Karlar sem hata konur

Nei, auglýsing Samtaka iðnaðarins er mér ekki efst í huga. Þó vil ég geta þess að tengiliðir mínir í auglýsingaheiminum líta svo til að börn hafi verið á vakt á auglýsingastofunni þegar auglýsingunni var hleypt áfram. Tortryggnin er orðin svo allsráðandi að mér datt fyrst í hug að auglýsandinn hefði viljað fá umtal með góðu eða illu.

Og mér er svo sem ekki dottið það úr hug ennþá.

Enda fengu samtökin umtal sem er á við margar auglýsingar. Og hvernig geta hinir viðskotaverstu sniðgengið samtökin? Maður getur látið ógert að kaupa álegg frá kjötframleiðanda sem niðurlægir einhvern, bíl frá bílaumboði sem manni mislíkar - en þetta?

Nei, ég er sko ekki að hugsa um auglýsinguna, ég er að hugsa um höfundinn sem hefur farið sigurför um Ísland, á sænsku, norsku og íslensku. Kannski ensku líka.

Fyrsta bókin, sú eina sem ég er búin að lesa, Karlar sem hata konur, er vel á sjötta hundrað blaðsíður og ég náði engu sambandi við Mikael, Eriku og Lisbeth fyrr en í fyrsta lagi eftir svona 100 síður. Kannski var það eitthvað í þýðingunni, kannski einbeitingarskortur, kannski hæg uppbygging.

Þetta finnst áreiðanlega fleirum.

Svo jókst spennan og síðustu kílómetra bókarinnar spretti ég vel úr spori. Hins vegar þoli ég ekki að Bjartur skuli hafa sparað síðustu próförkina. Ég heyri fólk tala um að þýðingin sé ógóð. Ég held að hún sé ekki vond, þýðanda sjálfsagt mislagðar hendur en heildaráhrifin á mig eru ekki þannig enda reyndi ég að lesa söguna (atvinnusjúkdómur að vanda um við einhvern í textagerð). Ég hjó hins vegar eftir þessu (bls. 94):

Harriet kom hingað á eyjuna þegar klukkan var svona tíu mínútur yfir tvö. Ef við teljum með börn og einhleypa lætur nærri að um þetta leyti dags hafi um það bil fjörutíu manns verið saman komin á eyjunni.

Stoppar þú ekki líka?

Nokkur dæmi um óverjandi frágang:

(bls. 125):

46 prósent kvenna í Svíþjóð hefur orðið fyrir ofbeldi karlmanns

(hins vegar bls. 255):

13 prósent af sænskum konum hafa orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi utan ástarsambanda

(bls. 282):

Mikael týndi út spjöldin með myndunum sem hinn ungi Nylund hafði tekið og raðaði þeim á ljósaborðið þar sem hann grandskoðaði hvern myndaramma fyrir sig.

(bls. 302):

Hún hafði grafið upp rokkhljómsveitina hans, Bootstrap, sem varla nokkur lifandi sála í dag rak minni til.

(bls. 329):

En ég vil fyrir alla muni ekki að þú vekir einhverjar faslvonir hjá honum.

(bls. 330):

Lisbeth Salander náði í Kawasaki hjólið sitt kvöldið fyrir miðsumarshátíðina og var svo fram eftir dagi að yfirfara það.

(bls. 443):

Hann veitt eitthvað.

(bls. 463):

Hún hugsaði um Martin Vanger og Harriet fokking Vanger og Dirch fokking Frode og alla þessa fokking Vangerfjölskyldu sem sat í Hedestad og drottnaði yfir litla heimsveldinu sínu og reyndu að níða skóinn hvert af öðru.

(bls. 507):

Nýjasti tölvupósturinn., smáskeyti um einhverja smámuni hafði verið sent klukkan tíu um kvöldið.

(bls. 527):

Sú spurning sem eftir var stóð snerist um hversu langt hennar eigin rannsókn ætti að ná.

Bókin er að sönnu orðmörg en listinn minn er heldur ekki tæmandi. Framan af var ég ekki með blýant við höndina og dæmin mín eru bara dæmi. Þá kemur það ekki skýrt fram í stuttum dæmum að gæsalappir eru notaðar í óbeinni ræðu, ósamræmi er í beygingum nafna, til Birgers og til Birger og gott ef ekki Birgis líka einu sinni (þá var ég ekki með blýantinn innan seilingar), Wennerström og Wennerströms í eignarfalli o.fl. 

Kannski ég reyni að lesa Flickan som lekte med elden frekar en að lesa Stúlkuna sem lék sér með eldinn.

Ég á þýðinguna ef einhver vill fá lauskrotað eintak lánað ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrir forvitnisakir, ertu að lesa kiljuna eða harðspjölduna?

Ég veit að það var lesið yfir aftur áður en kiljan kom út og heilmikið lagað. Alveg örugglega ekki allt, samt.

Sigga Lára (IP-tala skráð) 29.4.2009 kl. 23:05

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég keypti mér þessa bók um daginn í kilju en get ekki lesið hana - letrið er of smátt fyrir sjónina. Þarf að koma mér upp græjum fyrir sjónskerta eða eitthvað.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.4.2009 kl. 23:21

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Glerhart eintak, Sigga Lára, og mjög auðlæsilegt letur, Lára Hanna - hefði verið gaman að fá athugasemd frá Hönnu Birnu líka, hehe. Ég fékk annars sænskt kiljueintak lánað fyrir jól sem ég gaf mér svo ekki tíma til að lesa áður en það var hirt af mér aftur og það var smátt letur og þunnur pappír. Þunnur pappírinn, maður.

Í ljósi ... öhm athugasemdar er mér ljúft að taka fram að ég er yfirleitt ánægð með Bjart. Þess vegna varð ég líka fyrir vonbrigðum með fráganginn.

Berglind Steinsdóttir, 30.4.2009 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband