Stúlkan sem leikur sér að eldinum

Ég er nógu áhrifagjörn til að lesa bækur sem mér finnst allir vera að tala um. Auðvitað getur ekki bók sem mjög breiður hópur hefur gaman af verið algjörlega frábær. Og ég verð að segja að ég skil ekki alveg þennan æsing yfir bókum Stiegs Larssons. Ég hef alveg gaman af því hvernig hann lætur eftir sér að lýsa því hvernig Lisbeth tekur til í íbúðinni, svitnar af ákefðinni, fær sér brauðsneiðar með lifrarkæfu og grænum baunum (eða hvað það nú var, kannski rauðbeður), fer í bað, sofnar, vaknar um miðnætti í hráköldu vatninu, bölvar, fer upp úr og sofnar svo um leið og hún leggst á koddann. Eða að Mikael reyki sígarettuna og snúi bollanum á undirskálinni meðan boxarinn segir frá með alls kyns krúsindúllum. Stieg dvelur lengi við litla hluti og hægir þannig á frásögninni. Fínt.

Það væri bara meira gaman að súpa stundum hveljur yfir orðalaginu. Fléttan virðist ganga vel upp og það verður að duga. Og ég er svo sannfærð um að Lisbeth geti ekki hafa drepið Dag, Miu og Nils að hún gæti vel hafa gert það. Samt sjáum við stundum í hug hennar sjálfrar.

Flickan sem lekte med elden fer vel í sólinni, fór líka vel í lestinni og flugvélinni. Og ég er þegar búin að kaupa Loftkastalann sem var sprengdur, áhrifagirninni eru engin takmörk sett ... Nú er bara fyrir öllu að sólin skíni glatt alla vikuna eins og veðurfræðingar boða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband