Miðvikudagur, 3. apríl 2013
Ó, persónukjör
Ég hlustaði á forsvarsmenn framboða í sjónvarpinu í gær, fannst enginn standa sig illa þótt ég hafi vissulega lagt eyrun meira eftir sumum en öðrum. Ég er svo spéhrædd að ég segi ekki opinberlega hvað hugnast mér best en mikið fann ég hvað ég vildi geta kosið þvert á flokka.
Ég vildi hafa einhverja tegund af persónukjöri.
Hvað skiptir mestu máli? Efnahagslíf, atvinnulíf, velferðarkerfið, lýðræði og fleira, í mismunandi röð eftir einstaklingum og tímabilum. En þegar maður horfir til baka sér maður að sumir hafa betur risið undir trausti manns en aðrir. Þannig held ég að margir muni óhjákvæmilega kjósa eftir þeim einstaklingum sem skipa efstu sæti einstakra lista. Ég heyri menn kveina undan því að þingmenn séu 63, séu of margir. Ég held að það sé ekki endilega tilfellið, ef menn sinna vinnunni vel eru þeir á þönum alla daga, þetta er ekki einfalt starf. Efnahagsmál og umhverfismál eru flókin, samspilið vandasamt, framtíðin óráðin og andstæðingarnir þverir. Fyrir hvern sem er.
Það er mörg skýrslan og margt álitaefnið. Forgangsröðunin er pottþétt röng - en hver ber ábyrgð á því? Stjórn eða stjórnarandstaða á hverjum tíma?
Ég vildi að ég mætti velja 63 einstaklinga sem slíka.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 30. mars 2013
,,En ég á séra Árelíusi mikið að þakka ...
... hann sendi mig í mína fyrstu mótmælagöngu.
Ég er að lesa svo sprúðlandi skemmtilega sjálfsævisögu að ég skelli upp úr á næstum hverri blaðsíðu. Kannast einhver við lýsinguna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. mars 2013
Þjáningar dagsins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 25. mars 2013
Gæftir öskunnar
Nú eru rétt að verða komin þrjú ár síðan gosið varð í Eyjafjallajökli, gos sem dreifði ösku vítt og um vítt. Hún var okkur vond og við kvörtuðum að vonum. Samt, og nú hljóma ég ægilega vís, hlaut maður að hugsa að í þessu landi sem við byggjum hefðu eldgos verið tíð og orðið aftur og aftur öldum saman. Eitthvað spurðist það út að í öskunni væri næring.
Framtíðarávinningur er samt ekki nóg þegar bömmer dagsins er svo nálægur. En nú er sem betur orðið ljósara að askan gerir okkur gott:
Þessi járnríka aska var hinsvegar gæðaáburður fyrir undirstöður fæðukeðjunnar í Norður Atlantshafi þar sem hún féll til hafs suður af Íslandi.
Ég fagna ógurlega.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 23. mars 2013
Fyrirheitið land hvers?
Mér finnst ég svolítið heimtufrek. Fyrirheitna landið fannst mér steríótýpískt fyrir allan peninginn, þótt mér leiddist ekki neitt alla þrjá tímana, en samt fannst mér ekki heppnast þegar þau reyndu að brjótast út úr mögulega fyrirframgefnu normi.
Róni og dópsali (þversögn?) um fertugt býr í útjaðri borgar (London) og fulltrúar stjórnvalda vilja losna við hann til að byggja verslunarmiðstöð. Æ. Hann er hryssingur upp úr og niður úr en fólk laðast að honum. Æ. Svolítið auðvitað af því að hann á það sem fólk vill, vímu. Skapið í honum er eins og búmerang, hann hreytir í fólk, reynir að hrekja það í burtu og það kemur skríðandi, rúllandi, veltandi, vælandi og skælandi.
Ég fann til með Hilmi sem var látinn vera rámari en upparhrokkinn páfi en hann gerði ekkert af sér. Hann kom mér bara ekki á óvart. Partíliðið gladdi mig heldur ekkert sérstaklega, en Baldur Trausti kráareigandi gerði það. Hann lífgaði alltaf upp á sviðið og það gerði Eggert líka.
Barnsmóðir og barn. Æ. Lokaákvörðun. Æ.
En ég þekki fólk sem ég tek mark á sem var ánægt með sýninguna þannig að ég hvet áhugasama til að fara í Þjóðleikhúsið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. mars 2013
Nýjung í samgöngum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. mars 2013
Réttur barna til samvista við bæði foreldrin
Tölfræði forræðislausra foreldra og hlunnfarinna barna þvælist dálítið fyrir mér en flestir hljóta að fallast á að mörg börn eiga fráskilin foreldri (reyni hér meðvitað að halda kynhlutleysi orðsins). Sem betur fer eru móðir og faðir oft bæði ábyrg og hugsa um hag barnsins. Þannig býr barn iðulega á heimili beggja viku og viku í senn. En nú les ég í leiðara Ólafs Stephensen að löggjöfin hafi ekki náð að halda í við það.
Samkvæmt barnalögum frá 2003 er líka tilfellið að barn getur aðeins átt lögheimili hjá öðru foreldri:
Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barns skulu þeir taka sameiginlega allar meiri háttar ákvarðanir sem varða barn. Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.
Þetta er ósanngjarnt gagnvart því foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá. Ætlaði ekki einhver að breyta þessu?
Snýst þetta kannski um að þjóðskrá á ekki fleiri reiti? Leyfir ekki tæknin tvö heimilisföng eins og virðist eiga við um löng eiginnöfn fólks?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 19. mars 2013
Fréttaöldin
Ég hef varla séð eða heyrt fréttir í nokkra daga og hef stórkostlegar áhyggjur af að allt fari til fjandans meðan ég fylgist ekki með. En líklega fer það allt bara þangað sem því er ætlað, með eða án minnar vitneskju. Og algjörlega án minnar aðkomu.
En ég þykist muna þá tíð þegar þorskur var alltaf í fyrstu frétt flestallra fréttatíma. Ég er ekki frá því að þorskurinn hafi breytt um ásýnd en sé enn nefndur í fyrstu frétt allra fréttatíma þessa dagana ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 15. mars 2013
Nýr formaður VR
Ég er ekki í VR, hafði ekki kosningarrétt og þekki ekki til innanhússmála þarna. Ég get ekki sagt að ég sé hissa á að nýr formaður hafi náð kjöri þótt munurinn komi kannski pínulítið flatt upp á mig (en hvað þykist ég vita?) en í kosningabaráttunni sem ég varð óneitanlega vör við á Facebook var að minnsta kosti engin áhersla á kynferði.
Hvað sem um Ólafíu má segja hlaut hún örugglega ekki kosninguna út á kynferði sitt. Hefur þá ekki barátta síðustu þriggja áratuga skilað einhverjum árangri? Jú, ég held það, miðað við umræðuna var hún kosin út á verðleika sína og það sem hún hafði fram að færa í kosningabaráttunni.
Er ekki svo? Er það ekki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. mars 2013
13. mars 1983
Æ, mér finnst svo skammarlegt að hafa ekki munað eftir afmælisdegi Kvennalistans að ég ákvað að skrifa dagsetninguna á einhvern vísan stað svo ég muni það kannski 2023.
Hann skipti máli. Það skiptir máli að sérstakt kvennaframboð hafi orðið til.
Sem betur fer eru konur núna viðurkenndar fyrir það sem þær eru og geta ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. mars 2013
Ísland er ekki eitt á báti
Journalisters fremmeste opgave er at være kritiske over for magthavere.
Og svo biðst blaðamaðurinn afsökunar alveg hægri/vinstri á því að hafa hlaupið á sig í gegnum tíðina. Eina leiðin til að gera aldrei mistök er líka sú að gera aldrei neitt. Stundum er gott að glugga í útlendu blöðin til að sjá að menn gagnrýna og verða fyrir gagnrýni, maklegri stundum og ómálefnalegri stundum.
Hvernig er staðan á Fréttablaðinu núna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. mars 2013
Virðing fyrir fréttamiðlum
Mig rak andvaralausa, grunlausa, sinnulausa og hálfsofandi í peningastrauminn sem svelgdi okkur í sig 29. september 2008. Lærdómurinn sem ég hef síðan dregið er ekki sístur sá að fjölmiðlar mata okkur. Auðvitað veit maður og skilur að fréttaveitur þurfa að velja úr - ekki passa allar fréttir heims í alvöru í 22 mínútur hvers kvölds - en ég áttaði mig ekki á því að menn fegruðu sig og bandamenn sína. Nú er ég auðvitað orðin skeptísk en það er ekki nóg þegar maður les um stórkóna veraldar og hefur ekki möguleika á að vita um hið sanna eignarhald eða raunverulegar ákvarðanir. Ég verð þá bara endalaust efins ...
Ég er að hugsa um að hætta ekki að lesa Fréttablaðið þrátt fyrir að síðasti gjörningur komi mér fyrir sjónir sem aðför að sjálfstæði ritstjórnar, ég ætla bara að verða gagnrýnni lesandi. Almennt séð veitir okkur af aðeins meiri gjörhygli. Ég get heldur ekki hætt að hlusta á suma þætti á Bylgjunni ... en ég get reynt að yggla mig annað slagið.
Og ég er krónískt efins um heilindi fráfarandi forstöðumanns þróunarsviðs 365.
En Facebook segir mér alltaf satt ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 5. mars 2013
Virðing - respect (ríspekt)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 4. mars 2013
Frumlag fréttar
Nei, þetta er ekki málfræðifærsla. Ég varð bara svo hugsi þegar ég las frétt um nýjan þróunarstjóra 365 miðla þar sem áherslan var öll á þann sem er að hætta í því starfi, Jón Jóhannesson. Í 10-fréttum sjónvarps tók svo steininn úr þegar öll myndbirtingin gekk út á þann fráfarandi og sá nýi var ekki sýndur og varla sagður.
En umsvifin hafa aukist hjá 365. Það er væntanlega jákvætt. Eða er bara verið að fara í kringum raunveruleikann og á sá nýi, gamall háskólabróðir minn, ekki að gera það sem fréttin gengur út á, þróa - hvað? Dagskrána? Áskriftir? Starfsfólkið? Tæknibúnaðinn?
Gekk ekki fréttin öll út á að réttlæta eitthvað með því að láta eins og óvinsæll útrásarvíkingur hafi minni áhrif á daglegt starf? Fær Magnús Halldórsson að fjalla eitthvað um þetta í vinnunni?
Er þetta ekki eitthvert (yfir)klór? Og voru RÚV ekki mislagðar hendur í fréttaflutningnum?
Mér finnst ég hafa fullt leyfi til að vera eins tortryggin og spurningarmerki á forsíðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. mars 2013
Kjötið
Frá 6. október 2008 hef ég orðið mér miklu meðvitaðri um unnar og minna unnar kjötvörur, hollari og óhollari mat, hátt og lágt verð, sannvirði og allt það. Ég kaupi ekki tilbúnar samlokur í búð, ég kaupi ekki túnfisksalat í dollu (það sjá allir að meginuppistaðan er mæjónes) og ég hef aldrei séð vörumerkið Gæðakokkar. Hvaða vara er seld undir þessu merki? Er framleiðandinn kannski meira eins og heildsali og neytandinn í búðinni veit ekki hver framleiðir vöruna sem hann kaupir?
Það getur meira en verið að Melabúðin sé ekki hafin yfir vafa (ég sé alltaf annað slagið kvartanir yfir þjónustu þar og hef sjálf fengið ótrúlega lummuleg svör yfir útrunnu súkkulaði og ranglega verðmerktri vöru) eða Frú Lauga en ég held að í þeim verslunum sé til dæmis pottþétt minna unnin vara en í hinum meintu lágvöruverðsverslunum. Stafar lága verðið á hakki og kjúklingum ekki einmitt af því að það er vatnsblandað kjöt?
Ég kalla eftir meiri meðvitund og minni meðvirkni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. febrúar 2013
DV á hálum málfræðiís
Það er sjálfsagt tilviljun en mér finnst villum hafa fjölgað í blöðunum. Mönnum *lýst á eitthvað og *þeim langar í eitthvað annað. Allar málbreytingar byrja sem málvillur þannig að kannski er óþarfi að verða eitthvað hörundsár. Margar slettur hafa líka náð fótfestu, svo sem að fíla, og nú er sögnin að læka að ryðja sér til rúms.
En ég skellti eiginlega upp úr þegar ég las þetta á dv.is:
Á fæstum fjölmiðlum er ekki talið við hæfi að fólk sé að fjalla um hvert um annað og búa til frægðarmenni innanhúss.
Enn held ég að menn séu á einu máli um að tvær neitanir núllist út og verði hið gagnstæða. Þess vegna má skilja ádeiluna svo að á flestum fjölmiðlum sé talið við hæfi að menn fjalli hver um annan.
Ég er ekki viss um að fjölmiðlarnir töpuðu á því að hafa prófarkalesara í sínum röðum. Nema þeir geri stanslaust út á skemmtigildi handvammarinnar. Kannski er góður bisniss í því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 24. febrúar 2013
Kristin gildi eru heiðin
Nei, ekki ætla ég að þykjast vera vel að mér í kristnum fræðum eða trúarbrögðum yfirleitt en þykist þó vita að jólin séu upphaflega heiðinn siður sem kristnir hafi gert að sínum. Og núna snýst sá siður mest um frí eða ekki frí, minnst um kristin gildi, siðfræði, góða hegðun eða þennan guð.
Hins vegar er sjálfsagt að hafa mannkærleika, siðfræði, gott siðferði og almannahagsmuni í huga við lagasetningu og bara í allri daglegri umgengni. Og það allt tengi ég ekkert sérstaklega við kirkuna.
Mér datt þetta sisona í hug ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. febrúar 2013
Ein hraðasta gata í heimi
Ég veit, ég veit að ég á að tala við seljanda þjónustunnar en mér finnst samt skrýtið að þegar ég er búin að panta háhraðaþjónustu fyrir tölvuna hægi hún á sér. Ég er að manna mig upp í að hringja í ... þjónustuveitandann svokallaða. Ég fæ orðið daglega upp skilaboðin:
A problem with this webpage caused Internet Explorer to close and reopen the tab.
Og þetta er ekki einu sinni WikiLeaks!
Og núna kom:
Internet Explorer has stopped working
A problem caused the program to stop working correctly. Windows will close the program and notify you if a solution is available.
Þá vel ég Close Program og stundum lokast einhverjir gluggar og stundum ekki. Ætli Tal eigi svar við spurningunni: Af hverju gerist þetta? Og: Er hægt að komast fyrir þetta?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. febrúar 2013
Þjónustusamningur milli Strætós og borgarinnar
Það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn að rifja upp strætósögu gærdagsins. Væntanlega eru flestir sammála um að bílstjórinn hafi farið offari þegar hann vísaði smábörnum úr vagninum, smábörnum sem höfðu augljóslega farið í hina áttina á útrunnu strætókorti sem byggir á samningi milli leikskóla/ grunnskóla og borgarinnar. Hafi ég ekki tekið svakalega skakkt eftir var einmitt ferðalagið utan háannar sem er fyrst á morgnana og svo síðdegis þannig að það eru engin þrengslarök gegn því að nýta ferðina.
En jafnvel þótt kortið hafi verið útrunnið er samningurinn þekktur. Vissi bílstjórinn ekki af alhliða og almennu samkomulagi?
Þetta komst til tals í nærumhverfi mínu í dag og ég heyrði nokkrar svæsnar sögur af bílstjórum sem loka á unglinga og bera við að þeir megi ekki vera að neinu drolli. Ég rifjaði líka upp þegar ég fór daglega með strætó og bílstjórinn beið stöku sinnum eftir mér þegar hann vissi að ég kæmi en var alveg á síðustu stundum (og hann kannski aðeins með fyrra fallinu) þannig að menn eru misjafnir í þessari stétt eins og öðrum.
En svo er það framkvæmdastjórinn ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 18. febrúar 2013
Málfræði: ekki vera nísk á essin
Um daginn tók ég vel eftir að nokkrir Íslendingar segja skýrt og greinilega að eitthvað sé ATHYGLIVERT, ekki endilega allrar athygli vert, bara: Mér þykir það athyglivert. Það er auðvitað rökrétt, athygli er kvenkynsorð og tekur ekki s í eignarfalli.
Vandinn er bara að tungumálið er ekki alls staðar og alltaf rökrétt. Við tölum ekki um skipsstjóra, heimsspeki, dagsskrár eða eldhússbréf. Við tölum um fiskafla en botnfisksafla. Og bolfisksafla sem er sko ekki það sama, hehe.
Og það er algengara og hefðbundara að tala um að eitthvað sé athyglisvert. Þess vegna finnst mér tilgerðarlegt að heyra fólk segja athyglivert og kveða skýrt að. Það sama fólk segir nefnilega ekki hæðnilega, stríðnilega, samkeppniforskot, landhelgigæsla eða móðursýkihlátur.
Það eru örugglega fleiri skemmtileg orðadæmi sem ég man ekki eftir núna - en ég hvet alla til að vanda orðfæri sitt, tala rétt og fagurt mál og sletta ekki nema þeir viti hvernig þeir geta sagt það sama á íslensku.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)