Evra pevra

Mér þykir svo vænt um sjávarútveginn að mig langar mest að taka miðin öll í fangið og passa þau þannig. Ég stend í þeirri meiningu að sjávarútvegurinn sé undirstaða hagsældar okkar og er alveg á tauginni yfir mögulegri inngöngu í Evrópusambandið. En það hjálpar kannski ekkert að breiða út faðminn.

Kannski er ég líka á villigötum. Kannski er fjármálaútrásin lykillinn að öllum hagvexti og kaupmætti. Ég þarf að hugsa meira um þetta.

Hins vegar er ég ekki alveg viss um að lestur um hagfræði hjálpi mér mikið - nema ég sé bara komin fram úr fyrstu lexíu og þurfi að fara í flóknari bækur. Ég er nefnilega búin með nokkra kafla í „Hagfræði í hnotskurn“ eftir Henry Hazlitt og hann segir bara sjálfsagða hluti. Hann uppástendur að vondir hagfræðingar segi að brotin rúða hjá bakaranum sé góð vegna þess að hún búi til störf. Svo útskýrir hann að góðir hagfræðingar sjái lengra og átti sig á að ef rúðan hefði ekki brotnað hjá bakaranum hefði hann getað eytt peningunum í jakkaföt og þannig hefði frekar orðið til starf í fataiðnaði.

Hvaða meðalhálfvita þarf að segja að brotin rúða sé ekki ávísun á velsæld? Nema þá glerskurðarmannsins?

Þetta minnti mig samt á setningu úr Draumalandi Andra Snæs um það að hagvöxtur minnki við það að einhver skrái sig í skóla, þ.e. hætti í einhverju starfi til að fara í nám. Og þar sem þetta komst nýlega til tals var bætt við að hagvöxtur jykist líka við árekstur sem kæmi fólki á spítala.

??

Ég þarf hvorki að vera hagsýn né húsmóðir til að sjá hvað þetta eru fáránlegir útreikningar á hagvexti. Raunverulegur hagvöxtur hlýtur að felast í uppgötvun nýrra auðlinda, bætts verklags og hagkvæmni í rekstri. Til dæmis er óumbeðinn ruslpóstur ekki hagvöxtur þótt ljósmyndarar fái ónauðsynlegt starf við að taka myndir af leirkrúsum og veggklukkum.

Og hver borgar?

Svo er það evran - á maður að biðja um launin sín í evrum og fara að gera sig upp eins og Straumur - burðarás? Ég er í svo mikilli dílemmu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Davíð

Ef þú færð húsnæðislán í evrum þá getur þú minnkað gengisáhættuna með því að fá launin þín greidd í evrum líka. Kosturinn við að vera með lán í evru er augljós, lágir vextir og þú sleppur við verðtrygginguna. Leiðinlegt að erlendir sjóðir séu að leika sér með íslensku krónuna með útgáfu jöklabréfa og það er bara vegna þess að vaxtastig í landinu er svo hátt, þannig hagnast þeir bæði á háu vaxtastigi og hærra gengi við innlausn bréfanna. Íslenska hagkerfið er í raun of lítið til að ráða við erlenda fjárfesta.

Þetta eru nokkur atriði sem þarf að hafa í huga

Davíð, 10.1.2007 kl. 15:06

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Sem sjálfstætt starfandi þýðandi hef ég átt þess kost að fá borgað í evrum, en bara í skelfing litlum mæli. 

Berglind Steinsdóttir, 11.1.2007 kl. 00:19

3 identicon

Mikið er ég fegin með mínar litlu áhyggjur þegar ég les hvað er að angra þig Berglind mín,

Egill (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband