Laugardagur, 30. desember 2006
Búnaðarbankinn -> KB-banki -> Kaupþing
Það sem ég er fegin að ég forðaði mér úr mínum gamla banka þarna um árið þegar höfðingjarnir Hreiðar Már og Sigurður skömmtuðu sér sína rausnarlegu kaupréttarsamninga. Þeir drógu þá til baka um tíma en hálfu ári síðar eða kannski ári síðar nenntu fjölmiðlar ekki aftur að tala um ófélegheitin og þá skiluðu þeir öngvu aftur, eins og skáldið myndi segja.
Nei, og viti menn, í Blaðinu í dag er frétt um það að Búnaðarbankinn, æ nei, KB, sé byrjaður með og hyggi á frekari auglýsingaherferð vegna nafnbreytingar. Ja svei, og John Cleese tók að sér að leika og - hahhahha - Benedikt upplýsingafulltrúi sem áður var fréttamaður hjá RÚV segir kvikmyndastjörnuna hafa verið hóflega í launakröfum!
Eiginlega veit ég ekki hvernig ég á að koma orðum að því sem mér finnst. Reyndar held ég að allir hljóti að vera sammála mér (nema kannski Benedikt og kó) um að það sé fáránlegt að bankinn fari í auglýsingaherferð til að breyta KB (les: Kaupþingi banka) í Kaupþing, skælandi starfsmenn í einn dag yfir að vera að hætta hjá KB og hlæjandi næsta dag yfir að vera byrjaðir að vinna hjá Kaupþingi.
Áður en Hreiðar og Sigurður skandalíseruðu í mínum augum var ég reyndar byrjuð að flytja mig frá Búnaðarbankanum yfir í Spron en þeir ráku mig endanlega á braut. Og ef þeir hefðu ekki gert það þá hefðu þeir gert það núna. Má fólk ekki frekar fá hærri innlánsvexti, minni almennan vaxtamun og lægri þjónustugjöld en auglýsingamyndir með Monty Python og jólahauspoka á jólunum? Ég vona að bankarnir sem skila æðstu stjórnendum og hluthöfum milljörðum í hagnað fari að fá alvöru aðhald frá viðskiptavinunum sem fá neikvæða vexti og há þjónustugjöld.
Ég held ekki að Spron sé háheilagt fyrirtæki og vafalaust gæti einhvern hneykslað mig með einhverju hneykslanlegu þaðan en Spron borgar mér a.m.k. 12,1% innlánsvexti (Kaupþing 4,5%) og treður ekki upp á mig ávaxtakörfu á jólunum eða grillbursta þegar ég afmæli.
Ég veit um eina manneskju sem ætlar að kveðja KB á þessum tímamótum og skipta yfir í Spron. Vonandi eru samt fleiri búnir að ákveða það.
Athugasemdir
gjörsamlega glatað!

tilhvers að breyta!
allvega alltaf betri og betri síða berglist min ;*
smá flipp..

addy frænka (IP-tala skráð) 31.12.2006 kl. 17:55
Monty Python eða innlánsvexti? Berglind, það er ekki spurning: John Cleese.
En annars, mætti sonur minn leggja inn sparnað sinn í Spron á reikning með a.m.k. 12% vöxtum. Hann er sá eini í fjölskyldunni sem á pening. Ég held að hann hafi safnað sér um 50-60 þús. kr. undanfarin ár, hvað heitir reikningurinn sem mundi gefa honum 12% vexti?
Kjartanovitch Halljúnóv
Kjartan Hallur (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 02:33
Kjartanovitch minn,
ég hljóp kannski á mig. Maður þarf að eiga yfir 1 milljón króna til að fá 12,1% en skv. heimasíðu s24 er hægt að fá 11,5% vexti á sparnaðarreikningi.
Hins vegar var John Cleese leikþátturinn í gær á við heilt áramótaskaup ...
Berglind Steinsdóttir, 1.1.2007 kl. 12:48
Langar að leiðrétta, nafnabreytingaferlið var svohljómandi:
Búnaðarbanki Íslands > Kaupþing-Búnaðarbanki > KB-Banki > Kaupthing Bank > Kaupthing
Annars þá fyrir 2-3 dögum dreymdi mig mjög skrýtinn draum, mig dreymdi að að Kaupthing Banki hafi breytt nafninu sínu yfir bara 'Bank' eða 'Banki'. Mjög skrýtinn draumur, ég hafði miklar áhyggjur af þessu fjármálafyrirtæki, að þetta væri röng ákvörðun.
Siggi: "Sæll Jón, hvar vinnur þú?"
Jón: "Ja, ég vinn hjá Banka"
Siggi: "Já, og hvaða banka þá?"
Jón: "......."
Kveðjur, Gúgglfari á ferð
Gúgglafari (IP-tala skráð) 1.1.2007 kl. 13:52
Ja hérna, mér hefur aldeilis skotist yfir. En ætli það sé samt ekki örugglega Kaupþing (með þ-i)? Humm humm, ég er að reyna að rifja upp hvað John Cleese sagði ...
Berglind Steinsdóttir, 1.1.2007 kl. 14:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.