Miðvikudagur, 1. júlí 2009
Bólgnir seðlar
Launin mín sexfölduðust á árabilinu 1995 til 2007 enda jók ég við mig menntun og starfsreynslu á sama tímabili. Mér finnst það mikið, enda er ég ósköp nægjusöm. En hvernig má það vera að ein þyrla, ein húsbygging þótt hún sé stór, ein bankastjóralaun eða eitt kúlulán mörghundruðfaldist? Er það efniskostnaður? Óráðsía? Græðgi? Eða er þörfin svona gegndarlaus?
Á þessum tíma lækkaði nefnilega ýmis kostnaður, örbylgjuofnar urðu ódýrari, farsímar, tölvur o.fl. raftæki, í ljósi þess að framleiðslugetan varð meiri og fleiri tæki seldust sem gerði seljendum kleift að lækka verð á hverju stykki.
Ég held að við höfum verið of gagnrýnislaus á tölur - og það þótt við höfum verið gagnrýnin í bland. Tónlistarhúsið á að kosta 13 milljarða, fer upp í 20 milljarða, kostnaðaráætlanir standast aldrei þegar við erum komin upp í milljarðatölur, eins og það sé enginn marktækur munur á einum milljarði eða tveimur, 100 eða 200.
Heilbrigð gagnrýni er þörf og við lögðum hana til hliðar. Sigurður Einarsson og Hreiðar Már Sigurðsson fengu bágt fyrir hjá almenningi þegar þeir ætluðu að skammta sér ríflega kaupréttarsamninga um árið, en strax árið á eftir var úthald gagnrýninnar þrotið. Þeir hröktu mig þó frá Búnaðarbankanum og ég sé ekki að ég geti fyrirgefið þeim framkomuna. Ég get ekki skilið að þeim líði vel í skinninu á sér, en mér finnst ekki nóg að þeir finni vanþóknunarglampann þegar þeir hætta sér út á götu. Mér finnst að þeir eigi að skila sjálftökunni. Löglegt eður ei, þeir eru sjálftökumenn og sölsuðu undir sig peninga nytsamra sakleysingja.
Þetta lá mér á hjarta þótt ég viti að allir séu búnir að átta sig á þessu. Helv. þjóðarskuldir.
Athugasemdir
Er ekki eitthvað erlent tryggingafélag á bakvið þessa tónlistarhúsaframkvæmd. Kveikja í þessu.
spritti (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 14:45
Hmm.
Berglind Steinsdóttir, 3.7.2009 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.