Laugardagur, 2. maí 2009
Eigendavald eða ekki
Þeir sem ekki hafa unnið á ritstjórnargólfi gera sér kannski ekki grein fyrir því, en almennt líta blaðamenn skelfing mikið niður á viðskiptahlið útgáfunnar.
Þetta er undir lok skoðunar Jóns Kaldals í Fréttablaðinu í dag þar sem hann ber blak af blaðamönnum sem njóta ekki trausts nema tæplega helmings í samfélaginu í dag. Mér finnst Jóni ekki lukkast meint ætlunarverk. Það þarf enga sérstaka prófgráðu til að skilja að það sem á að seljast þarf að vera seljanlegt. Hins vegar getur verið að það sé meiningarmunur hvort Ásdís Rán selji meira eða minna en Jón Baldvin, umfjöllun um húsbúnað eða úttekt á kosningaloforðum, svínaflensa eða útrás blávatns. Eða teiknimyndasögur.
Menn tala um sjálfsritskoðun á blöðum. Ég kýs að trúa að blaðamenn upp til hópa vilji vel og ætli að vanda sig. Hins vegar er grunnt á sjálfsritskoðuninni af því að margir vilja ekki stuða um of og svo hafa menn ekki alltaf nægan tíma eða aðgang til að grufla nógu mikið í vafamálum til að vera skotheldir með umfjöllun sína.
En Jón sannfærði mig ekki um neitt í ritstjórnarpistli sínum.
Ég ætti kannski að grufla meira í fortíðinni og fjarlægum skjölum áður en ég set svo vafasama skoðun í umferð að blaðamönnum séu mislagðar hendur ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.