú umræða getur síðan orðið vegvísir fyrir heilbrigðisstéttirnar. Vegvísir okkar í dag eru lögin og þau segja að ALLIR eigi að fá ALLT.

kk

Gunnar Skúli Ármannsson, 15.4.2009 kl. 20:45

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hey, tókstu netið með þér í afmælið?

Já, við Óli lyfjafræðingur ræddum Tysabri á mánudaginn, lengt líf, gæði og kostnað. Hversu mikið kostar að auka lífsgæði langt leidds sjúklings um 30%, 50%? Annars er ég varla viðræðuhæf, sjálf fílhraust og flestum í kringum mig verður heldur ekki misdægurt. Ég á þess vegna svo erfitt með að taka persónulega afstöðu til anda laganna, ALLT fyrir ALLA, og fræðiþekkingin er engin. Ég þykist bara vita að það verður alltaf erfitt að ætla sér að segja við sjúkling: Því miður er ríkið ekki tilbúið að leggja út x milljónir svo að þú getir notið aukalega fimm ára.

Tökum upp þráðinn síðar.

Berglind Steinsdóttir, 15.4.2009 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband