Fimmtudagur, 4. janúar 2007
Lengi tekur sjórinn við
Eða svo sögðu menn. Nú vitum við betur.
Merkileg var úttekt Stöðvar tvö á álverinu í Straumsvík. Ítarleg og fróðleg, en að vísu fannst mér fréttamaður hallast að synjun um stækkun. Finnur Ingólfsson var sýndur í því ljósi, hinn ofurkáti iðnaðarráðherra á sínum tíma vegna þess að loks tókst að selja raforkuna. Það var á þeim tíma sem við héldum að sjórinn tæki endalaust við og lögðum líka mest kapp á að selja einhverjum raforkuna.
Mengunarvarnir eru orðnar betri og þess vegna er mengun ekki söm og jöfn og hún var. Hins vegar mengar þessi iðja eins og ýmis önnur, og meira eftir því sem hún verður umfangsmeiri. Landið mætti nota í annað og nú vantar sannarlega ekki vinnu þegar atvinnuleysið er um 1%. Ótraust heimild mín hermir að 1% Hafnfirðinga starfi í álverinu, 250 af 500 starfsmönnum, 250 af 25.000 Hafnfirðingum.
Það var gaman að sjá Ragnar álskalla í fullu fjöri og hann hljómaði skynsamlega. Hann er samt hlynntur stækkun. Og vissulega er á elleftu stundu boðað íbúalýðræði, a.m.k. á elleftu stundu fyrir álrekendur.
En hvernig er svo með landeigendur við Þjórsá? Í blöðum sverja þeir og sárt við leggja að ekki hafi verið ráðgast við þá eða samið en engu að síður er stækkunin komin í farvatn álverslns. Maður hefði haldið að svona stórviðburðir ættu að fara í eitthvert visst ferli, fyrst spurt og samið, svo gert deiliskipulag eða eitthvað, þá farið í framkvæmdir.
Ég hallast að því að ég segði nei ef ég hefði eitthvað um það að segja. Og skilaði Björgvini Halldórssyni til föðurhúsanna.
Athugasemdir
Mengun frá Straumsvík verður ekki skaðleg fólki sem býr í nágrenni. Á þynningarsvæðinu í kring er ört vaxandi iðnaðarhverfi. þannig að svæðið nýtist mjög vel. Þarna getur risið eitthvert fullkomnasta og umhverfisvænasta álver í heimi.
Benda má á að í Straumsvík, sem er góður vinnustaður, er konum greidd sömu laun og karlmönnum. Laun eru líka betri en gengur og gerist á vinnumarkaði.
Hvernig það má vera að fullt af málsmetandi fólki kýs að snúa staðreyndum meira eða minna á hvof í umræðunni um stækkun í Straumsvík, er umhugsunarefni.
Virkun neðrihlutar Þjórsár er skynsamleg og hefur lítið með stórkostlegar náttúruperlur að gera..
Að hafna stækkun í Straumsvík væri nett bilun, með þeim rökum sem fram hafa komið til þessa.
Kveðja, Tryggvi L Skjaldarson
starfsmaður Alcan á Íslandi
Tryggvi L. Skjaldarson (IP-tala skráð) 4.1.2007 kl. 20:43
Tryggvi, ég er að hlusta.
Ég hef líka heyrt þetta áður með launin, en að þau séu betri en gengur og gerist á vinnumarkaði segir mér lítið sem ekki neitt. Erum við að tala um 400 þúsund fyrir 100% vinnu? 25 þúsund fyrir útkall? Myndarleg lífeyrisréttindi?
Berglind Steinsdóttir, 5.1.2007 kl. 09:50
það ná ekki allir 400 þús. Margir hafa milli 3-400þús. 100% vinna hjá starfsmönnum á þrískiptum vöktum er u.þ.b. 15 átta tíma vaktir á mánuði að jafnaði. þ.e. 5 nætur, 5 kvöld og 5 dagvaktir eða innan við 150 klst. á mánuði.
Gott sumarfrí og einnig vetrarfrí sem getur komið út samfellt í hálfan mánuð, ef viðkomandi kýs. Boðið er upp á flýtt starfslok við 65 ára aldur og 50% af meðalaunum í þrjú ár.
Þeir sem á annað borð hefja störf í Straumsvík eiga það til að ílengjast þar. Ég er einn þeirra.
Kveðja
Tryggvi L.Skjaldarson (IP-tala skráð) 6.1.2007 kl. 14:12
Ég hef engar sérstakar efasemdir um að álverið sé vænn vinnustaður og að Rannveig geri vel við sitt fólk (reyndar hafa samt nokkrir kvartað opinberlega upp á síðkastið) en þarf nokkuð að stækka það? Er ekki 180 þúsund tonna framleiðsla næg? Eða ef stækkað, er nóg að fara t.d. upp í 280 þúsund? Græða Hafnfirðingar í peningum eða væri hægt að selja lóðirnar íbúum sem vildu vera við sjóinn og innheimta útsvar til margra alda?
Bjarni Harðarson var í fréttum í gærkvöldi eftir fund sem hann hélt við Urriðafoss, og landeigendum við neðri hluta Þjórsár stendur ekki á sama um spjöll á landgæðum þar. Þjónar stækkunin mestmegnis útlenskum kaupendum?
Það verður spennandi að fylgjast með málefnalegri umræðu á næstunni, ég segi ekki annað en það.
Berglind Steinsdóttir, 7.1.2007 kl. 12:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.