Fullorðins

Ég er í hópi þeirra kröfulitlu sem finnst áramótaskaupið yfirleitt heppnast vel. Það er erfitt að gera 300.000 manns til hæfis í einu og mér finnst eðlilegt að sólóa í liðinu sem finnst það fínt.

Reyndar er ég ekki í alvörunni svona hógvær, yfirleitt skil ég tilvísanirnar, yfirleitt þekki ég leikarana og þannig finnst mér ég bara hafa forsendur til að kunna gott að meta.

Og þetta er ekkert Ragnars Reykáss heilkenni. Þetta stenst rökrétta skoðun. Þetta er húmor ...

Meðal leikara í gær voru Stefán Jónsson (SJS), Hanna María Karlsdóttir (Jóhanna), Gunnar Hansson, Laddi (ÓRG), Sigrún Edda Björnsdóttir, María Pálsdóttir (Margrét Tryggva), Árni Pétur Guðjónsson (Þráinn), Pálmi Gestsson (Björgólfur), Örn Arnarson (,,tær snilld"), Erlingur Jóhannesson (JÁJ), Víkingur Kristjánsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og svo var Anna Svava Knútsdóttir þarna og hinn nýlega útskrifaði Hannes Óli Ágústsson sem Sigmundur Davíð ef mér skjöplast ekki. Sævar Sigurgeirsson, stórvinur úr Hugleik, lék Sigmund Erni þáttarstjórnanda í byrjun skaups og Ármanni Guðmundssyni úr sama leikfélagi brá fyrir sem fornmanni. Ég saknaði auðvitað Björns Thors (sem verður sjálfsagt ofnotaður á næstu árum) og veit ekki hver lék Björgólf yngra.

Helsti gallinn á sameiningasrafli þessa áramótaskaups er að það getur ekki hafa höfðað til barna, ekki fyrr en Páll Óskar tók Michael Jackson á línuna í lokin.

Eftir að hafa séð eitt atriði úr skaupinu í Kastljósi í fyrrakvöld var ég sannfærð um að mér þætti það leiðinlegt og ósmekklegt. Mér sýnist nefnilega sem raunverulegar myndir af niðurbroti húss hafi verið notaðar í bland við baráttu Víkings við að stjórna gröfunni sem var trúlega vísun í Hamarinn reyndar líka. En val Kastljóss endurspeglaði ekki skoðun mína á skaupinu. Með hroka beturvitrungsins gef ég skaupinu ágætiseinkunn (eitt atriði var þó notað of oft). Ég mundi heldur ekki (nema ég hafi raunverulega ekki vitað það) að á meðal höfunda var Halldór E. sem er fyndnasti útvarpsmaður sem ég heyri í.

Helsti vandi minn var að ég þurfti svo mikið að útskýra fyrir öðrum í gær (varist harkalega dóma!) og hef fyrir vikið þegar afráðið að horfa öðru sinni á Spaugstofutíma á morgun.

Samt - samt held ég að tími áramótaskaupsins sé liðinn, það á ekki að binda menn yfir sjónvarpinu síðasta kvöld ársins.

Og nú má ávarpið fara að koma frá Bessastöðum! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skil ekki hvers vegna fulla kellingin rak Halldór E. Ekki beint eins og það sé mikið af gæðaliði á þessari stöð, hann hlýtur að hafa minnst á ölvun eins og GUðmundur Ólafs gerði.

Harpa (IP-tala skráð) 4.1.2010 kl. 01:33

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Enginn með fullu viti rekur Halldór E., högurð, frá hljóðnema. Enda held ég að hann hafi hætt sjálfur.

Berglind Steinsdóttir, 4.1.2010 kl. 19:36

3 identicon

Nei, auðvitað höldum við í skaupið, ekki spurning.

Og börnin höfðu gaman af, amk börnin á mínu heimili sem auðvitað eru hugfangin af endapunktinum.

Skaupið var beitt og óvægið, það fannst mér skemmtilegt.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 5.1.2010 kl. 13:17

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Áramótaskaupið mætti samt að skaðlausu vera á nýársdag. Og auðvitað á að æviráða Sævar.

Berglind Steinsdóttir, 5.1.2010 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband