Þegar almenningssamgöngur eru einkavæddar

Sjálfsagt getur græðgi verið af hinu góða. Áhugasamir segja að ábatavon sé hvati framfara, nýjar leiðir verði uppgötvaðar, hagræðing komist á, almennur sparnaður orðið - og afraksturinn sé hagur allra. Kannski orða áhugasamir það öðruvísi.

Ég horfði stóreyg á The Big Sellout í gærkvöldi og undraðist hversu litla kynningu myndin fékk. Nú er svo komið að Íslendingar þurfa virkilega að velta fyrir sér hvaða afleiðingar geta orðið af einkavæðingu. Fyrir tæpum áratug man ég að Áslandsskóli var rekinn af einkaaðilum. Tilraunin gekk illa og var fordæmd af mörgum. Ég verð víst að viðurkenna að ég trúi að einhverjir skólastjórar sem hefðu sjálfdæmi um fjárveitingar gætu varið peningunum betur en miðstýrt ráðuneyti og náð betri árangri. Mér leiðist t.d. óhemjumikið þegar illa er farið með pappír. Og ég skil ekki af hverju myndin var ekki betur kynnt því að við ættum að vera áhugasöm um að verða meðvitaðri um kosti og galla einkavæðingar. Bankasölurnar eru víti til að varast.

Sjálf er ég efins um einkavæðingu, en ég er líka dálítið efins um myndina. Ef hins vegar bara punktur bresku járnbrautarstarfsmannanna er sannur fordæmi ég einkavæðingu bresku járnbrautanna. Ef ég man rétt keyptu 150 ólík fyrirtæki járnbrautirnar og þau vildu öll setja sitt mark á starfið, m.a. með eigin einkennisbúningum. Stóra sjokkið var samt að heyra af sprungunni í teinunum sem fyrirtækið skellti skollaeyrum við og svo gáfu sig teinarnir með þeim afleiðingum að fjórir farþegar og tveir starfsmenn létu lífið. Gróðavonin var sett ofar örygginu. Ef járnbrautarmennirnir sögðu satt. Er kannski yfirleitt tilfellið þegar flugvélum hlekkist á að eigandinn hefur látið sér öryggið í léttu rúmi liggja?

Ef raforkukerfi í Suður-Afríku er einkavætt og margir fátækir íbúar þurfa að borga þriðjung ráðstöfunartekna sinna (20 af 60 röndum) fyrir orkuna finnst mér salan á villigötum. Ef eigandi samfélagslegrar þjónustu notar öll tækifæri til að keyra upp verð á þjónustunni til að fjármagna bruðlið í sér er mér það á móti skapi. Ef menn nota bolabrögð til að græða á starfsemi sinni, e.t.v. vegna þess að samkeppni er lítil eða hartnær engin, fyrirlít ég það.

Er það það sem við sáum í myndinni? Hafa spítalarnir á Filippseyjum verið einkavæddir til að fjármagna gríðarlega yfirbyggingu? Er munaður að fá blóðskilun á spítalanum eða sjálfsögð þjónusta sem á að greiða í gegnum skattana? Keiluskurður? Súrefnisgjöf?

Er eðlilegt að skattleggja bláu olíuna, vatnið, þannig að aðeins hinir efnameiri geti leyft sér að nota ómengað vatn til drykkjar? Hvers vegna eru eða verða hinir efnaminni það? Er það vegna þess að þeir hafa sóað auðæfum sínum? Forheimskast af sjónvarpsáhorfi? Drukkið frá sér rænuna? Eða fyrst og fremst vegna þess að gáfum, áhuga og tækifærum er dálítið misskipt?

Og ef maður hefur ekki áhuga á að verða forríkur á maður þá ekki skilið að njóta heilsugæslu, menntuntar eða blávatns?

Ég er efasemdarmaður og mér dettur ekki í hug að uppveðrast yfir þættinum og trúa öllu eins og nýju neti. Sögurnar eru mér hvati til að íhuga þetta áfram og mynda mér skoðun á því hvað er eðlilegt. Og ég er alltaf að verða skelkaðri við vitundina um veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hérna. Mér finnst ég enn leynd upplýsingum og ég kann því illa.

Hvað er eiginlega framundan?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband