Laugardagur, 19. desember 2009
Hvað er fæðuöryggi?
Ég skal ekki vera eini einfeldningurinn sem hélt að fæðuöryggi hefði með hollustuhætti að gera. Þangað til í vikunni hélt ég að það varðaði salmónellu eða gerla - eða bráðadauða.
Nei, fæðuöryggi snýst um það hvort þjóðin hefur nóg að borða, sé sjálfbær með matvælaöflun. Það mætti orða þetta faglegar og af meira öryggi (sit hér titrandi af óvissu öryggisleysi) en heila málið er að það er leitun að landi sem er með meira fæðuöryggi en Ísland! Að vísu vantar dálítið upp á okkar eigið grænmeti en við gætum haft fisk og lambakjöt í annað hvert mál - og það þótt við værum fleiri en 317.000 stykki. Við erum einstaklega fæðuörugg.
Hvorki fæðu- né matvælaöryggi fær svörun í orðabókinni minni, Google snýr bara út úr en þegar ég prófa food security er Wikipedia vel heima. Food security refers to the availability of food and one's access to it. Það gæti ekki verið öllu skýrara - nema þá kannski á íslensku: Matur öryggi er átt við aðgengi að mat og aðgang einn dag í það - þýðing í boði Googles, já, nei, enskan er bara betri hérna.
Og af hverju þessi skyndilega meðvitund Berglindar?
Jú, ég spjallaði um þetta - og margt fleira - við minn góða vin hjá Hagstofunni sem ekki aðeins veit allt (og ætlar að láta reyna á í spurningakeppni hjá RÚV eftir hálfan mánuð) heldur vann líka hjá FAO í Róm um árið. Þegar hann talar ... hlusta ég ...
Athugasemdir
Já þetta er heila málið, alveg það sem ég hef verið að tuða í öllum krötunum í kringum mig sem pirrað hafa sig á stuðningi við landbúnað landsins.
en já tók eftir því að Björgvin verður í spurningakeppni Rúv, hlusta eiginlega alltaf á þetta á leið í vinnu. Var stuð í gær, ég náði ekki almennilega úr mér Jólaþorpshrollinum og nennti því ekki af stað.
Marín Hrafnsdóttir (IP-tala skráð) 20.12.2009 kl. 16:09
Alias! Já, það var rokk og ról í gær og ég er ekki frá því að ég hafi einhvern tímann verið í sigurliðinu. Þér hefði ekki leiðst, það gekk svo mikið út á að tala ... og ég held einhvern veginn að öllum hafi þótt gaman að tala, ekki síst Hrafni sem var óstöðvandi. ,,Nei, samheiti, flyttu fyrri liðinn aftur fyrir" o.s.frv.
Því miður geturðu ekki hlustað á Björgvin á leið í vinnu, þú verður bara að hlusta með morgunkaffinu þann daginn. Jú, nema hann vinni og þurfi að mæta aftur og aftur ...
Berglind Steinsdóttir, 20.12.2009 kl. 20:20
Það er einmitt fæðuöryggið sem veldur mér alltaf kjánahrolli þegar á að fara að kalla okkur Zimbabwe norðursins.
Það er bara alltaf dáldið annað að búa í landi þar sem menn hafa aðstöðu til að framleiða sér kjet og smjerfjöll og flytja út fisk eins og enginn sé morgundagurinn og gætu með honum mettað mannfjöldann oft á dag.
Nú er bara að ná bújörðum aftur af auðmannapakkinu og fara svo að búa! Drífa sig svo í að flytja út landbúnaðarvörur, á meðan gengið er svona.
Sigga Lára (IP-tala skráð) 21.12.2009 kl. 10:18
Einhver var að tala um að kílóverðið á ýsu væri 1.500 - tók hann ekki skakkt eftir? Er það 150 krónur? Er ég kannski farin að ögra fæðuörygginu hérna?
Berglind Steinsdóttir, 21.12.2009 kl. 19:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.