Hækkun virðisaukaskatts í ferðaþjónustu

Ég er bara maur í ferðaþjónustu, tek enga áhættu, skipulegg ekkert og dreg engan að landi. Sennilega hef ég þá ekki rétt til þess að hafa afgerandi skoðun á fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Enda dettur mér það ekki í hug, hef bara óafgerandi skoðun á málinu.

Það sem ég skil síst og minnst og eiginlega bara ekki er að ferðaþjónustan kvartar og skælir undan öllu. Samt hefur vöxtur orðið þar mikill. Þegar brúna yfir Múlakvísl tók af í fyrra kveinuðu ferðaþjónar austan megin árinnar yfir MILLJARÐATAPI. Samt höfðu þeir aldrei fagnað milljarðagróða.

Ferðamönnum hefur fjölgað á Íslandi ár frá ári, stöðugt í mörg ár. Vilja ferðaþjónar í alvörunni að við förum skarpt upp í heila milljón og svo í þremur þrepum upp í eina og hálfa? Af hverju reynum við ekki frekar að gera þetta almennilega, búa vel um fjölsótta og viðkvæma ferðamannastaði? Er ekki oft talað um að fá ferðamenn til að staldra lengur við, að hver og einn eyði meiru, „fá ríka fólkið“? Jú, yfirstrumpar ferðaþjónustunnar hafa talað á þeim nótum. Getur ekki verið að það verði núna tilfellið ef gisting verður dýrari?

Ég man líka að þegar virðisaukaskatturinn á mat var lækkaður úr 24,5% í 7% lækkaði verð ekkert á veitingastöðunum. Þá höfðu ferðaþjónar engar áhyggjur. Eða var það?

Þrátt fyrir að vera leiðsögumaður fer ég ekki oft hringinn með túrista. Engu að síður hef ég gert það og stundum hef ég átt að gista á Egilsstöðum og verið send í Neskaupstað. Er það vegna þess að það koma engir túristar? Nei, það er af því að þeir eru svo margir. Núna, meðan verð er svona „lágt“, gæti ég spurt hvort erillinn sé mikill á veturna. En ég þarf þess ekki, ég veit að svo er ekki. Og það er ekki út af verðinu, það er út af veðrinu og fylgifiskum þess.

Hins vegar finnst mér of bratt að hækka verðið á næsta ári og mér finnst að til þess bærir aðilar ættu að íhuga lægri virðisaukaskatt á veturna til að reyna þó að fjölga túristum í norðurljósaferðum og atburðatengdri ferðaþjónustu (Airwaves og önnur tónlist kannski helst).

Að lokum verð ég að segja að mér finnst framkvæmdastjóri SAF hitta einhverja nagla á höfuðið í grein í Fréttablaðinu í dag sem ég varð að tengja á í fyrstu línu pistilsins.


Krimmar með áherslu á vinnugleði

Nú er ég búin að lesa þrjár bækur um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Ég hef eitthvað fylgst með breska þættinum um kvenlögreglumennina og horfi - auðvitað - alltaf á dansk-sænska þáttinn Brúna og mér finnst það ágerast að umræðan snúist um vinnugleði og vilja/viljaleysi til að finna hinn seka og komast til botns í málinu.

Ég kláraði Rauðbrystinginn hans Nesbøs í gær og þar er til dæmis sálfræðingur sem hefur yndi af starfinu sínu þótt það varpi ljósi á mikinn viðbjóð og mannlega breyskleika. Þar fyrir utan er auðvitað Harry sjálfur ómögulegur maður ef hann fær ekki að klára mál. Þetta ætti að vera sjálfsagt en svo virðist sem margir hafi lítinn metnað í vinnu.

Heita þær ekki Scott og Bailey, þær bresku? Vinkona annarrar var myrt og þess vegna gekk hún í lögregluna. Hin hafði einhverja góða ástæðu til að verða lögreglumaður og nú er hún búin að setja sér það fyrir að fara að „slugsa, gera eins og skussarnir“ en þær vita og við vitum að hún getur ekki dregið lappirnar í vinnunni. Hún er bara orðin svo langþreytt á metnaðarleysinu að hún vill láta reyna á hvort hún getur slegið slöku við og mögulega orðið eitthvað minna pirruð á samstarfsfólkinu.

Það ætti að vera sjálfsagt mál að fólk standi sig í vinnu, ekki síst þegar fólk menntar sig sérstaklega til einhvers starfs, velur það og hefur áhuga á því sem vinnan felur í sér, áhuga á að ná árangri. Af hverju er það umtalsefni þegar fólk gerir einmitt það?

Og nú finnst mér krimmaafþreyingin flétta þetta í æ meira mæli inn í söguþráðinn sinn. Kannski skjöplast mér samt, kannski er þetta hjá Morse og Derrick og Lewis og Matlock og Wallander og Lizu Marklund og Arnaldi og Yrsu.

Af hverju vandar fólk sig ekki við vinnuna?


... fara (að (öllu)) með gát ...

Fer maður með gát?

Fer maður að með gát?

Fer maður að öllu með gát?

Ég hallast að því síðasttalda.

„Eins og ég segi, almennt séð höfum við farið að öllu með gát þegar kemur að ríkisfjármálunum.“


,,Verulega hljóp á skaftið ..."

RÚV eru verulega mislagðar hendur. Hér er frétt sem er búin að vera í hálfan sólarhring á vefnum:

Verulega hljóp á skaftið hjá eyjaskeggjum á eynni Savu í Indónesíu í gær þegar þar syntu á land 44 grindhvalir. Reynt var í morgun að koma þremur hvölum sem enn tórðu aftur út í sjó en íbúar nágrannabyggða hafa skipt með sér kjöti yfir fjörutíu hvala.

Það hleypur á snærið ef maður er heppinn og menn færa sig upp á skaftið ef þeir eru framhleypnir.

Fleira?


Barnabætur

Bætur? Og hvert er tjónið? Ég skil aldrei af hverju ekki er talað um barnalaun, barnaþóknanir eða barnafögnuð ...

Á Sprengisandi

Þorsteinn Pálsson hrósar Jóhönnu Sigurðardóttur í hástert í útvarpinu núna og helst fyrir það að hafa fært Samfylkinguna langt til vinstri.

Er hann að hrósa henni eða vakir eitthvað annað fyrir honum?


Matreiðsluþættir í sjónvarpinu

Tíska til fjögurra ára er að sýna matreiðsluþætti í sjónvarpinu og ganga á hæðir og hóla. Er kannski lengra síðan það byrjaði?

Ég elti rakleiðis, er komin í fjóra gönguklúbba, suma m.a.s. virka, og finnst þetta alveg málið. Hins vegar kunni ég aldrei að meta þættina hennar Nigellu og skildi ekki af hverju ég átti að heillast af þessum forljótu réttum sem voru þar að auki óhollir fyrir allan peninginn.

Nú er Hrefna Sætran með ávaxtaþátt í sjónvarpinu mínu og ég undrast stórlega myndatökuna. Svo sýður hún rjóma, hellir yfir súkkulaði og hjúpar jarðarber - ha, er það einhver kúnst?

Þegar Völli var með þáttinn sinn um daginn heyrði ég fólk pirra sig á því að hann talaði ensku og hvernig hann talaði hana, sumum fannst hann meira að segja tala frekar ísl-ensku. Ég tók ekki eftir því, heyrði bara þegar þátturinn var kynntur í vitlausu eignarfalli ...

Æ, ég ætlaði bara að skrá hjá mér að í dag er dagurinn sem forsætisráðherra kynnti brottför sína úr stjórnmálum á vordögum.


Tvær milljónir erlendra ferðamanna á ári eftir örfá ár?

Alls konar spádómar um fjölgun ferðamanna. Alls konar hrakspár um fækkun ferðamanna. Alls konar marklausar og tilviljanakenndar getgátur.

Og hvernig ætlum við að anna tvöföldum skammti innan 10 ára ef við eigum fullt í fangi með að anna umferðinni eins og staðan er með 881.915 farþega um Keflavíkurflugvöll á síðasta ári?

Eins gott að ég fletti upp á vef Hagstofunnar, ég hafði dregist aðeins aftur úr ...


Þáttur hins sjúka

Laun og önnur kjör heilbrigðisstarfsmanna hafa verið til umræðu, álag á starfsfólkið, samheitalyf, almennur sparnaður og það hvort rétt sé að draga ætlaða launahækkun til baka.

Í hádeginu komst til tals í litlum hópi hvort næg umræða væri um hvernig kostnaði hefur verið velt yfir á þá sem þurfa á þjónustunni að halda. Það eru meiri brögð að því núna að fólk er látið koma seinni partinn til að fá þjónustu, síðan fer það heim - með tannburstann sem það tók með sér í þeirri trú að það ætti að leggja það inn - og látið koma daginn eftir. Í bæði skiptin þarf hinn sjúki að borga komugjald en ef hann hefði verið lagður inn hefði hann ekki borgað beint, bara í gegnum skattana.

Ég er svo illa verseruð í þessum fræðum að ég veit ekki hvenær þetta ágerðist en þáttur sjúklinga í rekstri heilbrigðisþjónustunnar er orðinn ríkari en hann var.

Er það velferð?

Sjálf get ég ekki kvartað þar sem mér verður eiginlega ekki misdægurt.


Sænsku vinirnir

Norrænt sjónvarpsefni kemst æ ofar upp á pallborðið hjá mér. Samt uppgötvaði ég ekki „Líf vina vorra“ fyrr en sex eða sjö þættir voru búnir. Og nú er sá tíundi, síðasti, búinn og allt safnið horfið úr sarpi Ríkisútvarpsins.

Karlarnir voru skemmtilegir, tilfinningaríkir, litskrúðugir og hrikalega hlýlegir. Meira svona norrænt gæðaefni, takk. Ég trúi á svona breyskt fólk.


Broen í kvöld

Áhugasamir sem hafa samt ekki haft rænu á að horfa á dansk/sænska þáttinn Brúna geta enn horft á hann frá upphafi á vef RÚV. Ég myndi vilja láta minna mig á ...

Þjóðaratkvæðagreiðsla 20. október

Mikið verður spennandi að fá meiri upplýsingar um þjóðaratkvæðagreiðsluna um stjórnarskrárfrumvarpið. Rúmur mánuður til að ákveða hvernig maður greiðir atkvæði.

Skandinavískt úrvalsefni

Nú er Våra vänners liv í sjónvarpinu, sænskt gæðastál. Fyrir utan tilbreytinguna frá enskumælandi efni sem manni er oftar en ekki boðið upp á er alveg eftirtakanlegt hvað herrarnir klæðast í mikla liti.

Gaman.

Miklu skemmtilegra en að fylgjast með rifrildi um gistináttagjald á hótel þótt mér komi það mál við.


Kröpp lægð og svæsinn vindur

Maður man svo sem varla gærdaginn en ég man sannarlega ekki eftir 10. september á hjóli í miðbænum í svo miklum vindi að ég þurfti að hjóla af krafti niður í móti. Svo fauk ég heim úr vinnunni upp í móti en allt af hjólinu og ég þurfti að hlaupa á eftir uppskriftum og mangóávöxtum og á meðan fékk hjólið eina byltuna enn.

Björgunarsveitir eru úti um allar þorpagrundir að bjarga fólki, fé og þakplötum og ég vona að við verðum ekki búin að gleyma því þegar eina fjáröflunin hefst með flugeldasölu í lok árs.

Segi bara svona af því að ég man ekki gærdaginn sjálf ...


Með strætó á Sauðárkrók

Þangað til annað kemur í ljós hef ég miklar efasemdir um að það hafi verið skynsamleg ákvörðun að skipta Sternu út fyrir Strætó.

Af hverju fer lélegt almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins út á land þar sem reksturinn virðist hafa verið í góðu lagi?

Má núna standa í marga klukkutíma?

Ég var að skoða heimasíðu Strætós, fann meinta gjaldskrá en get ekki séð hvað það kostar mig að taka almenningsstrætisvagn til Sauðárkróks. Þegar ég smelli á reiknivél fyrir svæðið fæ ég upp excel-skjal þar sem fyrst er gengið út frá 17 gjaldsvæðum (þar getur maður breytt en ekki áfangastaðnum og fundið út fjölda gjaldsvæða). Þá er stakt gjald 5.950 krónur og fyrir þriggja mánaða kort á maður að borga 297.500 kr. Fyndið, ekki satt? Gerir þá fyrirtækið Strætó ráð fyrir að maður fari aðra leiðina eða fram og til baka daglega? Og verði kannski í strætisvagninum á hverjum einasta degi í marga klukkutíma? Væri ekki nær að vera með rauntíma-eitthvað?

Mikið svakalega held ég að fyrirtækið Strætó þurfi að sanna sig til að ég og um það bil allir sem ég þekki og nota almenningssamgöngur trúi á breytinguna.


Hvernig virkar Gegnir?

Segjum að mig langi til að sjá hvaða bækur Jos Nesbøs í íslenskri þýðingu eru inni. Þá fletti ég honum upp í Gegni og fæ umsvifalaust 100 færslur en get ekki fundið þær sem eru á tilteknu tungumáli. 

Eða sést mér yfir eitthvað? Mér sýnist ítarleitin ganga út á að hafa „og“ og „eða“ eða „og“ eða „eða“.


- postordrekatalogerne -

Atarna (í fyrirsögninni) var skemmtileg smágáta í dönsku þýðingunni á norska krimmanum sem ég er að lesa.

Síðar var þessi sögulega speki úr síðari heimsstyrjöldinni:

„Hvorfor flyttede I hjem fra USA?“ spurgte Daniel.

„Børskrakket. Min far mistede sit arbejde på skibsværftet.“

„Der kan du se,“ sagde Daniel. „Sådan er kapitalismen. Småkårsfolkene slider, mens de rige bliver federe, uanset om det er opgangstider eller nedgangstider.“


Rútuferðir og hausatalningar

Eftir að farþeginn „týndist“ í Eldgjá um helgina hefur mikið verið skrafað um vinnubrögð leiðsögumanna, fararstjóra og bílstjóra. Ótrúlega margir hafa gargað sig hása og gagnrýnt þann sem ber ábyrgðina. Ég held að fæstir viti um hvað þeir eru að tala og ég þykist hafa sannreynt það á rölti mínu í dag. Sumt fólk heldur til dæmis skilyrðislaust að alltaf séu nafnalistar í för þegar hópferðabílar fara út úr bænum.

Nei, í áætlunarferðum með til dæmis Kynnisferðum og Allrahanda er allt eins fólk sem kaupir sig í ferðina rétt áður en hún hefst. Í stoppunum er bílstjórinn bara með fjöldann. Þarna einu sinni taldi einn bílstjóri vitlaust og ótrúlega margir dæma hann, alla bílstjórastéttina og gott ef ekki ferðaþjónustuna eins og hún leggur sig.

Já, ég pirraði mig yfir þessu í dag og þá fékk ég að heyra: „En þetta er svo fyndið.“

Ég get rifjað upp írafárið sem varð þegar hundurinn Lúkas hvarf og fjöldi fólks veittist að hugsanlegum geranda. Ég get líka rifjað upp þegar ég ætlaði að ganga á Fimmvörðuháls fyrir rúmu ári, vindurinn snerist, við létum vita af okkur, björgunarsveit var ræst, við létum aftur vita af okkur og við fengum nett samviskubit yfir að hópi manna hefði verið gert rask. Björgunarsveitir vinna frábært starf og eiga ekkert nema hrós og virðingu skilið - en stundum verður mönnum á.

Mér finnst ekki svona fyndið þegar fólk gefur sér algjörar staðleysur og reynir ekki að velta fyrir sér hinu sanna í málinu.

Nei, þá vil ég heldur hlæja að einhverju skemmtilegu. Andsk.


Þegar rútufarþegi týnist

Í fyrsta lagi vantar heilmargt í fréttina af konunni sem týndist um helgina. Var leiðsögumaður/fararstjóri í för? Ég held ekki. Var nafnalisti? Ég held ekki. Taldi bílstjórinn? Já, ég er sannfærð um það. Taldi hann vitlaust? Já, ég geri fastlega ráð fyrir að mistökin liggi í rangri talningu.

Ef þetta var áætlunarferð, eins og ég gef mér að svo stöddu, þarf bílstjórinn að vita hversu mörgum hann hleypir út við Eldgjá og telja sama fjölda í bílinn. Allt gáfaða fólkið sem æsir sig í athugasemdakerfinu hugsar ekki út í allan þann fjölda skipta sem bílstjóri/leiðsögumaður telur rétt og gætir þess að fólk komist heilt á húfi til baka.

Ég vorkenni fólkinu sem þurfti að bíða, ég vorkenni því að leita að engum og vera í óvissu, ég hef mjög mikla samúð með björgunarsveitunum sem leituðu að óþörfu en ég veit að á móti þessu skipti er ótölulegur fjöldi ferða sem endar áfallalaust af því að fólk vinnur vinnuna sína vel.

Skipti konan um föt? Ha? Vissi hún að hópurinn væri að leita að sér? Ha?

En blaðamaðurinn, hvernig vinnu vann hann þegar hann skrifaði fréttina? Hvaða upplýsinga leitaði hann? Ekki nægra fyrir minn smekk. Lá honum á? Örugglega. Örugglega stóð einhver yfir honum og rak á eftir. Engu að síður er niðurstaða mín að það vanti meira í þessa frétt en það sem sagt er.


Þýðing skiptir svakalegu máli

Og þessi texti hér úr þýðingu á sænskri sakamálasögu er mér ekki að skapi:

Samkvæmt því sem einn þeirra sem ég hef talað við heyrðust sérkennileg hljóð í húsinu á næturnar?

Stafrétt. Og það er meira af slæmu í þessari bók.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband