Fimmtudagur, 22. nóvember 2012
Sími með ... flatskjá
Það sætir tíðindum að ég keypti mér síma með ýmsum öppum í dag, mun minni síma en afgreiðslustúlkan vildi selja mér, mun ódýrari líka. Hann heitir Samsung Y og Y er víst skammstöfun fyrir Young og ég fór langt niður fyrir mig í aldri við að kaupa hann (fannst afgreiðslustúlkunni).
Nema hvað, nú þarf ég að læra á vekjaraklukkuna áður en ég fer að sofa. Mörg er búmannsraunin ... nema þú nennir að hringja í mig kl. 6.50 á morgun ... hm?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 20. nóvember 2012
Börn fædd seint á árinu
Í fyrra var grunnskólaárgangsmót og þá gerðum við okkur að leik að spá í fæðingardag þeirra sem mættu. Flestir voru fæddir í mars og svo í október eða nóvember. Við komumst líka að því að fleiri en færri hétu nöfnum með upphafsstaf aftarlega í stafrófinu. S var mikið tekið, og ef ekki í skírnarnafni þá alltént í föðurnafni.
Svona samkvæmisleikur sýndist mér vera á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Það er gaman að þessum rannsóknum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 16. nóvember 2012
Fíkniefnavandinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. nóvember 2012
Föstudagsfrídagar
Kannski er ég óvenjulegur launþegi. Ég þekki það að vera í fastri vinnu með reglulegum kaffitímum, mismunandi álagi og mánaðarlegum greiðslum. Ég þekki það að vera í óreglulegri vinnu með skóla og ég þekki það að taka tarnir, t.d. yfir sumarið.
Ég hef aldrei verið atvinnurekandi en hef hins vegar unnið náið með eiganda í litlu fyrirtæki.
Kannski er ég með fátæklega stéttarvitund en mér finnst fráleitt, segi og skrifa, að færa til árvissa frídaga sem eru bundnir dagatalinu til að fjölga þeim dögum sem launþegi er í burtu á launum. Hvernig er hægt að halda upp á 1. maí þann 7. maí af því að það er mánudagur eða föstudagur? Stundum eru jól lengri og stundum styttri. Stundum er meira gaman og stundum minna gaman. Mér finnst það eðlilegt.
Alveg eins og mér finnst eðlilegt að launþegi sé heima þegar hann er veikur eða barnið er veikt. Og sinni vinnunni í vinnunni á vinnutíma.
Ef lífið væri allt úr rjóma yrðum við leið á honum. Vinnuveitandi á líka rétt og fulltrúar atvinnurekenda og launþega eiga að geta náð saman um kjarasamninga sem eru ásættanlegir fyrir báða aðila. Inni í því eru frídagar.
Sem launþegi reyni ég að setja mig í spor yfirmanns míns. En kannski er ekkert að marka mig því að ég hef einfaldlega ekki undan neinu að kvarta.
Nema SAF ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. nóvember 2012
Karamazov-bróðirinn
Ég tók nýlega til mín áskorun um að lesa góðu bækurnar fyrst, áður en sá tími rynni upp að maður hefði ekki tíma til að lesa bestu bækurnar. Já, og ég lagði frá mér reyfarann og dró fram Karamazov-bræður Dostóévskíjs sem ég hafði hummað fram af mér. Og það er mjög skrýtið að ég hafði ekki byrjað fyrr á henni þar sem Glæpur og refsing er alveg stórkostleg bók. Ég las þá bók fyrir næstum mannsaldri (eða þannig) og í minningunni engist Raskolnikoff um, sekur en sloppinn, með samviskubit en án þess að finnast hann þurfa þess, sveittur, kaldur, fátækur, umkomulaus, maðurinn sem gerði allri borginni greiða en getur ekki gert tilkall til hróssins af því að verknaðurinn var glæpur gagnvart lögum. Gagnvart lögum, sko, en kannski ekki siðferðinu eða hinu góða í manninum.
Ég tárast næstum við þessa góðu minningu.
Karamazov-bræðurnir eru síðastir í höfundarverki Dostóévskíjs og ógurlegt meistaraverk - skildist mér. En eitthvað er móttakarinn þá orðinn slappur hjá mér því að eftir sársaukafullar 40 blaðsíður af öðrum bróðurnum og börnunum hans sem hann gleymdi hjá þjónunum sem ólu önn fyrir þeim meðan hann slarkaði gat ég ekki meir. Frásögnin er öll í þátíð, í skelfilegum fjarska, og það eina sem er nálægt er hinn uppáþrengjandi sögumaður.
Dæs.
Ég ætla samt að leggja til atlögu við Fávitann áður en ég verð orðin of gömul og fúin til að lesa bestu bækurnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. nóvember 2012
Sighvatur er að djóka um sjálfhverfurófið
Það hefði verið rosalega auðvelt að missa af sjálfhverfu-greininni hans Sighvats í Fréttablaðinu á laugardaginn. Alveg er ég viss um að margar sjálfsupphafnar greinar eru birtar í blöðunum án þess að maður gefi þeim gaum.
Sighvatur stendur á sjötugu, er sem sagt enn á besta aldri, og er áreiðanlega ágætlega gefinn. Ég veit ekkert hvort hann er almennur húmoristi en mér sýnist hann grínast mjög myndarlega í þessari grein.
Dæmi:
Þetta er kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana ...
Lesendur hafa reiknað það út að hann sé að tala um Reykvíkingana sem fæddust á árabilinu 1967-1982. Hverjir eru útrásarvíkingarnir? Ég held að ég þurfi ekki að nafngreina þá en þeir eru einmitt flestir fæddir á sjöunda áratugnum. Kynslóðin sem ól af sér útrásarvíkingana er þá fólkið sem fæddist 20-40 árum fyrr, 20-40 árum fyrir 1970 svo ég námundi. Er það ekki?
Sighvatur er að tala um sjálfan sig.
Það er hann sjálfur, fæddur 1942, sem er á sjálfhverfurófinu. Ég þekki mann fæddan 1950 sem tók námslán fyrir allri háskólagöngunni og er fyrsti maður til að viðurkenna að hann borgaði ekki nema brotabrot til baka, verðbólgan át verðgildi lánsins.
Svo þekki ég mann af kynslóðinni á undan sem borgaði strangt til tekið aldrei til baka byggingarkostnaðinn af sömu ástæðu. Ég veit ekki hvað 1942-módelið fékk fyrir lítið. Sighvatur gæti tíundað það.
Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.
Ég veit ekki alveg hvaða húmor er hér á ferðinni. Ef ég leyfi höfundi að rása svolítið í kynslóðunum og ímynda mér að hann ímyndi sér að fólk á aldrinum 30-45 ára láti sér í léttu rúmi liggja það sem er alveg nýnýnýkomið í ljós, sem sagt að herramaður af hans kynslóð svaf á verðinum, get ég alls ekki skilið af hverju hann hrapar að þeirri niðurstöðu. Er fólk búið að tjá sig svo mikið um það? Ekki þekki ég eina einustu sálu sem hlakkar yfir óförum íbúa á Eir eða hefur ekki samúð með því hlutskipti að missa inneignina og hugsanlega búseturéttinn. Hvaða galskapur er þetta í höfundi?
Þessi sjálfhverfa kynslóð sér ekki heldur neitt umræðuvert í því, þó íbúar allra Raufarhafna þessa lands gangi slyppir og snauðir frá húseignum sínum sem í mörgum tilvikum kostuðu þá miklu meira fé að byggja vegna hás flutningskostnaðar aðfanga en sjálfhverfu kynslóðina á höfuðborgarsvæðinu.
Drepið mig ekki alveg. Sjálfhverfa kynslóðin á formæður, forfeður og rætur að rekja út á land.
Er ekki Sighvatur bara að tala um örfáa menn sem átu gullslegið risotto, flugu stuttar og lengri vegalengdir einir í þotunum sínum, slógu menn um milljarða sem þeir (sem lánuðu) áttu ekki, fengu lánað fyrir iSímum og fannst ekki taka því að endurgreiða, keyptu flugfélög og seldu banka í svefni, slógu sig til riddara og veittu sér fálkaorður?
Sighvatur slær úr og í kynslóðum en sannleikurinn er sá að kynslóðin sem hann er uppteknastur af er ekki bundin við ákveðið árabil.
En umræðan gæti orðið skemmtileg í skammdeginu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. nóvember 2012
Eftir þrjú prófkjör
Margt þótti mér skrýtið í útleggingunum eftir helgina. Kristján Möller var einhvers staðar kallaður sigurvegari prófkjöranna af því að hann fékk yfir 70% í 1. sæti í sínum flokki í sínu kjördæmi. Hann var sá eini í þessum þremur prófkjörum helgarinnar sem bauð sig einn fram í efsta sætið. Hinir tveir sigurvegararnir voru með keppinauta þannig að það strax gerir samanburðinn ótækan.
Svo keppast fjölmiðlar við að lofa frambjóðendum sæti en gleyma, steingleyma sýnist mér, að mjög mörg framboð eiga eftir að stilla upp og hefja sína baráttu. Hvort sem þau fá góða kosningu eða ekki geta þau alltént haft áhrif á sætaröðun.
Kannski er það að æra óstöðugan að taka ævinlega fram að allt gisk sé háð óvissu en mér finnst of margir gera of mikið af því að gefa sér niðurstöður.
Að því sögðu vorkenni ég vitaskuld fjölmiðlum fyrir að vera undirmannaðir. Mig minnir að RÚV hafi til dæmis sagt um helgina að tiltekinn flokkur, man ekki hvort það var xD eða xS, fengi samkvæmt nýrri reiknireglu einum manni meira. Hið rétta er að kjördæmið fær einn mann til viðbótar vegna mannfjöldabreytinga, það fækkar um einn í Norðvesturkjördæmi en fjölgar um þennan eina í Suðvesturkjördæmi.
Já, ég er að velta fyrir mér framtíðinni. Svona er ég sjálfhverf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. nóvember 2012
Niðurskurðartillögur ungra
Samband ungra sjálfstæðismanna veit sem er að enginn tekur mark á hinum ofsafengnu niðurskurðartillögum í mennta- og vísindamálum og í trausti þess leyfir það sér núna það sem það hefur hingað til látið undir höfuð leggjast (í öll skiptin, held ég), að leggja það til að framlög til stjórnmálaflokkanna verði alfarið skorin niður. Það veit áreiðanlega að ég gái að þessu á hverju ári.
Ef ég væri blaðamaður myndi ég spyrja Davíð Þorláksson einnar ítarspurningar: Reiknar Samband ungra sjálfstæðismanna ekki með að þessi kostnaður sem sambandið vill skera niður komi fram annars staðar hjá ríkinu?
Það er forvitnilegt að skoða þessa klásúlu:
Til lengri tíma er rétt að huga að breyttu rekstrarformi Vegagerðarinnar og eins fjármögnun vega og viðhalds þeirra. Þannig mætti í auknum mæli huga að vegtollum og annarri gjaldtöku. Samhliða því þyrftu bensínskattar og aðrir jaðarskattar þó að lækka allverulega.
Setjum sem svo að tæplega hálfur milljarður yrði sparaður hjá Vegagerðinni með breyttu rekstrarformi, heldur þá SUS að enginn innan raða þess sjálfs myndi kvarta undan vegtollum? Og kostnaðinum við að innheimta þá?
Eða eru tillögurnar árlega bara hugsaðar sem hóflegt skemmtiatriði? Algjörlega án innistæðu?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. nóvember 2012
Að axla ábyrgð með afsögn?
Það er pínulítið undarlegt að kalla eftir því þegar fólk stendur sig illa að það stígi til hliðar og láti aðra hreinsa burtu óhreinindin.
Eftir nýjasta svona kall er ég með tvær spurningar: Var stjórnarformaður Eirar kosinn almennri kosningu? Annars getur hann ekki sagt af sér. Ef hann var ráðinn segir hann upp eða víkur en segir ekki af sér.
Ég geri ráð fyrir að margir séu á því að hann hafi glatað ærunni með aðgerðaleysi sínu en tapar hann laununum núna þegar hann segir af sér? Eða fer hann heim á biðlaunum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. nóvember 2012
,,Barnamatseðill"
Þjónum finnst ég ekkert fyndin þegar ég spyr hvernig börn séu í matnum á barnamatseðlinum. Ókei, börnunum finnst það ekki heldur þannig að það hallar hrikalega á mig í þessum brandara.
En það er samt eitthvað rangt við þessa nafngift, sbr. að nautahamborgari er ekki handa muuuuuu, beikon ekki handa svínum og grænmetislasagna ekki handa kálinu.
Og það er ekki eðlilegt að halda sérstökum matseðli að börnum, mestmegnis unnum mat og bragðlitlum. Kannski er þetta ástæðan fyrir að ég er mjög seinþroska í mat, fannst pulsur bestar á grillið fram á fullorðinsár. Með meira framboði lærði ég betur að meta fisk, grænmeti og sterkari mat.
Mér finnst svo sem eðlilegt að mjög lítil börn borði ekki ólífur og tsjillí en mér finnst líka fráleitt að ögra aldrei bragðlaukunum, kynna ekki nýjungar fyrir börnum sem öðrum og almennt gefa sér að börn vilji bara nagga, pasta, margarítupítsu og soðna ýsu með tómatsósu.
Sennilega væri vit í því að hafa matseld stærri hluta af námskrá skóla.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. nóvember 2012
Kuldaboli í bók
Spennusögur eru svolítið með puttann á púlsinum, endurspegla samtímann, flétta nútímann saman við heilagan skáldskap. Ég las um helgina, asnaðist til er mér skapi næst að segja, bók eftir Henning Mankell sem endar á árásinni á tvíburaturnana (skiptir engu máli fyrir söguþráðinn, staðsetur hana bara í tíma) en lesandi er látinn halda, a.m.k. hálft um hálft, að sagan sé ný.
Verra var þó að söguþráðurinn var mjög slitróttur sem er sennilega ástæðan fyrir því að útgefandinn flýtti sér ekkert að láta þýða hana. Þegar ágætir höfundar hlaupa á sig og skrifa bara la-la bækur er algjör óþarfi að þýða þær á öll möguleg tungumál.
Trúarofstæki, stækir söfnuðir, ríkur umrenningur, horfin vinkona, týndur pabbi, einstæð móðir, skapstór lögreglufeðgin - geisp.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. nóvember 2012
Óveður?
Ekki geri ég lítið úr fljúgandi þakplötu á Laugaveginum eða sjógangi við Sæbrautina en er ekki heldur langt seilst að tala um óveður á höfuðborgarsvæðinu? Er ekki nær að tala um krappa lægð, einkum þegar maður ber saman við aðra landshluta?
Ég gekk Laugaveginn tvisvar í gær, er svo sem ekkert fis en upplifði líka lífið hættulaust með öllu. Svo stefndi ég til mín fólki í gærkvöldi úr nærliggjandi sveitarfélögum og það komst allt vandkvæðalaust. Það er kósí að vera inni í upphituðu húsnæði en það er ekki lífshættulegt að bregða sér úr húsi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. október 2012
Félag leiðsögumanna er 40 ára
Og það hélt upp á afmælið sitt á föstudaginn var með vel sóttu morgunverðarmálþingi sem ráðherra ferðamála ávarpaði. Það eina sem vantaði var loforð um löggildingu starfsheitisins ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 30. október 2012
Ég hjóla
Það er ekki af neinni gustuk við umhverfið eða samferðafólk mitt í lífinu sem ég hjóla. Ég hjóla aðallega af því að sá samgöngumáti hentar mér, ég fer oftast hæfilegar vegalengdir og næ því sem ég þarf að gera.
En nú les ég að ég sé hættulegri í umferðinni ef ég tala í símann en bílstjóri í símanum. Ég finn þó ekkert um bann við því að tala í símann á hjólandi ferð í nýju frumvarpi til umferðarlaga. Hins vegar fann ég þetta í 54. gr.:
Ökumanni ökutækis er óheimilt að nota farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Jafnframt er ökumanni óheimilt að senda eða lesa smáskilaboð eða nota farsíma á annan hátt meðan á akstri stendur.
Ég held að vandinn sé samt aðallega í því fólginn að ökumenn missa athyglina þegar þeir hugsa um símtalið. Það er svo erfitt að múltítaska ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. október 2012
Niðurgreiðsla og önnur (meint) hlunnindi
Í vikunni hef ég orðið vör við umræðu um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á landsbyggðinni. Reykvískur pólitíkus vakti hana upp og spurði sisona: Eiga Reykvíkingar að greiða niður húshitun á köldum svæðum?
Ég er Reykvíkingur og mér finnst ekki eðlilegt að við greiðum niður húshitun eða matarverð í öðrum landshlutum. En að sama skapi finnst mér ekki að ég eigi að fá heim til mín hlunnindi sjómannsins sem velur kalda húshitunarsvæðið og gjöfulu fiskimiðin sem hann getur sótt.
Það er ekki fræðilegur möguleiki að jafna allt. Sumir fæðast fallegir, sumir gáfaðir, sumir heilbrigðir og það er ekki hægt að jafna öll þau gæði. Fólk á að hafa sömu tækifæri til náms og góðs lífs en það er ekki hægt að jafna allt.
Að auki eru það góð rök að ef það er viðbjóðslega dýrt að kynda á Tálknafirði eða Stöðvarfirði gæti það verið hvati til að finna aðra orkugjafa, t.d. með því að virkja hafstraumana eða hektópaskölin.
Eftir grufl og umræður gæti komið á daginn að það væri ósanngjarnt að hitajafna ekki milli höfuðborgarsvæðis og Vestfjarða og þá er að taka því. En ekki umræðulaust og út frá tilfinningum einum saman.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 21. október 2012
Ég varð undir ...
... í einni spurningu. Eða þannig.
Ég nýtti mér kosningarrétt minn og fór á kjörstað í gær. Miðað við tölurnar sem hafa verið birtar var hópurinn ekki einsleitur að öðru leyti en því að fólk var heldur jákvætt. Sumir vildu ekki leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar en vildu fá skýr ákvæði um eignarhald á náttúruauðlindum. Sumir kjósendur vildu halda inni ákvæði um þjóðkirkju og sumir vildu jafnt vægi atkvæða.
Ég hlíti niðurstöðu þeirra sem létu sig málið varða og ef ég væri þar stödd í lífinu að ég þyrfti, vinnu minnar vegna, að taka afstöðu til þessara spurninga myndi ég taka tillit til ráðgjafarinnar, líka í sambandi við þjóðkirkju sem ég sagði mig úr fyrir margt löngu.
Mér ofbýður hvað fólk spáir miklu meira í hvað fólk sem fór í sund, fór í fjallgöngu, horfði á fótbolta, var í útlöndum, gleymdi sér við að borða sushi, rataði ekki á kjörstað eða lét sér á sama standa um kjördag vildi sagt hafa með þögn sinni en við hin sem gerðum upp hug okkar og greiddum atkvæði.
Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan og ég hlakka mikið til að sjá hvernig úr spilast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 20. október 2012
Þjóðaratkvæðagreiðslan
Fullorðin kona í fjölskyldunni er að hugsa um að fara ekki á kjörstað af því að henni finnst hún ekki vita nóg um málið. Ég spurði hana - og hún varð hugsi - hvenær hún hefði vitað nóg um frambjóðendur í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum og hvenær hún hefði vitað nákvæmlega hvernig landið lægi eftir kosningar.
Ég hef aldrei tekið þátt í prófkjöri, hmm. Ég ætti kannski að skrá mig í flokka. Eða nei, ég þarf þess ekki ef persónukjör verður tekið upp.
Kynslóðirnar á undan minni hafa barist fyrir rétti mínum til að taka þátt í mótun samfélagsins. Ég forsmái það ekki þótt ég viti ekki allt og ráði ekki öllu ein.
Ég hlakka til að fara í Laugardalshöll á eftir með mína sex krossa.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. október 2012
20. október 2012
Merkisdagur á morgun.
Vilt þú að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?
Hvað þýðir til grundvallar? Að frumvarpið verði útgangspunktur í frekara starfi. Ég sé ekki annað en að allir ættu að geta unað við það. Það þýðir ekki að engu megi breyta.
Út frá þeim skilningi greiði ég atkvæði á morgun.
Svo minni ég sjálfa mig á að þótt ég segði já við spurningu um hvort ég vildi láta setja lög um húsaleigumarkað hefði ég sáralítið um það að segja hvernig þau lög yrðu. Hvenær erum við tilbúin að stíga það skref að færa stjórnarskrá konungsveldisins til nútímans ef ekki núna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. október 2012
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Stjórnarskráin sem var samþykkt 1944 átti að vera til bráðabirgða.
Ég hef lesið hana frá orði til orðs. Ég hef líka lesið frumvarp stjórnlagaráðs frá upphafi til enda og ég hlakka til að fara í Laugardalshöll á laugardaginn til að greiða (þjóðar)atkvæði.
Það síðasta sem ég gat ákveðið fyrir mína parta var að segja nei við ákvæði um þjóðkirkju. Ég er ekki í henni sjálf en var að hugsa um að vera hlutlaus í þeirri spurningu. Eftir á að hyggja sé ég engin rök fyrir að hafa þjóðkirkju skrifaða inn í stjórnarskrána. Ég er frjálslyndari en svo.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. október 2012
Líknardráp í Hollandi?
Ég reyndi að lesa skáldsögu um hollenskan lækni sem stundar líknardráp og þá rifjaðist upp að það hefur áður verið þema í hollenskum (þýddum) bókum sem ég hef lesið. Er þetta aðalmálið í Hollandi eða vill bara svo til að þýddu bækurnar eru á þeirri vegferð?
Skáldsögur endurspegla veruleikann, ekki satt?
Þessi bók rokseldist í sumar - og ég gafst upp á henni eftir tilraunir í hálfan mánuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)