Getur ágrip verið langt?

Nei, það finnst mér ekki. Samt þýddi Guðmundur Andri skáldsögu með titlinum „Stutt ágrip af sögu traktorsins ...“. Ég fylltist strax grunsemdum og eftir aðeins 10 blaðsíður eða svo fannst mér þýðingin orðið bera svo sterkan keim af enskunni að ég lagði hana frá mér í fússi. Les hana síðar á ensku.

Og þetta minnir mig á fyrsta ritdóminn sem ég skrifaði. Hann birtist í Veru. Hann var um bók virts rithöfundar. Mér mislíkaði að í bókinni voru tvær ljótar villur sem höfðu sloppið frá rithöfundinum og framhjá ritstjórum og yfirlesurum, fyrir utan að mér fannst bókin tilgerðarleg og skrifuð af bókmenntafræðingi fyrir bókmenntafræðinga, tilbúnar tilvísanir - og sjalið. Ég var ekki hrifin og taldi mig rökstyðja mál mitt.

Nema hvað, rithöfundurinn hringdi og þýfgaði mig um þessar villur, fullyrti reyndar að þær væru ekki. Ég man því miður bara aðra núna, einhver „týndi upp af gólfinu“ en einhver átti að „tína það upp af gólfinu“. Ég meina, góð villa myndi ég alltaf segja við nemendur mína sem væru að læra að fóta sig í villtustu skógum málfræðinnar en villa samt og átti alls ekki að koma frá Máli og menningu.

Höfundurinn þráttaði ekki meir en var ekki skemmt þegar við kvöddumst.

Ég skrifaði samt fleiri dóma hjá Veru og síðar víðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Traktorinn rann svona líka ægilega vel ofan í mig. Enda er ég ekkert að pæla í hvernig þetta og hitt er á enskunni. Þú ættir kannski að lesa sem mest af bókum eftir íslenska höfunda, það myndi hafa góð áhrif á óánægjustuðulinn

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 13:14

2 identicon

Neibb, ég trúi á tvennt í heimi - annað þeirra er heilbrigð gagnrýni. Án uppbyggilegrar gagnrýni færum við beina leið til andskotans þannig að reyndu ekki neitt að uppræta óánægjustuðulinn minn.

Berglind (IP-tala skráð) 14.12.2006 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband