Umhverfisvernd byrjar heima

Að minnsta kosti ætti hver borgari að geta stundað umhverfisvernd, sleppt frauðplasti undir hakkið, skrifað báðum megin á blaðið, skilað dósum og flöskum í Sorpu og breytt kaffikorginum í moltu. Engu að síður vantar góða aðstöðu til að vera umhverfisvænn í Reykjavík. Sorpa er á fáum stöðum og lítið borgað fyrir dósirnar, blaðagámarnir eru stundum fullir eða fjarverandi og engar grænar tunnur til að henda lífrænum úrgangi í. Hjólaleiðir eru fyrir sportista, t.d. er lífshættulegt að hjóla milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og að auki er dýrt í strætó, ferðirnar stopular og óaðgengilegar. Ég er mjög spennt að vita hvernig ókeypis tilraunin á eftir að ganga á Akureyri. Ég er mjög bjartsýn á hana og svo kostar hún bæjarsjóð bara 16 milljónir, held ég að ég hafi tekið rétt eftir.

Svona umhverfisvernd finnst mér skipta máli, ekki síður en Kýótó-ákvæðið.

Og ég verð víst að viðurkenna að í ljósi umhverfisins skil ég ekki almennilega fjaðrafokið út af Alcan-kostuninni á Kryddsíldinni. Ég horfði á hana - nema hvað - og tók ekki eftir kostuninni! Til að kóróna þetta skilst mér að Alcan hafi kostað Kryddsíldina í fyrra líka - augljóslega fé á glæ kastað þar sem fólk leiðir svona auglýsingar hjá sér, hahha.

Ég meina, Alcan er löglegt fyrirtæki, kostun er lögleg og þetta er leiðin sem Stöð tvö fer til að fjármagna útsendingar sínar. Hins vegar er ég enn á því að þetta sé ekki leiðin að jákvæðu viðhorfi Hafnfirðinga og annarra landsmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú ertu bara OF neikvæð. Tíkall fyrir dós og flösku finnst mér ljómandi sanngjarnt og algjörlega þess virði. Blaða og fernugámarnir sem ég stunda eru við skólann hjá stóra unganum mínum, aldrei fullir og alltaf brosandi.

 Sorpa er nægilega víða til að það valdi ekki vandræðum, þangað þarf maður nú kannski ekki að fara nema vegna stærri tiltekta (framkvæmda). Grænu tunnunni fyrir moltugerð þarftu að koma þér upp sjálf, ókei, ég væri líka til í að einhver hirti frá mér flokkaðar matarleyfar en þangað til lifi ég við þetta. Það besta sem maður getur gert í þessu er að skrá sig í visthóp hjá landvernd.is, brúka samferda.net og vera svo bara glimrandi jákvæð.....  

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 4.1.2007 kl. 08:55

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ó boj, er virkilega tíkall fyrir dósina? Ó boj, en ég er ekki sammála þessu með gænu tunnuna vegna þess að ég er virkilega búin að reyna og reyna. Ég átti heima í húsi með svölum og garði og þá var ég í moltugerð en nú hef ég enga aðstöðu. Ég samþykki því ekki að ég sé of neikvæð í þessu, skæl ...

Svo var ég að reyna að segja að mér finnst að við ættum sjálf að leggja okkar af mörkum og ekki treysta bara á að stóru fyrirtækin eyði ekki ósonlaginu.

Berglind Steinsdóttir, 4.1.2007 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband