Sunnudagur, 26. júlí 2009
Kannski væri hægt að rukka í Dimmuborgum
Egill Helgason mælir því bót að rukka inn á vinsæla ferðamannastaði og Landgræðslan íhugar að byrja að rukka aðgangseyri að Dimmuborgum í Mývatnssveit til að bregðast við mikilli aðsókn ferðamanna. Ég er ekki á móti því að menn borgi fyrir afnotin en mér finnst óeðlilegt að rukka fyrir aðgang að hverjum stað - og aðallega held ég að það sé tæknilega illframkvæmanlegt. Það er dýrt í sjálfu sér. Það er klassískt umhugsunarefni hvernig eigi að rukka inn á Geysi, Dettifoss og Ásbyrgi. Hvað með Hvítserk? Hann verður kannski ekki fyrir ágangi en fólk keyrir veginn til að komast nær honum og við það slitnar hann.
Í öllu fallli yrði leikurinn ójafn en látum það liggja á milli hluta.
Gætum við læst Geysi kl. 9 á kvöldin? Er meiningin að vera með vakt? Hvað með öryggi?
En kannski er bara með þetta mál eins og Evrópusambandið, erfitt að fá heilbrigða umræðu um kosti og galla og á endanum kalt mat.
Ég var í Dimmuborgum í gær og allir mínir farþegar gengu litla hringinn. Einn skokkaði hann á fjórum mínútum og þeir seinfærustu voru 20 mínútur. 100 kall? Og miða, gjörðu svo vel? Veitingastaðurinn til hliðar tók sig vel út og ég fagna tilkomu hans, en ætti að setja upp sölubás við hliðið? Tæknilega framkvæmanlegt í Dimmuborgum.
Ég finn samt að mér líður illa með tilhugsunina um að rukka inn á einstaka staði.
Bróðir minn rekur vegasjoppu og þar stoppaði fólk um daginn með bíl á síðasta snúningi, þrjú systkini hafi ég tekið rétt eftir. Að beiðni þeirra reyndi hann að finna fyrir þau bílaleigubíl. Þar sem það gekk ekki lánaði hann þeim sinn bíl í 2-3 daga (stóð vel á hjá Gumma) og fékk bifvélavirkja frá Hvammstanga til að gera við bilaða bílinn. Systikinin komu að 2-3 dögum liðnum með bílinn fullan af bensíni og færðu honum bæði pening og gjafir.
Ég sakna þess að fólk geri hlutina rétt bara af því að það er rétt, eins og þau gerðu öll í þessu tilviki. Þau smullu kannski bara saman upp á gamla móðinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.