Fimmtudagur, 17. desember 2009
Ármannarnir
Um daginn spurði mig maður hvort ég væri búin að lesa Ármann. Vonarstræti? hváði ég. Hann hnussaði nei, hann væri að meina bankabókina.
Nú er ég búin að lesa báðar bækurnar og mikið eru hughrifin ólík. Ég þekki ekki bankabakgrunninn eins og Tony Shearer sem brá fyrir í Silfri Egils um síðustu helgi en Ármann Ævintýraeyjunnar virkar á mig eins og kjáni sem fannst m.a. eðlilegt að hann fengi mikinn arð á silfurfati þegar hann hafði lagt nótt við dag til að hámarka gróða af einstakri sölu eða fyrirgreiðslu sem fól ekki í sér neina eiginlega verðmætasköpun (eins og kom á daginn) en þegar hann hafði lagt nótt við nýtan dag til að hafa af fólki sparifé (óvart, náttúrlega ...) vildi hann bara klapp á bakið og samúðarkveðjur. Fleira langar mig ekki að segja um bókina því að ég ætla ekki að eyðileggja fyrir mér vikuna frekar en orðið er. Ég get engan veginn mælt með henni og hvet fólk til að kaupa hana alls ekki. Út á mig fær hann ekkert í kassann.
Vonarstrætisbókina um Skúla og Theodóru Thoroddsen og uppkastið 1908 þarf maður hins vegar að lesa hægt og njóta hverrar síðu. Ármann segir bókina skáldsögu sem byggi á raunverulegum persónum. Það er það eina sem þjakar mig svolítið, ég vildi vita hversu miklar heimildir hann hefur um það sem hann gerir skáldleg skil. Var Skúli slæmur í eyranu? Var hann háður Theodóru? Gat hann ekki borðað með fjölskyldunni? Var Tryggvi Gunnarsson sem grafinn er í Alþingisgarðinum virkilega svona mikil frenja?
Í æviágripinu sé ég hvaða stjórnmálaslóð Skúli fetaði (flokkaflakk er ekki nýtt af nálinni) en ekkert umfram hefðbundnar upplýsingar.
Mig langar að vita meira um milliþinganefndina og uppkastið þannig að Vonarstræti er hungurvaki. Það er ekki galli á bók.
Athugasemdir
Já, einhvern veginn hef ég takmarkaðan áhuga á þessari ármennsku hrunbók. Þó ég hafi mikinn áhuga á að lesa margar þeirra. Þessi hef ég einhvern veginn á tilfinningunni að sé, svona, Séð og heyrt-útgáfan af dæminu.
En þú hefur hér með vakið mér hungur í að lesa Vonarstræti. Hljómar forvitnilega.
Sigga Lára (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 10:02
Ekki gera Séðu og heyrðu þessa skömm ... öö, annars hef ég ekki flett því í mörg ár. Sennilega ertu á kórréttu róli. Og átt gott eftir ef þú ætlar að lesa Vonarstræti. Prófarkalesarinn fann samt meinlega villu ...
Berglind Steinsdóttir, 17.12.2009 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.