Jólaólesning, nýárshorf

Ja, ekki eru allir á eitt sáttir um bækur. Að vonum. Nú er ég búin að lesa Gaddavír eftir Sigurjón Magnússon, skáldsögu svo stutta að hún jaðrar við nóvellu. Hann gerir þau ógurlegu mistök að byggja upp spennu fyrir einhverju sem er ekki. Það frumlegasta og kannski besta er að söguhetjan er drykkfelldur prestur austur í sveitum. Það grátlegasta er tónlistin sem ég giska á að höfundur hafi sérstakan áhuga á en tekst ekki að flétta inn í söguþráðinn.

Ég þorði ekki að viðra þessa skoðun mína fyrr en Kjartan var líka búinn að lesa bókina. Mér heyrðist hann vera sammála mér en kannski er ég að gera honum upp skoðanir.

Svo verð ég að úttala mig um Strákana okkar sem ég sá ekki fyrr en í gærkvöldi. Ég var búin að heyra að hún væri alveg skelfilega misheppnuð, ætti að vera ádeila á hommafóbíu en félli sjálf í allar gryfjurnar. Það er alltaf alveg meinhollt að heyra einhvern óskapnað, þá finnst manni verkið ekki eins slæmt. Ég verð víst samt að játa að mér þótti hún óttalega klisjukennd en verra var þó að persónusköpunin var ræfilsleg - Óttar kemur út úr skápnum á fótboltaæfingu, í musteri karlmennskunnar, og umsvifalaust tekur hann upp einhvers konar náið samband við annan homma, biður alla að slappa af og ætlar að þvo andúð manna af sér í sturtu. Ég veit reyndar ekki hvort hún átti að gerast 1994 eða hvort þarna kom bara fyrir upprifjunarmót manna sem höfðu verið saman í boltanum 1994. Skiptir svo sem ekki miklu máli.

Kannski var eitthvað raunsatt í myndinni, ég þekki hvorugan heiminn, en eru menn í 3. og 4. deild að gefa leiki hægri og vinstri af því að ekki tekst að manna 11 manna fótboltalið á leikjum?

Og myndatakan var svo gleið að maður sá oft ekki hver var að tala og vissi ekki um hvað málið snerist fyrir vikið.

Hins vegar verð ég að segja að mér þótt Lilja Nótt Þórarinsdóttir algjör meistari sem fyrrum fegurðardrottning og núverandi alki. Þegar hún dissaði kærustu bróður Óttars, fyrrum svilkonu sína svo að segja, með því að segja að hún gæti aldrei komist áfram í fegurðarheiminum af því að hún væri ekki nógu sæt var eins og hún væri að hugsa þetta á staðnum og stundinni. Líka þegar Óttar sagði við son þeirra: Hey, ég er nú pabbi þinn, og hún sagði: Hann fór meira að segja í blóðprufu, var Lilja Nótt eins og í góðum spuna. Hún átti fleiri gullsetningar sem ég er of feimin til að skrifa hér en hún er stjarnan sem ég myndi gefa myndinni.

Til allrar sanngirni verð ég þó að segja að mamma Óttars fékk líka góða línu (um rjómann neðst í ísskápnum þegar hún var að farast úr sorg yfir að sonurinn væri hommi).

Nauðsynlegt að horfa á þessar íslensku myndir, humm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband