Flugeldahagfræði fyrir mig

Um leið og Lisbeth Salander (áður Sjölander) í Stúlkunni sem lék sér að eldinum sleppti rak á fjörur mínar bók Jóns Fjörnis Thorarensens, Íslenska efnahagsundrið. Hún er 140 síður í stóru broti og vonlausri uppsetningu (ég þarf að spenna upp bókina til að geta lesið línurnar til enda) en hún greip mig föstum tökum. Ég er einmitt byrjandinn sem bókin beinist að, ég man sumt af því sem fjallað er um, t.d. um aðkomu Samson-hópsins, rámar í Hafskipsmálið og snarlega rifjast upp ýmislegt af þessu nýskeða sem kom á daginn í vetur. Sumt er alveg glænýr flugeldur, t.d. að Sigurður Einarsson sé ljóngáfaður og hafi notað sparisjóðina og lífeyrissjóðina til að Kaupþing gæti gleypt allt fast og laust (bls. 37). Sjálfsagt hefði ég átt að hafa haft hugmynd um þetta, en mér finnst reyndar þversögn í þessu ... Ég vissi heldur ekki að Hannes S. hefði unnið hjá sama fyrirtæki og fyrrum (núna) forstjóri Enrons, Jeffrey Skilling (bls. 47). Þarf nokkuð að efast um að höfundur viti um hvað hann er að tala í þessum efnum?

Ég hef séð einhvern gagnrýna höfund fyrir að vísa í margan, ýmsa og óljósar fregnir, en sannast sagna plagar þessi skortur á beinum heimildum mig ekki. Ég trúi því að höfundur þekki einmitt marga og ýmsa úr verðbréfaheiminum og þeir hafi einmitt þessa vitneskju og þessi hugboð. Og hvers vegna skyldi ekki vera rétt að benda á þá sem fóru offari og ófu skýjaborgir langt umfram eigin getu og langt umfram hagkerfi byrjenda og lengra kominna meðan sýnilegar afleiðingar gróðærisins eiga að kristallast í skuldum handa mér langt inn í framtíðina?

Hagnaðarvon getur vissulega verið drifkraftur nýsköpunar og framfara en flugeldurinn er einnota og þegar hann er sprunginn í eitt skipti fyrir öll er hann öllum einskis virði. Þegar púðurkerlingarnar skilja að ég er ekki sátt við að borga skuldir sem ég stofnaði ekki til hætti ég að steyta hnefann framan í greppitrýnin í bókinni. Lengra geng ég ekki í aktívismanum en ég er bara eins og hurðarsprengja. Þarna úti eru stórar bommertur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband