Laugardagur, 18. febrúar 2012
Að appa, eitt app, mörg öpp
Mig minnir að ég hafi auglýst eftir íslenskum hugtökum fyrir öppin einhvern tímann en þetta vaktist þetta upp fyrir mér í gær þegar ég fékk tölvupóst með spurningu um íslenskt orð fyrir app. Og þá rifjaðist upp fyrir að pabbi minn, ekki af tölvukynslóðinni, hefur oft orð á þessu og má hrósa honum fyrir það. Sumt fólk á hans aldri leiðir samviskusamlega svona óþægindi hjá sér.
Manni er vandi á höndum. Orðið er ekki í orðabók, a.m.k. ekki í Snöru. Ég er ekki tæknifróð en veit samt að þetta snýst um tæki, meiri tækni held ég og meiri hraða kannski. Kannski tengist þetta application, sem sagt notkun, beitingu, ástundun og þegar maður appar sig upp notar maður tækið meira. Hvur veit?
Að appa sig upp er þá kannski að ánetjast. Það er augljóslega verið að reyna að húkka fólk með auglýsingunum, hmm. Í boðhætti er það þá sérlega kjánalegt: Ánetjastu símanum þínum!
Eða þá: Bíttu á, fíflið þitt! Kokgleyptu agnið.
Kannski eru gildar ástæður fyrir því að seljandinn lætur ógert að íslenska hugsun sína.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 16. febrúar 2012
Að tunna + þf./þgf.?
Í tíma í morgun prófuðum við málkennd okkar á nýja sagnorðinu að tunna. Ég veit hvort ég léti þolfall eða þágufall fylgja. En þú? Að tunna Austurvöll eða að tunna Austurvelli?
Svo ræddum við sögnina að rústa og eftir því sem mér skildist á kennaranum er orðið aldurstengt hvort því sagnorði fylgir nafnorð í þolfalli eða þágufalli.
Hann rústaði íbúðina?
eða:
Hann rústaði íbúðinni?
Ertu unglingur, miðaldra eða yfir sextugt? Ég gæti séð það á svarinu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 15. febrúar 2012
Dómurinn sem um er rætt
Ég ætlaði að stytta mér leið á vef Hæstaréttar, fletti upp á dómnum, skrunaði beint niður að ÚRSKURÐARORÐUM og varð hissa af því að ég hafði hlustað á fréttirnar. Þetta kennir mér að flýta mér hægt og hrapa ekki að ályktunum. Hins vegar sé ég í hendi mér að þingheimur muni eiga auðvelt með að fjalla efnislega og málefnalega um dóminn á morgun eins og sést á 5. dagskrármáli að til stendur, dómurinn er ekki það margorður.
Og þessi dagskrárliður hlýtur að fá mikið áhorf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 13. febrúar 2012
Miskunn smiskunn
Ó, Hugleikur hefur löngum teygt sig í hefðina og híað pínulítið á hana eða kannski frekar viðteknar hefðir eða viðtekinn skilning á hefðum. Við erum sneisafull af klisjum. Vorum kannski, kannski erum við núna öll ósköp meðvituð og ómeðvirk.
Í Þeim glataða tekur Sigga Lára sér það fyrir hendur að biblíast með feður og syni og Babýlon og tapað og fundið og ég hló og hló, ekki sérlega upphátt nema stundum en ofan í mig oft. Þó er nú svo komið að það er fljótlegra fyrir mig að telja þá sem ég þekki á leiksviðinu en hina sem ég þekki ekki, og þekkja mig alls ekki. Bónusinn við að þekkja leikarana er að maður þekkir einstaka takta, en ég verð bara að segja að þetta var mjög harðsnúið lið sem - auðvitað - geislaði af leikgleði í kvöld. Leikmyndin var líka íðilfögur og búningarnir mjög 10.000 ára gamlir - nema ég viti ekkert hvernig Jesús dressaði sig og faðir Abraham og hans synir, hoho, já, og ærnar. Söngurinn var kitlandi skemmtilegur en vá, hvað Rúnar Kristinn Rúnarsson hefur óskaplega fallega rödd. Enda heyri ég fleygt að hann sé á leið í nám í þeim fræðum.
Sá glataði stendur til boða fram í miðjan næsta mánuð. Komaso!
Svo mælti Berglind á sunnudagskvöldi - fórnaði Höllinni fyrir Þann glataða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 9. febrúar 2012
Djett?
Ég er alls ekki mótfallin tökuorðum og tala til dæmis hikstalaust um djass, blús og pítsur enda eru svo sem engin önnur nothæf orð til á íslensku um fyrirbærin. Jú, flatbaka var fundin upp um árið en hefur ekki náð meiri hylli en nýyrðið þjál fyrir plast. Eina þýska tökuorðið sem ég kannast við í íslensku er besservisser eða talar nokkur um beturvitrunga? Reyndar man ég núna að ég heyrði skolli gott orð fyrir svona vita um daginn en er aftur búin að gleyma því.
Þótt ég noti þessi hálfútlensku orð eins og ekkert sé skrifa ég þau með rithætti sem ég tel íslenskan. Ef þrýstiloftsflugvél hefði ekki verið valin um árið og svo stytt niður í þotu velti ég fyrir mér hvort við töluðum um djett. Ég meina, ég hef undrast það að fólk skrifi jass og enn meira jazz í ljósi þess að z er eiginlega bara í sérnöfnunum Tarzan og Zoëga - og yrði ég þá ekki að skrifa djett til að vera samkvæm sjálfri mér?
Djók.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 7. febrúar 2012
Yfirstrumpar lífeyrissjóðanna voru ekki kjörnir ...
... og þar af leiðandi geta þeir ekki sagt af sér. Þeir eiga að segja upp eða segja starfi sínu lausu ef þeir eru þannig innréttaðir. Þeir geta hætt, verið sagt upp eða verið reknir.
Þetta var málfræðibroskall dagsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. febrúar 2012
Lífeyrissjóður unga fólksins
Meðan lífeyristaka er langt undan held ég að fæstir leiði hugann að fjárfestingum lífeyrissjóðanna.
.
..
...
Já, ég get ekki hugsað 20 eða 30 ár fram í tímann. Svo fæ ég heldur ekki borgað fyrir það eins og væri ég viðskiptafræðingur og/eða framkvæmdastjóri sjóðs. Ég hef ágætispeningavit en ekki fjárfestingarvit - mér sýnist ég reyndar alls ekki vera ein um það. En úps, ef ég hefði tapað milljarði af annars fólks peningum væri mér órótt, tala ekki um ef ég þyrfti að 470-falda þá upphæð, og það þótt ég hefði áður bara talið fólki trú um að ég væri búin að margfalda innleggið, án innstæðu.
En þetta eru allt bara fræðilegar pælingar og alls engar ávirðingar ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 2. febrúar 2012
Lipurleiki í Borgarleikhúsinu
Einhvern tímann skildist mér að ef maður fengi vonda þjónustu segði maður 24 frá því en aðeins átta ef þjónustan væri góð. Kannski heldur maður að maður bæti heiminn (og þjónustuna) með því að segja frá.
Um helgina átti ég erindi í Borgarleikhúsið, ætlaði að sækja miða sem annar tók frá á mínu nafni. Þeir fundust ekki í fljótu bragði (sem var skýring á) og meðan ég beið fylgdist ég með (starfsstúlkunum, afgreiðslukonunum, miðaseljunum - starfskröftunum?) að störfum. Og það var bara unun, heilt lítið leikhús að sjá hvað þær tóku fólki vel. Fólk kemur nefnilega ekki í miðasöluna bara til að kaupa miða.
Ég er markvisst að vinna gegn tölfræðinni því að líklega finnst mér almennt að það ætti ekki að vera frásagnarvert að fólk vinni vinnuna sína af natni og samviskusemi. En það er samt ekki sjálfsagt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 31. janúar 2012
Og Melabúðin klikkar líka
Það er erfitt að finna matvörubúðir sem maður vill versla við. Keðjurnar eru ráðandi og manni hefur verið komið í skilning um að þær séu ekki traustsins verðar, merki vitlaust og selji blandaðar vörur. Ókei, vottur af alhæfingu í þessu, en sjálf hef ég fengið vonda þjónustu, rangar upplýsingar og útrunna vöru í of mörgum verslunum og þekki aðra sem hafa lent í því sama. Það er til marks um að viðskiptahættirnir eru vafasamir að alltaf þegar maður bendir á mistök eru þau leiðrétt umyrðalaust, líklega af því að andlit verslunarinnar, kassadömur af báðum kynjum, veit að það er hætt við rangri verðmerkingu. Ég hef verið hyskin við að fara aftur í búðina og fara fram á endurgreiðslu þegar ég sé seinna að ég hafi verið tvírukkuð og skammast mín fyrir það. Maður á að láta vita svo hægt sé að leiðrétta.
En svo eru litlu búðirnar eins og Melabúðin og stóra einstaka búðin Fjarðarkaup. Ég fer því miður næstum aldrei í Fjarðarkaup sem er utan míns þjónustusvæðis en ég hef gert mér ferð í Melabúðina af og til síðustu þrjú árin. Hef viljað standa með stöku búðunum og góðu gæjunum þótt það kosti meira.
Í síðustu viku sá ég úrvalssúkkulaði með 40% afslætti í Melabúðinni. Þá kostuðu 100 grömmin 263 krónur í stað 439 og ég sem er að ná dökka súkkulaðiþroskanum ákvað að grípa tvö svoleiðis. Ég leit auðvitað aftan á af gömlum vana og sá að þau runnu út 5. janúar 2012. Samt er ég ekki viðkvæm fyrir dagsetningum, síst á vöru sem hefur líftíma í heilt ár. Þegar ég kom að kassanum sagði ég við andlit verslunarinnar að það væri nú í lagi að merkja útsöluvöruna sem útrunna - sem strangt til tekið má ekki selja - og andlitið sagði að varan væri ekki útrunnin. Það fór þó ekki á milli mála og þá sagði afgreiðslumaðurinn: Þetta var líka á útsölu í desember.
Úff.
Röðin hafði verið svo sniðug að ég brosti bara og sagðist vera viss um að súkkulaðið væri áfram gott og ég ætlaði að kaupa það en myndi líta á þetta næst þegar ég kæmi.
Í leiðinni hafði ég gripið með mér hvítlaukspressu sem var vandlega verðmerkt á 905 krónur. Á strimlinum stóð hins vegar 1898 krónur þannig að ég fór brosandi til afgreiðslumannsins, sýndi honum miðann og pressuna og sagðist alveg hafa fimm mínútur til að fá þetta leiðrétt. Hann brosti samviskusamlega ekki en sagðist ætla inn til Péturs að spyrja hann, kom svo fram aftur og greiddi mér mismuninn.
Kannski verðmerkja þau sjaldan vitlaust í Melabúðinni og ég bara einstaklega óheppin að fá tvær vitleysur í einni lítilli innkaupaferð. Kannski var hann þess vegna alveg laus við þjónustulund, maðurinn sem afgreiddi mig, svona til mótvægis við meintar lágvöruverðsverslanir sem virðast alltaf vita upp á sig sökina.
Í dag fór ég aftur í Melabúðina og sá að góða súkkulaðið sem ég er búin að leyfa mörgum að smakka á var enn á útsölu en nú með nýrri og góðri dagsetningu og ákvað að dekstra við bragðlauka hist og her. Sami maðurinn afgreiddi mig en nú brá svo við að súkkulaðið var alls ekki á útsölu þótt það væri kirfilega merkt þannig. Og í staðinn fyrir að fara aftur inn í búðina og láta hann leiðrétta vitleysuna ákvað ég að offra 200 hundruð krónunum og fara í langa fýlu út í Melabúðina.
Ég var ekki stór kúnni en nú er ég enginn kúnni. Hvernig er Pétursbúð?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 30. janúar 2012
Þrír og hálfur tími af Eldhafi í Borgarleikhúsinu ...
... og í mesta lagi 10 mínútum of mikið.
Höfundurinn er frá Líbanon og skrifar væntanlega út frá einhverri eigin reynslu, að minnsta kosti hlýtur viðbjóðurinn að standa honum alltof nærri. Ofbeldi, hryggð, heift og hefndarþorsti er það sem aðalsögupersónan vill uppræta og þess vegna teflir hún saman því fólki sem getur byrjað þá vegferð. Sjálf hefur hún upplifað allt tilfinningarófið og viðbrögð hennar eru þögn.
Af sjö leikurum var ég hæstánægð með fimm, segi ekki meir.
Tónlist og hljóð var allt mjög áhrifaríkt, vann fyrir mína parta óvenjuvel með sýningunni. Það var verulega óhugnanlegt þegar maðurinn með riffilinn var með tónlistina í spilaranum á fullu.
Leikmyndin var ólýsanlega flott og myndkastið færði okkur samviskusamlega á nýja og nýja staði.
Ég vona að Eldhaf gangi lengi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. janúar 2012
Loverboy - villandi titill
Ég hef hvergi séð myndina Loverboy með Kyru Sedgwick, Kevin Bacon, Marisu Tomei, Matt Damon og Söndru Bullock á dagskrá. Kyra leikur konu sem er í æsku hlunnfarin um sjálfsagða umhyggju foreldra sinna sem sjá ekki sólina hvort fyrir öðru. Þegar hún vex úr grasi setur hún sér það fyrir að eignast barn sem muni fá alla umhyggju hennar, óskipta. Og það er hrollvekjandi ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. janúar 2012
Rauntímakort um strætóleiðir
Í dag fylgdist ég í fyrsta skipti með strætóleiðinni minni á rauntímakorti á vef strætós. Það virkaði, vei, og það mjög vel. Ég sá á 15 sekúndna fresti hvernig leið 3 leið niður Hverfisgötuna.
Allir í strætó!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. janúar 2012
Kossar Stalíns
Ég hélt að sænskan mín væri óaðfinnanleg, ehemm, en þegar ég sá titilinn Stalins kossor skriplaði ég á skötunni. Þetta var auðvitað sænska þýðingin á Kúm Stalíns eftir Sofi Oksanen en það er ekki frítt við að ég hafi séð Stalín í fullmjúku ljósi í augnablik eða tvö. Hvernig ætli titillinn Kusur Stalíns hefði mælst fyrir?
Ég las hana hálfa. Mér finnst hún vel skrifuð og íslenskan falleg.
Af hverju kláraði ég hana þá ekki?
Hún er um togstreitu milli landa, milli sjálfstæðis og ósjálfstæðis, eldri og yngri, sæmdar og skammar - en kjarninn, þungamiðjan og umbúðirnar eru átröskun. Eftir 250 síður var ég farin að átta mig á að sögumaður fegraði fyrir sjálfri sér áráttu sína til að kasta upp matnum sem hún gleypti. Hún sagðist standa sig vel í námi, líta vel út og ná árangri en um leið var hún félagsfælin með afbrigðum, alltaf á varðbergi, sífellt að reikna út heitaeiningar og rög við skuldbindingar.
Þrátt fyrir allt fannst mér þessi fína bók of langdregin og ég tengdi engan veginn við hinn meginþráðinn í henni. Þess vegna skilaði ég henni á bókasafnið þegar hálfi mánuðurinn var uppurinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 22. janúar 2012
EM - HM - HUMMHUMM - GRRRRR
Eins og annað gott fólk verð ég voða bólgin (af ættjarðarást) þegar handknattleiksliðið gengur glaðhlakkalega um annarra liða heimavelli og skorar og ver. Þetta er jákvæð athygli (dálítið neikvæð þegar önnur lið gefa okkur tvö mörk til að fá okkur með í milliriðil til að fá með sér stig) og maður heldur að landið rísi aðeins, erlendar fjárfestingar streymi til landsins, Kínverjar bukki sig og gullið sé innan seilingar.
Eða eitthvað.
En ég kunni ekki við það í dag þegar spurningaþætti Villa naglbíts var ýtt út af dagskrá útvarpsins (ég get nefnilega múltítaskað) og ég skil ekki af hverju hefðbundinni sunnudagskvöldsdagskrá sjónvarpsins er snúið á hvolf út af tveimur annarra landa liðum.
Hefur verið gerð könnun á því hversu margir vilja virkilega hafa handkast (eins og mig minnir að Máni í Harmageddon á X-inu kalli handbolta) á besta áhorfstíma? Er þetta ekki bara hávær lítill hópur sem virkilega vill hafa þetta eins og það er núna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 19. janúar 2012
Drekkum við ótæpilegt salt á jólunum?
Þegar maður fleytir bara ofan af fréttunum, a.m.k. sumum þeirra, fer ýmislegt fyrir ofan garð og neðan. Undanfarin mörgmörgmörgmörg herrans ár hefur verið þrálát umræða um sjávarsalt, Himalajasalt, eðalsalt, msg-lausan mat, hráfæði, hollustu, grænmeti, vínsteinslyftiduft og ég veit ekki hvað og hvað. Ef ég væri í matvælaframleiðslu og pantaði salt frá birgja sem sendi mér gróft salt í sekkjum - þarna vantar til dæmis upplýsingar, lítur venjulegt matarsalt fyrir verksmiðjur út eins og götusalt? - er trúlegt að ég setti upp spurnarsvip og bætti um betur með því að spyrja birgjann út í sendinguna.
Nema ég fengi vöruna á mun betra verði og vildi græða svolítið/dálítið/meira/bönsj.
Og af hverju keyptu kannski 40 fyrirtæki salt af Ölgerðinni - af hverju flytur annars Ölgerðin inn salt til áframsölu? - en 440 ekki? Hvar keypti obbinn af fyrirtækjunum saltið sitt? Sum held ég að séu meira að segja í eigu sömu fyrirtækja og keyptu iðnaðarsaltið. Hmm.
Og þá er spurningin líka hvort það skipti einhverju máli hvernig salt við látum ofan í okkur. Hefur einhverjum orðið meint af? Vitum við það ekki? Er þetta stormur í vatnsglasi? Og að verða léttur andvari sem endar með stafalogni á morgun?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. janúar 2012
Nú er Millennium lokið, nú er fokið í flest skjól
Ég tárast næstum af gleði þegar ég hugsa um sænsku þættina og depurð þegar ég hugsa um að nú sé þeim öllum lokið. Sögurnar voru skotheldar, ádeila á spillingu, fals, undirferli, kerfið og skúrkana. En dásamlegast fannst mér hvernig nostrað var við sum smáatriðin, svipbrigðin sem fengu þá athygli sem þau þurftu og að söguhetjurnar voru ekki alltaf með lausnirnar. Þau voru engar súperhetjur, bara venjulegt fólk í óvenjulegum aðstæðum, að vísu vel gefið fólk sem leitaði lausna og vildi fá botn í málið.
En nú er það búið og Stieg Larsson líka öllum lokið. *dæs*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 13. janúar 2012
Hvað er málvilla?
Samkvæmt orðabók er málvilla skelfilega óljós: villa í máli.
Verður málvilla að heyrast? Er ekki nóg að hún sjáist í ritmáli? Gerir sá sem segist ætla að reima á sig skónna sig bara sekan um stafsetningarvillu?
Er málvilla að segja:
Þau urðu uppvís að því að draga að sér fé? Mér finnst það.
Hann hafði mörg orð um hve honum þætti það ljótt? Mér finnst það.
Hún skuldaði einn fjórða eða 25%? Mér finnst það.
Þar voru hundruðir manna? Mér finnst það.
Menn sem lemja aðra menn er einsleitur hópur. Mér finnst það.
Þau tóku djúpt í árina? Mér finnst það.
Ég hef gaman að þessu? Mér finnst það.
Það er gaman af þessu? Mér finnst það.
Hættir málvilla að vera málvilla þegar meira en helmingur er farinn að tala vitlaust?
Hver ákveður hvað er vitlaust og ljótt í máli? Hvar byrjaði málfræðin? Og hvaða gagn höfum við af því að tala rétt mál?
Ég heyrði í gær að það væri fráleitt að einhverjir Danir segðu aðra Dani tala ljótt eða rangt mál. Bretar tala svo margar mállýskur að þar er eðlilegur munur á mæli manna. Hér hefur hins vegar hver maður skotleyfi þegar kemur að tungutaki. Og ég hef ekki hikað við að skjóta.
| villa í máli, rangt atriði í máli |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. janúar 2012
Vegna útlits eða ekki
Ég les lítið af öfgafullum síðum þannig að ég stend í þeirri meiningu að umræðan um PIP sé öll mjög stillt og yfirveguð. Samt heyri ég auðvitað bæði þá afdráttarlausu skoðun að ríkið eigi að borga umyrðalaust fyrir að fjarlægja iðnaðarsílíkonið og það skorinorða viðhorf að konur sem kjósa þá áhættu að fá aðskotahlut í líkamann eigi sjálfar að axla þá ábyrgð sem fylgir.
Nú hefur læknirinn sem gerði 40 aðgerðir á ári í 10 ár stigið til hliðar vegna eigin veikinda. Ekkert veit ég hvað hann hugsaði eða vissi og ætla ekki að gera honum neitt upp. En getur verið að maður sem flytur inn sílíkon og kemur því fyrir á svona viðkvæmum stað viti ekki um áhættuna af því? Verðleggur hann ekki þjónustuna út frá því? Eða hvernig er verðið myndað? Hvaða tekjur hefur hann haft af hartnær einni ígræðslu á viku til viðbótar við aðrar lýtaaðgerðir á eigin stofu og það að vera yfirmaður á deild á Landspítalanum?
Mér dettur ekki í hug að allar konur sem fá svona sílíkon geri það af hégómleika. Ég er ekki hlynnt því að konur séu með tifandi tímasprengjur innanborðs. En það hlýtur að vera einhver fjárhagsleg brú þarna. Það verður engin sátt um að gróði af svona nokkru hafni í öðrum vösum en þarf að grafa ofan í til að borga fyrir tjónið.
Hver átti að hafa eftirlitið? Klikkaði sá aðili? Ein vinkona mín gróf upp 10 ára gamla Veru þar sem einhverju í þessa veru var spáð. Var þetta ekki pínulítið fyrirsjáanlegt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. janúar 2012
,,Íslenska krónan – bölvun eða blessun?"
Gylfi Arnbjörnsson, Arnór Sighvatsson, Friðrik Már Baldursson og Ragnar Árnason voru ekki á einu máli um hvort krónan væri bölvun eða blessun, byrði eða blóraböggull þegar þeir fluttu erindi um málið á fundi ASÍ. Þó heyrðist mér þeir vera sammála um að fyrir mestu væri að hagstjórnin væri burðug en að hún hefði ekki verið það í háa herrans tíð.
Eins og gefur að skilja hafa konur hvorki vit né áhuga á svona flóknum málum og var því engin fengin til að tjá sig í ræðu.
Síðasti ræðumaður dró fyrir sína parta skýrar línur í lokaglærunni:
Íslensk eða norsk króna, kanadískur eða bandarískur dollar, evra kannski eða svissneskur franki? Eða snýst gjaldmiðillinn bara um hagstjórnina sjálfa? Með samtengdum gjaldmiðli er ekki hægt að fella gengið og lækka laun allra um 30% án blóðsúthellinga.
Að henda krónunni eða ekki, þar er efinn.
Vilja menn kannski ekki bestu lausnina fyrir fjöldann? Vilja menn bara bestu lausnina fyrir sig?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. janúar 2012
Segin saga
Ég horfði loksins á Innherjaránið sem var í sjónvarpi allra landsmanna í síðustu viku. Ég hélt að ég væri búin að sjá þetta allt, enda hafa heimildamyndirnar verið allnokkrar síðan Lehman-bræður duttu á hausinn í september 2008 og tóku ýmsa með sér í fallinu.
Og já, mér fannst ég ekki sjá margt nýtt. Ný nöfn, ný andlit, breyttar tölur, annar gjaldmiðill, stærri heimur - en kommon, upplýsingarnar liggja fyrir. Það skiptir sáralitlu fyrir upplifunina, skynjunina og skilninginn hvort við vitum um 101. dúddann eða 201. dúddínuna. Fjármálaglæframenn með hagfræðimenntun eða aðra fjármálamenntun skákuðu í meintu vitneskjuskjóli en svo þegar á hólminn var komið báru þeir fyrir sig þekkingarleysi, upplýsingaskort eða almennt siðleysi. Kölluðu það eitthvað annað eins og eðlilegan ágóða, launagreiðslur eða bónusa fyrir vel unnin störf við að setja stórfyrirtæki á hausinn og koma nytsömum sakleysingjum á kaldan klaka.
Já, kölluðu það eitthvað annað auðvitað.
Það verður áreiðanlega hægt að gera aðra heimildamynd í bíólengd og segja frá enn fleiri fundum, sýna fleiri skot frá fíflum sem sitja eins og þvörur fyrir framan þá fáu bandarísku þingmenn sem bæði skildu og þorðu að þjarma svolítið að þeim, rifja upp fleiri tölvupósta þar sem menn tala um að varan sem þær ætla að selja fyrir morð fjár sé drasl og ætti að vera óseljanleg.
En nú þarf aðgerðir. Eftir hverju er beðið?
Jú, líklega því að forseti Bandaríkjanna sé ekki lengur á mála hjá fjármálaöflunum. *geisp*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)