Predikun í skáldsögu

Þegar maður er ekki opinber gagnrýnandi getur maður maður leyft sér að hafa tilfinningalegri afstöðu til bókmennta. Karitas án titils heggur í minningunni nálægt fullkomnun og ég gerði mig því seka um að munnhöggvast við væna manneskju sem fannst bókin sú leiðinleg.

Kannski voru væntingarnar fullmiklar þegar ég breiddi út faðminn á móti Karlsvagninum. Hún er vel innan við 200 síður og ég þurfti að pína mig til að klára. Stóri gallinn í mínum augum er predikun aðalpersónunnar. Hún er geðlæknir og lendir í þeirri fáránlegu stöðu að dragnast heila helgi með óstýriláta unglingsstúlku sem er bilaðislega (stolið orð úr nærumhverfi mínu) ósannfærandi karakter.

Og geðlæknirinn er í innra og ytra tali að vanda um við hana, umhverfið og samfélagið gjörvallt bókina í gegn. Ef ég gæti skilið söguna sem allegóríu um síðasta ár, fyrsta árið eftir peningahrunið, væri mér hugarhægra en ég get ekki teymt textann út úr sjálfum sér.

Þetta var skelfilega raunalegt, þeim mun raunalegra auðvitað fyrir það að Kristín er flinkur penni og frábær sagnamaður þegar hún er í góðu formi. Ársform hennar 2009 er í mínum augum hins vegar félagsfræðiritgerð með ögn af persónulegu ívafi.

Eins gott að veðrið verði gott á morgun, það sem eftir lifir viku er það eina vonin, hehe.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Karlsvagninn er lá lista hjá mér yfir bækur sem ég ætla að lesa. Er nokkur persóna eða karakter nokkurntímann ósannfærandi? Hver karakter getur ekki að því gert hvernig hann er. Eins og ég sagði þegar verið var að skamma mig fyrir karakter í sögu eftir mig sjálfan(glæpasaga sem kemur vonandi út á næsta ári)en ég var spurður hvers vegna ákveðinn karakter væri svona kjaftfor. Málið er bara að karakterinn er bara eins og hann er og ef maður sleppir sér ekki í að móta karakterinn og sker utan af honum, já kannski þá eftir því hvað öðrum finnst þá verður karakterinn auðvitað ekki hann sjálfur.

spritti (IP-tala skráð) 18.11.2009 kl. 09:11

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Gott og vel, það sem angraði mig í unglingnum var að hún var áhugalaus og forvitin í senn, ókunnug og mjög mikill dóni, talaði mikið vitlaust sem geðlæknirinn lagði endalaust út af í huga sér. Mér leið eins og það væri verið að þvinga heilbrigða manneskju undir læknishendur (lesandann). Fyrir nú utan hvað bókin er endaslepp.

Ef ég væri ekki sjálf með hana í skammtímaláni myndi ég láta þig hafa hana umsvifalaust og bíða meðan þú læsir ...

Berglind Steinsdóttir, 18.11.2009 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband